FréttirVerðtrygging - Nauðsyn eða val?

11.9.2012 Skoðun Útgáfa

Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) kynntu ítarlega skýrslu um verðtryggingu, vexti og verðbólgu á Íslandi. Tveir starfsmenn GAMMA báru meginábyrgð á ritun skýrslunnar, þeir Ásgeir Jónsson og Valdimar Ármann.

Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) kynntu í gær ítarlega skýrslu (200 bls) um verðtryggingu, vexti og verðbólgu á Íslandi (sjá skýrsluna hér). Tveir starfsmenn GAMMA báru meginábyrgð á ritun skýrslunnar, þeir Ásgeir Jónsson og Valdimar Ármann. Aðrir höfundar skýrslunnar voru Sigurður Jóhannesson hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Brice Benaben og Stefania Perrucci hjá New Sky Capital. Efnistök skýrslunnar miða að því að taka fyrir helstu álitaefni verðtryggingar á Íslandi og greina með bæði fræðilegum og hagnýtum hætti þannig að rökfastar og auðskiljanlegar niðurstöður liggi fyrir.

Meginniðurstöður og tillögur skýrsluhöfunda eru eftirfarandi:

Þegar allt er dregið saman verður ekki séð að það leysi nokkurn vanda að banna verðtryggingu eða að reyna að úthýsa henni af íslenskum fjármálamarkaði. Það ætti raunar að vera keppikefli að fjölga valkostum en ekki fækka þeim, en jafnframt tryggja að augu lántakanda séu opin fyrir þeirri áhættu sem fylgir hverjum kosti. Það er ekki líklegt að blátt bann við verðtryggingu muni hjálpa neinum, og allra síst framtíðarlántakendum. Grunnrót vandans; verðbólga og óstöðugleiki yrði áfram til staðar en þeim leiðum sem hægt er að beita til þess að bregðast við honum hefði aðeins fækkað. Hins vegar er mikil þörf á því að endurskoða hvernig verðtryggingu hefur verið beitt hérlendis í samhengi með öðrum skilmálum sem við hana hafa verið tengd, einkum með veitingu sk. Íslandslána (þ.e. löng verðtryggð jafngreiðslulán). 

Að mati skýrsluhöfunda er vandamálið sem fylgir notkun verðtryggingar hérlendis fjórþætt.

1)      Veiting Íslandslána skapar hvata fyrir of mikla skuldsetningu og ýtir undir lánabólur.

2)      Fjármögnun Íslandslánanna byggir á ríkisábyrgð, sem er í raun niðurgreiðsla sem hvetur til skuldsetningar.

3)      Heimilin taka á sig of mikla þjóðhagslega áhættu með verðtryggðum lánum þar sem óvæntir verðbólguskellir færast allir á þeirra reikning.

4)      Verðtrygging þvælist fyrir framgangi peningamálastefnu Seðlabankans.

 

Í kjölfarið leggja höfundar skýrslunnar því fram fjórar tillögur til umbóta:

1)      Aukinn endurgreiðsluhraði fasteignalána

2)      Afnám ríkisábyrgðar á lánaviðskiptum

3)      Þjóðhagslegum varúðarreglum sé beitt í auknum mæli

4)      Aukið vægi breytilegra nafnvaxta

Þessar fjórar tillögur hér að ofan fela það í rauninni í sér að veitingu Íslandslána er sjálfhætt. Það gerist raunar um leið og ríkisábyrgð á fjármögnun þeirra fellur niður þar sem þau fela í sér mikla áhættu bæði fyrir lántaka og lánveitanda, er best hefur komið í ljós á síðustu þremur árum. Að mati höfunda er ekki líklegt að skarð verði fyrir skildi við þeirra brotthvarf. Þegar litið er til framtíðar er mjög líklegt að fjölbreytni í lánakostum eigi eftir að vaxa mjög mikið og fjármálastofnanir eigi eftir að leggja áherslu á einstaklingsmiðaðar lausnir í lánamálum, sem jafnframt minnka líkurnar á því að skuldavandræði endurtaki sig hérlendis.

Hér má nálgast skýrsluna.

Hér má sjá erindi Valdimars og Ásgeirs sem flutt voru á kynningu hjá SFF:

Erindi Ásgeirs.

Erindi Valdimars.

Hægt er að fá útprentað innbundið eintak af skýrslunni og er áhugasömum bent á að hafa samband við skrifstofu GAMMA.

Senda grein