Fréttir



Breytingar á reglum GAMMA: Total Return Fund

16.2.2016 Starfsemi

Helstu breytingar á reglum GAMMA: Total Return Fund snúa að því að auka heimild sjóðsins til fjárfestinga í erlendum verðbréfum en mikilvægt verður að ná fram eignadreifingu erlendis eftir að gjaldeyrishöftum verður aflétt.

Þann 6. janúar síðastliðinn staðfesti Fjármálaeftirlitið reglubreytingar Fjárfestingarsjóðs GAMMA. Var útboðslýsingu, lykilupplýsingum og reglum breytt til samræmis og hefur verið uppfært á heimasíðu sjóðsins:

GAMMA: Total Return Fund er fjárfestingarsjóður sem er opinn öllum fjárfestum og hefur það markmið að viðhalda og auka að raunvirði verðmæti eigenda sjóðsins með virkri stýringu. Helstu breytingarnar á reglum GAMMA: Total Return Fund snúa að því að auka heimild sjóðsins til fjárfestinga í erlendum verðbréfum en mikilvægt verður að ná fram eignadreifingu erlendis eftir að gjaldeyrishöftum verður aflétt. Þá er heimildum nú skipt upp eftir því hvort um sé að ræða beinar fjárfestingar í hlutabréfum og skuldabréfum eða í gegnum hlutdeildarskírteini í sjóðum.  

Í reglubreytingunni felst eftirfarandi:

  • Heimild sjóðs til fjárfesta í erlendum verðbréfum og sjóðum hefur verið hækkuð úr 25% af eignum sjóðsins í allt að 50% af eignum sjóðsins. Heimildinni er skipt þannig að sjóðurinn má fjárfesta allt að 15% af eignum sínum í erlendum skráðum verðbréfum og allt að 35% í hlutdeildarskírteinum erlendra sjóða.
  • Sjóðurinn hefur nú heimild til að fjárfesta allt að 30% í innlendum hlutabréfum og allt að 30% í hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta að meginhluta í hlutabréfum.
  • Sjóðurinn hefur nú heimild til að fjárfesta frá 10% upp í allt að 80% af eignum sínum beint í skuldabréfum og víxlum útgefnum af ríkissjóði. Þá hefur sjóðurinn heimild til að fjárfesta frá 10% upp í allt að 50% af eignum sínum í innlendum skráðum skuldabréfum og víxlum ásamt því að hafa heimild til að fjárfesta frá 10% upp í allt að 30% af eignum sínum í hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta að meginhluta í skuldabréfum.

 Fjárfestingarheimildir sjóðsins eru nú svohljóðandi:

Skuldabréf og víxlar, sem gefnir eru út af ríkissjóði, aðilum með ríkisábyrgð eða tryggðir með ríkisábyrgð, s.s. Íbúðalánasjóði. 10 – 80%
Innlend skráð hlutabréf. 0 – 30%
Innlend skráð skuldabréf og víxlar (önnur en skv. 1.). 10 – 50%
Erlend skráð verðbréf. 0 – 15%
Hlutdeildarskírteini í erlendum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu þ.e. verðbréfasjóðir. 0 – 35%
Innlán fjármálafyrirtækja. 0 – 30%
Óskráð skuldabréf og víxlar (önnur en skv. 1.). 0 – 15%
Óskráð hlutabréf. 0 – 15%
Skuldabréfasjóðir þ.e. hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta að meginhluta í skuldabréfum þ.e. verðbréfasjóðir eða fjárfestingarsjóðir. 10 – 30%
Hlutabréfasjóðir þ.e. hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta að meginhluta í hlutabréfum þ.e. verðbréfasjóðir eða fjárfestingarsjóðir. 0 – 30%
Aðrir sjóðir um sameiginlega fjárfestingu þ.e. fagfjárfestasjóðir, innlendir eða erlendir. 0 – 20%
Afleiður. 0 – 60%

Allar nánari upplýsingar um sjóðinn má nálgast hjá sjóðsstjórum, á heimasíðu hér, eða í síma 519-3300.  Reglur og lykilupplýsingar má nálgast hér.

Helstu fjárfestingarákvarðanir sjóðsins eru ákvarðaðar af fjárfestingarteymi GAMMA en Valdimar Ármann, framkvæmdstjóri sjóða, er sjóðsstjóri sjóðsins.

Senda grein