FréttirNýir sjóðir GAMMA - Equity & Credit

3.4.2013 Starfsemi

GAMMA hefur nýverið hafið rekstur á tveimur fjárfestingarsjóðum fyrir almenna fjárfesta og fagfjárfesta. 

Tveir nýjir sjóðir hafa verið settir á laggirnar sem munu fjárfesta annars vegar í skuldabréfum án ríkisábyrgðar og hins vegar í hlutabréfum. Eftir góða ávöxtun ríkisskuldabréfamarkaðar undanfarin ár teljum við að tækifæri sé til að huga betur að öðrum fjárfestingarkostum. Íslenskur hlutabréfamarkaður tók vel við sér árið 2012; ávöxtun var með ágætum, stór ný félög voru skráð á markað og veltan jókst gríðarlega. Væntingar eru um frekari nýskráningar á komandi misserum. Einnig eru væntingar til þess að skuldabréfaútgáfa annarra aðila en opinberra muni taka að aukast á næstunni.

GAMMA: CREDIT mun sérhæfa sig á íslenskum skuldabréfamarkaði án ríkisábyrgðar. Víðtæk sérfræðikunnátta sjóðsstjóra GAMMA á íslenskum og erlendum fjármálamörkuðum á sviði skuldabréfa,annarra vaxtaafurða og fyrirtækjagreininga er nýtt til að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu. Að meginhluta er fjárfest í skráðum skuldabréfum án ríkisábyrgðar en auk þess hefur sjóðurinn heimild til að fjárfesta í skuldabréfum með ríkisábyrgð, óskráðum skuldabréfum, innlánum fjármálafyrirtækja og nýta sér afleiðusamninga til áhættustýringar eða sem hluta af fjárfestingarstefnu.

GAMMA: EQUITY fjárfestir að meginhluta í skráðum hlutabréfum. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum, innlánum fjármálafyrirtækja, skuldabréfum með ríkisábyrgð og nýta sér afleiðusamninga til áhættustýringar eða sem hluta af fjárfestingarstefnu.

Á heimasíðu GAMMA má finna ítarlegar upplýsingar um sjóðina, þ.m.t. reglur og fjárfestingarstefnu, útboðslýsingu og útdrátt úr útgáfulýsingu:

http://www.gamma.is/sjodir/gamma-credit/

http://www.gamma.is/sjodir/gamma-equity/

Sjóðirnir eru fjárfestingarsjóðir skv. lögum 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Ýmis áhætta felst í fjárfestingu í fjárfestingarsjóðum og eru þeir að jafnaði áhættumeiri en verðbréfasjóðir. Frekari upplýsingar um áhættu sjóða má nálgast á heimasíðu GAMMA www.gamma.is.

Sjóðsstjórar eru Valdimar Ármann og Lýður Þorgeirsson og veita þeir frekari upplýsingar á emaili valdimar@gamma.is og lydur@gamma.is eða í síma 519-3300.

Upplýsingar um sjóðsstjóra:

Valdimar er með 10 ára reynslu af erlendum og íslenskum fjármálamörkuðum. Hann starfaði hjá ABN AMRO í London við verðbólgutengdar afurðir frá 2003-2006 og síðan í New York frá 2006-2008 hjá sama banka og síðast RBS. Starf hans var fólgið í þróun og hönnun verðbólgutengdra afurða ásamt miðlun, verðlagningu og áhættuvörnum á verðbólgutengdum afleiðum. Fyrst starfaði Valdimar hjá Búnaðarbankanum í afleiðum og gjaldeyrisviðskiptum. Valdimar hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum á Íslandi sem og á Bretlandi og Bandaríkjunum. Valdimar er einnig aðjúnkt við Háskóla Íslands og kennir m.a. námskeiðið Skuldabréf í meistaranámi í hagfræði.

Lýður hefur starfað við ýmis svið bankareksturs síðasta áratug. Lýður vann hjá skilanefnd Kaupþings sem lánastjóri erlendra lána og við ýmis sérverkefni en starfaði þar áður við fyrirtækjaráðgjöf og innheimtu fyrirtækjalána hjá Kaupþingi og Nýja Kaupþingi.  Árin 2000-2005 starfaði Lýður hjá Glitni bæði við skuldsetta fjármögnun evrópskra fyrirtækja (leveraged finance) og við áhættustýringu með áherslu á eftirlit með markaðs- og mótaðilaáhættu. Lýður er með MBA frá MIT Sloan, hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og hefur kennt verðmat fyrirtækja.

 

Fyrirvari:

Umfjöllun þessi felur ekki í sér fjárfestingarráðgjöf eða tilboð eða hvatningu um að eiga viðskipti með verðbréf. Mat, álit og forspár endurspegla eingöngu skoðanir þeirra starfsmanna GAM Management hf. sem vinna umfjöllunina og eru þær settar fram eftir bestu samvisku miðað við útgáfudag og kunna að breytast án fyrirvara. Þó svo upplýsingar þær sem birtast í þessari umfjöllun komi frá heimildum sem við teljum vera áreiðanlegar og þó svo við höfum lagt okkur fram um að tryggja áreiðanleika upplýsinganna á útgáfudegi þá ábyrgjumst við ekki beint eða óbeint notagildi þeirra varðandi forspá um framtíðarávöxtun eða mat á núverandi verðgildi eða framtíðarverðgildi verðbréfa. Umfjöllunin ætti hvorki að skoðast sem fullnægjandi lýsing á þeim verðbréfum né á þeim mörkuðum sem hér er vitnað til. Skoðanir, sem látnar eru í ljós, kunna að vera ólíkar skoðunum á sama efni sem látnar eru í ljós af öðrum starfsmönnum GAM Management hf. og stafar það af því að beitt er mismunandi forsendum eða aðferðafræði. GAM Management hf. er rekstrarfélag Fjárfestingarsjóðs GAM Management. Sjóðurinn er fjárfestingarsjóður skv. lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Nánari upplýsingar um áhættu og fjárfestingar má finna í útboðslýsingu eða útdrætti úr útboðslýsingu sjóðsins, sem nálgast má á heimasíðu GAM Management hf. eða á skrifstofu félagsins. Almennt fylgir áhætta fjárfestingu í fjárfestingarsjóðum og eignarhlutdeild getur rýrnað, aukist eða staðið í stað, m.a. vegna áhættu vegna efnahagsástands, alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðils þegar eignir sjóðs eru í erlendum gjaldmiðlum. Athygli er vakin á því að söguleg ávöxtun gefur ekki vísbendingu um framtíðarávöxtun.

Senda grein