Fréttir



Góður árangur sjóða GAMMA

23.5.2017 Starfsemi Vísitölur

Blandaði sjóðurinn Total Return Fund og hlutabréfasjóðurinn Equity hafa skilað mjög góðri ávöxtun undanfarin misseri. 

GAMMA: Equity Fund hefur skilað 16,9% ávöxtun sl. 12 mánuði og er með hæstu ávöxtun meðal samanburðasjóða yfir sama tímabil. Árleg ávöxtun Equity frá stofnun að dagslokagengi 19.05 er 19,3%. Hlutabréfamarkaðurinn hefur verið sterkur en miklar breytingar hafa verið í ytra umhverfi fyrirtækja að undanförnu. Krónan hefur styrkst mikið sem hefur gert fyrirtækjum með tekjur í erlendri mynt erfiðara fyrir, þrátt fyrir það hefur Marel hækkað mikið en rekstur félagsins hefur verið í miklum blóma. Þá hefur Seðlabanki Íslands lækkað stýrivexti um 1% sl. ár og að okkar mati er innstæða fyrir frekari lækkunum vaxta. Þetta hefur haft jákvæð áhrif á félög í innlendri starfsemi,  s.s. fasteignafélög, smásölufyrirtæki og tryggingafélög. Að okkar mati eru aðstæður í hagkerfinu og ytri þættir hagfeldir fyrir hlutabréfamarkaðinn og teljum við að góð tækifæri séu á markaðnum.

GAMMA: EQUITY FUND er fjárfestingarsjóður, skv. lögum 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, sem fjárfestir að meginhluta í skráðum hlutabréfum. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum, innlánum fjármálafyrirtækja, skuldabréfum með ríkisábyrgð og nýta sér afleiðusamninga til áhættustýringar eða sem hluta af fjárfestingarstefnu.

Equitytotalreturnfrett

Ávöxtunartölur fengnar af keldan.is og m.v dagslokagengu 19.05.2017

GAMMA: Total Return Fund hefur skilað 17,5% ávöxtun sl. 12 mánuði sem er hæsta ávöxtun meðal innlendra sjóða á íslenska markaðinum. Árleg ávöxtun TRF frá stofnun að dagslokagengi 19.05 er 13,7%.

Sjóðurinn fjárfestir í vel dreifðu safni með áherslu á fjárfestingar í hlutabréfum, fyrirtækjaskuldabréfum og sérhæfðum fjárfestingakostum s.s. fasteignaverkefni og óskráð hlutabréf. 

Markmið sjóðsins er að skila jafnri og góðri raunávöxtun með virkri stýringu og stöðugri vöktun á þeim fjárfestingarkostum sem í boði eru hverju sinni. Sem dæmi má nefna þá hefur hefur vigt hlutabréfa síðustu 12 mánuði í eignasafni sjóðsins verið á bilinu 25-50%, allt eftir mati sjóðsstjóra á markaðsaðstæðum hverju sinni.

GAMMA: Total Return Fund er fjárfestingarsjóður, skv. lögum 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði, stofnaður árið 2012 og fjárfestir í vel dreifðu safni fjárfestingarkosta.

Sjóðstjórar GAMMA: Equity Fund og GAMMA: Total Return Fund eru Jóhann Gísli Jóhannesson og Valdimar Ármann. Jóhann hóf störf hjá GAMMA árið 2015, áður  starfaði hann sem sjóðsstjóri innlendra hlutabréfa hjá Íslandssjóðum . Þá hefur Jóhann einnig sinnt stundakennslu við hagfræðideild HÍ þar á meðal í afleiðukúrs frá árinu 2013. Jóhann er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið meistarnámi í fjármálum frá sama skóla. Valdimar, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur, hóf störf hjá GAMMA árið 2009 og er forstjóri félagsins ásamt því að stýra sjóðunum tveimur. Valdimar starfaði áður hjá ABN AMRO í London 2003-2006 og síðan í New York frá 2006-2008 hjá sama banka, og síðast RBS sem Vice President, Head of Inflation Structuring USA. Valdimar er aðjúnkt við Háskóla Íslands og sinnir nú  stundakennslu í meistaranámi í fjármálahagfræði.

Tölur hér að ofan vísa til fortíðar og athygli er vakin á því að söguleg ávöxtun gefur ekki vísbendingu um framtíðarávöxtun. Almennt fylgir áhætta fjárfestingu í fjárfestingarsjóðum og eignarhlutdeild getur rýrnað, aukist eða staðið í stað.

Umfjöllun þessi felur ekki í sér fjárfestingarráðgjöf eða tilboð eða hvatningu um að eiga viðskipti með verðbréf eða hlutdeildarskírteini. GAMMA Capital Management hf. er rekstrarfélag Fjárfestingarsjóðs GAMMA. GAMMA: Equity Fund er deild í fjárfestingarsjóði samkvæmt lögum nr. 128/2011. Nánari upplýsingar um áhættu og fjárfestingar má finna í útboðslýsingu, reglum og lykilupplýsingum (KIID), sem nálgast má á heimasíðu GAMMA,  www.gamma.is  eða skrifstofu GAMMA við Garðastræti 37 í Reykjavík. Fjárfestar eru hvattir til að kynna sér þessar upplýsingar nánar. Ávöxtunartölur sjóðs eru fengnar af vefsvæðinu Keldan.is. Kaupum á hlutdeildarskírteinum sjóðsins fylgir veruleg hætta á verðsveiflum en áhættumælikvarðinn getur breyst án fyrirvara.

 

Senda grein