FréttirVísitölur GAMMA - yfirlit yfir árið 2015

4.1.2016 Vísitölur

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 18,2% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og bar Hlutabréfavísitala GAMMA langsamlega hæstu ávöxtunina yfir árið eða 49,9%. 

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 18,2% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og bar Hlutabréfavísitala GAMMA langsamlega hæstu ávöxtunina yfir árið eða 49,9%. Vísitala ríkisskuldabréfa hækkaði um 9,1% þar sem óverðtryggði hlutinn hækkaði um 6,7% og sá verðtryggði um 10,2%. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 7,4%. Verðbólga var 2,0% á árinu (des-des) og raunávöxtun allra eignaflokka því jákvæð.

Eins og sjá má ef neðangreindri mynd er umtalsverður munur á ávöxtun eignaflokka á milli ára, til að mynda hækkaði Hlutabréfavísitala GAMMA um 32,3% árið 2013 borið saman við 7,3% árið 2014 og loks 49,9% hækkun yfir árið 2015. Mælt með Markaðsvísitölunni var 2015 umtalsvert betra ár á eignamörkuðum heldur en bæði 2013 og 2014.

Ávöxtun vísitalna GAMMA sl. 3 ár

Áhugavert er að líta til þróunar vísitalnanna yfir árið, en til að mynda er það ekki fyrr en á seinni helmingi ársins sem óverðtryggði hluti ríkisskuldabréfavísitölunnar sýnir jákvæða ávöxtun. Í byrjun júní var eignaflokkurinn niður um 4,7% en tók við sér þrátt fyrir þrjár stýrivaxtahækkanir á seinni helmingi ársins og endaði í +6,7%. Allir eignaflokkar fyrir utan hlutabréf, sem áttu ágætan desembermánuð (+2,9%), náðu hæstu hæðum rétt fyrir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í byrjun nóvember. Þá voru stýrivextir hækkaðir óvænt um 0,25 prósentustig og lækkanir á mörkuðum fylgdu í kjölfarið.

Þróun vísitalna GAMMA yfir árið

Lengri skuldabréfaflokkarnir báru höfuð og herðar yfir styttri bréf á árinu, en RB 31 [+11,9%], HFF 44 [+11,9%] og HFF 34 [+9,8%] sýndu bestu heildarávöxtunina á meðan RB 17 [3,2%], RB 16 [+3,9%] og RB 19 [+4,1%] þá lökustu. RB 31 hefur nú skilað 12,6% meðalávöxtun síðastliðin 2 ár.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra skuldabréfa árið 2015

 

Ávöxtun á hlutabréfamarkaði var almennt afar góð yfir árið, en Marel [+83,7%], Icelandair [+69,2%] og N1 [+51,3%] sýndu bestu ávöxtunina á meðan Eimskip [1,6%], TM [9,8%] og VÍS [12,8%] þá lökustu (Síminn er undanskilinn þessari upptalningu þar sem fyrirtækið hefur einungis verið á markaði í 2 og hálfan mánuð). Öll hlutabréfin í neðangreindri töflu hafa verið í vísitölu GAMMA yfir árið nema Síminn og Össur, en Össur hefur verið með minnstu veltuna og þar af leiðandi verið undanskilið. Ávöxtun hjá Eik, Reitum og Símanum miðast við fyrsta dagslokagengi frá skráningu.

 

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra hlutabréfa árið 2015

Umfang hlutabréfa og sértryggðra skuldabréfa eykst

Líkt og síðastliðin tvö ár sóttu hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf í sig veðrið árið 2015, jafnt með verðhækkunum sem og útgáfum í nýjum og eldri flokkum. Skuldabréfin í fyrirtækjavísitölunni eru nú orðin 23 talsins, þar af 17 sértryggð bankabréf. Sértryggðu bréfin eru nú orðin 52,5% af vísitölunni en um síðustu áramót stóð þetta hlutfall í 36%. Nánast öll hækkun á markaðsvirði fyrirtækjavísitölunnar yfir árið má rekja til sértryggða hlutans, eða um 93%.

Samsetning Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa um áramótin

Fyrirtæki innan hlutabréfavísitölunnar eru nú 14 talsins og bættust 3 ný félög við árið 2015 (Eik, Reitir og svo Síminn um áramótin). Hlutfall þeirra í Markaðsvísitölunni heldur því áfram að hækka á kostnað ríkistryggðu vísitölunnar, sem er þó enn um 61% af heildarvísitölunni. Núverandi samsetning Markaðsvísitölu GAMMA er 39,9% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 20,8% óverðtryggð ríkisbréf, 30,6% hlutabréf og 8,7% fyrirtækjaskuldabréf.

Þróun á samsetningu Markaðsvísitölu GAMMA

Heildarmarkaðsvirði Markaðsvísitölu GAMMA í árslok 2015 var 2.482 milljarðar (125% af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2014) og hækkaði um 490 milljarða á árinu. Allir eignaflokkar hækkuðu að markaðsvirði á árinu og var mesta hækkun í Hlutabréfavísitölu GAMMA, sem hækkaði um 314 milljarða (úr 445 milljörðum í 759 milljarða).

 

Velta með sértryggð skuldabréf eykst um 450% frá fyrra ári

 

Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2015 var 2.250 milljarðar, eða um 9 milljarðar á dag að meðaltali. Þetta er talsverð hækkun frá 2014 en þá var heildarvelta 1.726 milljarðar og veltuaukningin því rúm 30%. Ástæðuna má einkum rekja til aukinnar veltu með óverðtryggð ríkis- og ríkistryggð skuldabréf, en hún jókst um 333 milljarða á milli ára.

Skipting heildarveltu 2015 eftir eignaflokkum

Af einstökum vísitölum var langmest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf [GAMMAxi] eða 1.449 ma. (64% af heild), næst í hnapp voru verðtryggð ríkis- og íbúðabréf [GAMMAi] með 372 ma. veltu (17%), og Hlutabréfavísitala GAMMA með 372 ma. (17%) og loks Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa með 56 ma. (3%). Þrátt fyrir lágt hlutfall af heildarveltu er Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hástökkvari ársins með 110% veltuaukningu frá árinu 2014 og sér í lagi er sértryggða undirvísitalan GAMMAcb með 450% veltuaukningu. Velta með sértryggð bréf tók sérstaklega mikinn kipp undir lok ársins líkt og neðangreind mynd sýnir.

Þróun á veltu sértryggðra bréfa síðastliðin 2 ár

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið. Allar nánari upplýsingar um Vísitölur GAMMA má nálgast á heimasíðu GAMMA hér:http://www.gamma.is/visitolur/

 

Frekari upplýsingar um vístölur GAMMA veitir Ellert Arnarson í síma 519-3300 eða á ellert@gamma.is

Hægt að óska eftir að fá vísitölugildi send daglega í tölvupósti með því að láta vita á gamma@gamma.is eða síma 519-3300.

Senda grein