Fréttir



Skammtímasjóður GAMMA tveggja ára

9.4.2013 Starfsemi

GAMMA: LIQUIDITY er að ná þeim áfanga að verða tveggja ára. Af því tilefni vildum við senda smá samantekt um stöðu og sýn sjóðsins í dag. Sjóðnum hefur verið vel tekið af viðskiptavinum GAMMA og er rúmlega 4 milljarðar að stærð.

GAMMA: LIQUIDITY er að ná þeim áfanga að verða tveggja ára en sjóðurinn var settur á laggirnar þann 13. apríl 2011. Af því tilefni vildum við senda smá samantekt um stöðu og sýn sjóðsins í dag. Sjóðnum hefur verið vel tekið af viðskiptavinum GAMMA og er rúmlega 4 milljarðar að stærð.

Hér má nálgast nýjasta einblöðung sjóðsins á heimasíðu GAMMA.

Eftir 0,6% hækkun sjóðsins í marsmánuði hefur ársávöxtun verið 4,5% á sama tíma og verðbólga hefur verið 4,0% sem gerir raunávöxtun jákvæða um 0,5%. Litið fram á veginn eru væntingar til þess að ávöxtun sjóðsins muni haldast áfram góð. Heimildum sjóðsins hefur nýlega verið breytt á þann veg að hann má nú binda allt að 80% eigna sinna í innlánum fjármálafyrirtækja í stað 50% áður. Þar sem vaxtamunurinn á bundnum innlánum og stuttum ríkisvíxlum er nærri 2,5% þá hafa vaxtakjör sjóðsins hækkað töluvert við breytinguna og aukið hlutfall í bundnum innlánum fer að skila sér í aukinni ávöxtun sjóðsins. Við teljum að þessi hái vaxtamunur á stuttum ríkistryggðum eignum og bundnum innlánum sé ekki réttlætanlegur.

Nú eru vegnir meðalvextir á bundnum innlánum sjóðsins um 5,9% á ári. Hafa má í huga að það gefur ekki fyrirheit um að ávöxtun innlánahluta muni verða 5,9% næstu 12 mánuði þar sem innlánin eru ekki með fasta vexti heldur þarf að endurnýja reglulega, en sjóðurinn sér fram á að þessi kjör muni haldast viðunandi næstu misseri. Á móti innlánum fjárfestir sjóðurinn um 25% eigna í ríkistryggðum skuldabréfum og eru vegnir meðalvextir þeirra um 4,75%. Líftími skuldabréfanna er mjög stuttur eða um 0,2 ár og er að mestu leyti í óverðtryggðu ríkisskuldabréfi með breytilega vexti mánaðarlega. Þannig eru vegnir ársvextir eigna sjóðsins um 5,2% að teknu tilliti til umsýsluþóknunar. Við setjum þann fyrirvara á að þetta er ekki loforð um ávöxtun þar sem verð skuldabréfa og kjör innlána geta breyst. Spár greiningaraðila gera ráð fyrir lækkandi ársverðbólgu á næstu mánuðum og að hún gæti verið á bilinu 3,5%-4,0% eftir sumarið. Það eru því góðar líkur á því að raunávöxtun GAMMA: LIQUIDITY muni verða með ágætum á komandi mánuðum.

Allar frekari upplýsingar veitir Valdimar Ármann, sjóðsstjóri GAMMA:  LIQUIDITY í email valdimar@gamma.is eða síma 519-3304.

Um sjóðsstjóra:

Valdimar er með 10 ára reynslu af erlendum og íslenskum fjármálamörkuðum. Hann starfaði hjá ABN AMRO í London við verðbólgutengdar afurðir frá 2003-2006 og síðan í New York frá 2006-2008 hjá sama banka og síðast RBS. Starf hans var fólgið í þróun og hönnun verðbólgutengdra afurða ásamt miðlun, verðlagningu og áhættuvörnum á verðbólgutengdum afleiðum. Fyrst starfaði Valdimar hjá Búnaðarbankanum í afleiðum og gjaldeyrisviðskiptum. Valdimar hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum á Íslandi sem og á Bretlandi og Bandaríkjunum. Valdimar  er einnig aðjúnkt við Háskóla Íslands og kennir m.a. námskeiðið Skuldabréf í meistaranámi í hagfræði.

Senda grein