Vísitölur GAMMA

Vísitölur GAMMA eru 7 talsins og sýna ávöxtun á íslenskum verðbréfamarkaði. Þær eru nú almennt viðurkenndar sem viðmið í eignastýringu hérlendis.

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið.

Söguleg þróun

Vísitölur GAMMA hafa ekki allar sömu upphafsdagsetningu. Skuldabréfavísitala GAMMA tekur gildið 100 í upphafi árs 2005 en er bakreiknuð allt aftur til ársins 2000. Hlutabréfavísitala GAMMA er reiknuð aftur til ársbyrjunar 2009 á meðan Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa og Markaðsvísitala GAMMA ná aftur til ársbyrjunar 2012, allar með upphafsgildið 100. Hér má sjá þróun vísitalnanna á Datamarket:


Tilgangur

Tilgangur vísitalna getur verið margvíslegur. Á gagnsæjum og skilvirkum markaði er nauðsynlegt að það liggi skýrt fyrir hver ávöxtun heildarmarkaðar sé til þess að samanburður sé fljótlegur og gagnlegur. Á þetta hefur nokkuð skort á íslenskum mörkuðum.

Að jafnaði eru vísitölur á verðbréfamörkuðum notaðar til að varpa ljósi á almenna þróun markaðar yfir tíma. Í daglegu máli, þegar talað er um að „markaðurinn“ sé að hækka eða lækka, er því gjarnan átt við vísitölu sem notuð er sem fulltrúi markaðarins. Hlutabréfa- og skuldabréfavísitölur hafa þó fleiri not heldur en að endurspegla þróun á markaði. 

Önnur ástæða fyrir smíði þeirra snýst um að nýta þær sem fjárfestingarviðmið. Í því hlutverki er litið á vísitöluna sem eins konar hlutlaust mat á þeirri ávöxtun sem fjárfestir getur vænst með því að fjárfesta á þeim markaði sem vísitalan mælir. Þannig má meta frammistöðu sjóða sem standa fjárfestum til boða á markaði og meta hvort að virk stýring sjóðsstjóra skili umframávöxtun sem standi undir þóknun sjóðsins. 

Loks má nefna að vísitölur eru oft notaðar sem fjárfesting í sjálfu sér, en þá er vísitölunni fylgt eftir af sjóð sem fjárfestir í sömu hlutföllum og samsetning vísitölunnar segir til um.

Markaðsvísitala GAMMA

Markaðsvísitala GAMMA er samsett úr Hlutabréfavísitölu GAMMA, Skuldabréfavísitölu GAMMA og Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa. Hver undirvísitala hlýtur vægi í samræmi við heildarmarkaðsvirði. Þannig sýnir Markaðsvísitalan heildarávöxtun allra helstu eigna á íslenskum verðbréfamarkaði.

Markaðsvísitala GAMMA er nýjung á íslenskum fjármálamarkaði, en ávöxtun á markaðnum í heild sinni hefur ekki verið tekin saman og birt opinberlega með slíkum hætti áður.

Vísitalan er uppfærð daglega út frá gengi þeirra undirvísitalna sem mynda hana og eru hlutfallsvigtir þeirra endurreiknaðar daglega miðað við lokagengi síðasta viðskiptadags á undan og markaðsvirði.

Hlutabréfavísitala GAMMA

Hlutabréfavísitala GAMMA sýnir heildarávöxtun hlutabréfa á Aðallista NASDAQ OMX Iceland, þar sem hlutabréfin eru hlutfallsvigtuð eftir flotleiðréttu markaðsvirði. Heildarávöxtun þýðir að arðgreiðslur eru í raun endurfjárfestar aftur í vísitölunni. Samsetning vísitölunnar er endurskoðuð ársfjórðungslega og ganga breytingarnar í gegn á fyrsta viðskiptadegi janúar, apríl, júlí og október ár hvert, byggt á markaðsupplýsingum fimm viðskiptadögum fyrr. Gjaldgeng fyrirtæki teljast þau sem:

  • eru skráð á Aðallista NASDAQ OMX Iceland,
  • gefa út hlutabréf sín í krónum og
  • eru með a.m.k. 10% af heildarmarkaðsverðmæti sínu í frjálsu floti.

Gjaldgengum fyrirtækjum er fyrst upp eftir veltu seinustu sex mánaða og síðan eru fyrirtæki tekin inn í vísitöluna hvert á fætur öðru þangað til að minnsta kosti 90% af flotleiðréttu markaðsvirði allra gjaldgengra fyrirtækja er komið inn í vísitöluna. Fyrirtækjasamsetning vísitölunnar er endurskoðuð ársfjórðungslega, meðal annars til að tryggja að ný fyrirtæki á markaði séu tekin tiltölulega fljótt inn í vísitöluna í kjölfar útboða. Fjöldi útistandandi hluta þeirra fyrirtækja sem tekin eru inn í vísitöluna er festur á milli endurskoðana.

Vísitalan er uppfærð daglega út frá opinberu lokagengi hvers dags eins og það birtist á NASDAQ OMX Iceland og eru hlutfallsvigtir hlutabréfanna endurreiknaðar daglega miðað við lokagengi síðasta viðskiptadags á undan og flotleiðrétt markaðsvirði.

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa

Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa var sett á laggirnar í september 2013. Vísitalan nær yfir þann hluta skuldabréfamarkaðarins sem stendur utan við ríkisskuldabréfamarkaðinn og samanstendur af sértryggðum skuldabréfum bankanna, útgáfum Lánasjóðs Sveitarfélaga og Reykjavíkur og öðrum fyrirtækjaskuldabréfum.

Vegna skorts á seljanleika hafa vísitölur fyrir fyrirtækjaskuldabréf ekki verið jafn áberandi og vísitölur ríkisskuldabréfa, en síðustu ár hafa fræðimenn og fagfólk beint athygli sinni í auknum mæli að þessum hluta markaðarins. Í þeim tilgangi að smíða fyrirtækjaskuldabréfavísitölu fyrir íslenskan markað var litið til erlendra fræða og vísitalna, þar sem slík vísitala hafði hingað til ekki verið smíðuð fyrir íslenskan markað. Má þar nefna fræðigreinar EDHEC Risk Institute og aðferðafræði útgefenda eins og Barclays og Bank of America Merrill Lynch.

Skuldabréf innan vísitölunnar eru hlutfallsvigtuð eftir markaðsvirði og mælir vísitalan heildarávöxtun, sem þýðir að afborganir og vaxtagreiðslur eru endurfjárfestar aftur í vísitölunni.

Vísitalan er reiknuð út frá opinberu lokagengi hvers dags eins og það birtist á NASDAQ OMX Iceland. Ef skuldabréf er ekki með markaðsvakt í íslensku kauphöllinni er það sjálfkrafa ekki í vísitölunni. Skuldabréf sem eru styttri en 6 mánuðir koma heldur ekki til greina.

Á fyrsta degi hvers mánaðar er vísitalan endurstillt, þ.e. of stutt skuldabréf detta út og nýjum skuldabréfum er hleypt inn. Hlutfallsvigtir einstakra skuldabréfa eru endurstilltar daglega miðað við markaðsverðmæti síðasta viðskiptadags á undan og nafnverð útistandandi bréfa. 

Sértryggð vísitala GAMMA

Sértryggða vísitala GAMMA er undirvísitala í Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa og fylgir sömu reglum. Í kjölfar kraftmeiri útgáfu bankanna á sértryggðum skuldabréfum auk umfangsmeiri viðskiptavaktar og veltu á markaði, var ákveðið að hefja útreikning á sérstakri undirvísitölu fyrir þennan eignaflokk.

Vísitalan mælir heildarávöxtun útgefinna sértryggðra skuldabréfa bankanna, þ.e. Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans. Gerð er krafa um að skuldabréf séu með samninga um viðskiptavakt og að ekki sé styttra en 6 mánuðir í lokagjalddaga svo þau geti talist gjaldgeng í vísitöluna. Vísitalan er reiknuð aftur til mars 2012 þegar þriðja gjaldgenga sértryggða skuldabréfið er gefið út.

Skuldabréfavísitala GAMMA

Skuldabréfavísitala GAMMA er fyrsta vísitalan sem GAMMA hóf birtingu á, en hún var sett á laggirnar árið 2009. Á þeim tíma var engin vísitala í opinberri birtingu sem sýndi þróun og samsetningu á íslenskum ríkisskuldabréfamarkaði. Vísitalan sýnir heildarávöxtun útgefinna íbúðabréfa, ríkisbréfa og verðtryggðra ríkisbréfa, hlutfallsvigtað miðað við markaðsverðmæti hvers bréfs í hlutfalli af heildarmarkaðsverðmæti skuldabréfa í vísitölunni. Heildarávöxtun þýðir að vaxtagreiðslur og afborganir eru í raun endurfjárfestar aftur í vísitölunni.

Skuldabréfavísitala GAMMA skiptist í tvær undirvísitölur - verðtryggðan hluta (GAMMAi) og óverðtryggðan (GAMMAxi). Vísitölurnar eru reiknaðar út frá opinberu lokagengi hvers dags eins og það birtist á NASDAQ OMX Iceland. Það tryggir gagnsæi og áreiðanleika vísitalnanna. Ef skuldabréf eru ekki með markaðsvakt í NASDAQ OMX Iceland er það sjálfkrafa ekki í Skuldabréfavísitölu GAMMA. Skuldabréf sem eru styttri en 6 mánuðir eru ekki tekin með í vísitöluna.

GAMMA birtir vísitölurnar fyrir hvern dag í lok dagsins. Á fyrsta degi hvers mánaðar eru vísitölurnar endurstilltar þ.e. of stutt skuldabréf detta út og ný skuldabréf koma inn. Einnig eru hlutfallsvigtir hvers skuldabréfs endurstilltar miðað við markaðsverðmæti síðasta viðskiptadags mánaðarins á undan og nafnverð útistandandi bréfa.