Fréttir



Ný vísitala fyrir sértryggð bréf

30.3.2015 Starfsemi Vísitölur

GAMMA hefur hafið opinbera birtingu á vísitölu fyrir sértryggð skuldabréf, GAMMA: Covered Bond Index, sem er undirvísitala í vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa. 

GAMMA hefur hafið opinbera birtingu á vísitölu fyrir sértryggð skuldabréf, GAMMA: Covered Bond Index, sem er undirvísitala í vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa. Vísitalan nær yfir útgáfu sértryggðra skuldabréfa skv. lögum nr. 11/2008 um sértryggð skuldabréf og reglur um sértryggð skuldabréf nr. 528/2008 og er útgáfa þeirra háð leyfi FME. Viðskiptabankarnir þrír, Arion, Íslandsbanki og Landsbanki, nýta sértryggð skuldabréf til fjármögnunar íbúðarlána.

Vísitölusafn GAMMA

Tilgangur með vísitölum GAMMA er að stuðla að gagnsæjum og skilvirkum verðbréfamarkaði með því að varpa ljósi á almenna þróun á markaði yfir tíma. Þær má jafnframt nota sem fjárfestingarviðmið fyrir sjóðsstjóra. Með tilkomu sértryggðu vísitölunnar eru þær orðnar 7 talsins og samanstanda af markaðsvísitölu, hlutabréfavísitölu og fimm skuldabréfavísitölum.

Markaður með sértryggð skuldabréf

Markaður með sértryggð skuldabréf er mikilvægur markaður sem fer ört vaxandi. Í upphafi árs 2012 var einungis ein sértryggð útgáfa á markaðnum, ISLA CBI 16 frá Íslandsbanka, sem var 4 milljarðar að markaðsvirði. Stærð markaðarins í dag er um 71 milljarður, sem jafngildir um 1675% hækkun á þremur árum(!) Af þeim eru 56 milljarðar í nýju sértryggðu vísitölunni, en mismunurinn skýrist af því að vísitalan útilokar ARION CB 15 vegna námunda við lokagjalddaga.

Þróun á útgáfum og markaðsvirði GAMMA: Covered Bond Index

Nýja vísitalan GAMMAcb

Nýja vísitalan heitir GAMMA: Covered Bond Index eða GAMMAcb.

GAMMA: Covered Bond Index er endurskoðuð í upphafi hvers mánaðar með tilliti til nýrra útgáfa og eru bréf, sem hafa styttra en 6 mánuði í lokagjalddaga, tekin út. Vísitalan er bakreiknuð aftur til loka mars 2012 og hefur þá gildið 100, en mars/apríl 2012 eru fyrstu mánaðamótin þar sem útgáfurnar eru fleiri en ein – hafði einungis verið ISLA CBI 16 fram að því. Ávöxtun vísitölunnar, miðað við lokagengi 25. mars 2015, hefur verið 6,0% á ársgrundvelli frá upphafi. Til samanburðar hefur ávöxtun skuldabréfavísitölu GAMMA, sem mælir ávöxtun á ríkistryggðum skuldabréfum, verið 5,2% yfir sama tímabil. 

Samanburður á ávöxtun sértryggðu vísitölunnar og skuldabréfavísitölu GAMMA frá mars 2012

Vísitalan er undirvísitala í vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa og er um 36% af markaðsvirði hennar líkt og sést af neðangreindri mynd. Hún er samsett úr sértryggðum bréfum stóru viðskiptabankanna þriggja, Arion, Íslandsbanka og Landsbankans. Íslandsbanki er með stærsta hlutdeild, eða 61% af markaðsvirði vísitölunnar, á eftir fylgir Arion með 25% og loks Landsbankinn með 14%. Verðtryggingarhlutfall vísitölunnar er 70% og líftími 5,1 ár. Meðal dagsvelta það sem af er ári eru 45 milljónir.

Samsetning vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa

Vísitölur GAMMA

 

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið. Allar nánari upplýsingar um Vísitölur GAMMA má nálgast á heimasíðu GAMMA hér: http://www.gamma.is/visitolur/

Frekari upplýsingar um vísitölur GAMMA veitir Ellert Arnarson í síma 519-3300 eða á ellert@gamma.is

Hægt að óska eftir að fá vísitölugildi send daglega í tölvupósti með því að láta vita á gamma@gamma.is eða síma 519-3300.

Senda grein