FréttirVísitölur GAMMA - yfirlit yfir árið 2014

5.1.2015 Vísitölur

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 5,0% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og bar óverðtryggði hluti ríkisskuldabréfavísitölu GAMMA hæstu ávöxtunina yfir árið eða 10,3%. 

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 5,0% á nýliðnu ári. Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og bar óverðtryggði hluti ríkisskuldabréfavísitölu GAMMA hæstu ávöxtunina yfir árið eða 10,3%. Hlutabréfavísitala GAMMA fylgdi á eftir með 7,3% ávöxtun.

Verðtryggði hluti ríkisskuldabréfavísitölu GAMMA, auk Vísitölu fyrirtækjaskuldabréfa ráku lestina með 1,9% og 2,0% ávöxtun. Raunávöxtun var í öllum tilfellum jákvæð þar sem verðbólga reyndist töluvert lægri en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir í upphafi ársins og var 0,8% á árinu. Hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja nálgast þriðjung af markaðnum í Markaðsvísitölu GAMMA og hefur vægi þeirra aukist verulega á síðustu tveimur árum.

Ávöxtun á Vísitölum GAMMA

Allar Vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu, bæði að raunvirði og nafnvirði. Vísitala ríkisskuldabréfa hækkaði um 4,4%, en mjög ólík þróun var á ávöxtun óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa þar sem óverðtryggði hlutinn hækkaði 10,3% en verðtryggði hlutinn hækkaði um 1,9%. Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 7,3% og Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 2,0%. Í heildina var 5,0% ávöxtun á nýliðnu ári á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA.

Umtalsverður munur er á ávöxtun milli áranna 2013 og 2014, til að mynda hækkaði Hlutabréfavísitala GAMMA um 7,3% árið 2014 borið saman við 32,3% hækkun yfir árið 2013.

Ávöxtun vísitalna GAMMA árin 2013 og 2014

Áhugavert er að líta til þess að það er ekki fyrr en á seinni helmingi ársins sem allar vísitölurnar sýna jákvæða ávöxtun. Fyrir utan einn og hálfan mánuð í upphafi ársins var Hlutabréfavísitala GAMMA lengst af með neikvæða ávöxtun á árinu, þróun sem sneri ekki við fyrr en í nóvember þegar fyrirtækin hófu að kynna uppgjör sín fyrir 3. ársfjórðung. Í kjölfarið fylgdu svo tvær stýrivaxtalækkanir sem skiluðu sér í enn meiri hækkun á hlutabréfum sem og myndarlegri hækkun á óverðtryggðum skuldabréfum. Hækkanir á verðtryggða hlutanum í kjölfar vaxtaákvarðana gengu að mestu leyti til baka undir lok ársins.

Þróun Vísitalna GAMMA yfir árið

Líkt og ávöxtun vísitalnanna sýnir báru óverðtryggð bréf höfuð og herðar yfir þau verðtryggðu á árinu, sér í lagi lengri flokkarnir. RB 31 [+13,3%], RB 25 [+12,5%] og RB 22 [+12,2%] sýndu bestu heildarávöxtunina á meðan RIKS 21 [-1,8%], HFF24 [+0,5%] og HFF34 [+1,4%] þá lökustu.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra skuldabréfa árið 2014

Ávöxtun á hlutabréfamarkaði var æði misjöfn eftir því um hvaða bréf er rætt, en Össur [+57,6%], Vodafone [+28,4%] og Grandi [+22%] sýndu bestu ávöxtunina á meðan Reginn [-12,9%], TM [-12%] og Sjóvá [-11,5%] þá lökustu. Miðað er við ávöxtun Granda frá því að fyrirtækið var skráð á aðalmarkað í apríl á genginu 27,7. Öll hlutabréfin í neðangreindri töflu hafa verið í vísitölu GAMMA yfir árið nema Össur sem hefur verið með minnstu veltuna og þar af leiðandi verið undanskilið.

Heildarávöxtun vísitölu og einstakra hlutabréfa árið 2014

Hlutabréf og skuldabréf fyrirtækja nálgast þriðjung af markaðnum

Líkt og árið á undan sóttu hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf í sig veðrið árið 2014, jafnt með nýjum útgáfum auk viðbótarútgáfa í þeim flokkum sem fyrir voru. Skuldabréfin í fyrirtækjavísitölunni eru nú orðin 20 talsins og fyrirtæki innan hlutabréfavísitölunnar  11 talsins. Til samanburðar voru 14 útgáfur í fyrrnefndu vísitölunni og 8 fyrirtæki í þeirri síðarnefndu í upphafi árs 2014. Hlutfall þeirra í Markaðsvísitölunni heldur því áfram að hækka á kostnað ríkistryggðu vísitölunnar, sem er þó enn um 70% af heildarvísitölunni. Núverandi samsetning Markaðsvísitölu GAMMA er 47,8% verðtryggð ríkis- og íbúðabréf, 22,9% óverðtryggð ríkisbréf, 21,7% hlutabréf og 7,6% fyrirtækjaskuldabréf. 

Skipting Markaðsvísitölu GAMMA

Heildarmarkaðsvirði Markaðsvísitölu GAMMA í árslok 2014 var 1.992 milljarðar (106% af vergri landsframleiðslu Íslands árið 2013) og hækkaði um 114 milljarða á árinu. Verðtryggð ríkis- og íbúðabréf lækkuðu um 49 milljarða að markaðsvirði á meðan virði annarra eignaflokka hækkaði. Mest hækkun var í Hlutabréfavísitölunni, um 101 milljarður (úr 329 milljörðum í 430 milljarða).

Lækkandi velta verðtryggðra skuldabréfa

 

Heildarvelta Markaðsvísitölu GAMMA árið 2014 var 1.726 milljarðar, eða um 7 milljarðar á dag að meðaltali. Þetta er lækkun frá 2013 en þá var heildarvelta rúmir 2.030 milljarðar. Ástæðuna má einkum rekja til lægri veltu með verðtryggð ríkis- og ríkistryggð skuldabréf, en hún lækkaði um 309 milljarða á milli ára.

Af einstökum vísitölum var langmest velta með óverðtryggð ríkisskuldabréf [GAMMAxi] eða 1.111 ma. (64%), næst komu verðtryggð ríkis- og íbúðabréf [GAMMAi] með 333 ma. veltu (19%), þar á eftir Hlutabréfavísitala GAMMA með 254 ma. (15%) og Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa með 28 ma. (2%).  

Þróun dagsveltu á árinu 2014

 

Vísitölur GAMMA ná yfir hlutabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf fyrirtækja sem skráð eru í NASDAQ OMX Iceland, eða íslensku kauphöllina. Vísitölurnar eru sendar út endurgjaldslaust í lok hvers viðskiptadags til áskrifenda. Söguleg gögn þeirra má nálgast á Datamarket og Bloomberg og er notkun þeirra heimil gegn því að heimildar sé getið. Allar nánari upplýsingar um Vísitölur GAMMA má nálgast á heimasíðu GAMMA hér: http://www.gamma.is/visitolur/

Frekari upplýsingar um vístölur GAMMA veitir Ellert Arnarson í síma 519-3300 eða á ellert@gamma.is

Hægt að óska eftir að fá vísitölugildi send daglega í tölvupósti með því að láta vita á gamma@gamma.is eða síma 519-3300.

Senda grein