Fréttir



Greining: Íslenskar efnahagshorfur

2.12.2011 Skoðun Útgáfa

Dr. Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands, skrifaði stutta greiningu fyrir Reykjavíkuborg um hagvaxtarhorfur í bráð og lengd í tengslum við 5 ára fjárhagsáætlun borgarinnar.

Dr. Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands, skrifaði stutta greiningu fyrir Reykjavíkuborg um hagvaxtarhorfur í bráð og lengd í tengslum við 5 ára fjárhagsáætlun borgarinnar er var lögð fram í þessari viku. Í greiningunni er lagt mat á hagvaxtarhorfur skamms tíma (1-2 ára), meðalangs tíma (5 ára) og langs tíma.
 
Hér að neðan er að finna samantekt úr greiningunni en hana má finna í heild sinni hér (10 bls). Fimm ára fjárhagsáætlunina í heild sinni er aftur á móti að finna hér

Nú hillir undir nýtt hagvaxtarskeið eftir 10% samdrátt landsframleiðslu á árunum 2008-2010. Um það eru eiginlega allar vísbendingar samhljóða. Hins vegar er erfitt að segja til um hve langt og kröftugt þetta skeið verður. Það gæti aðeins staðið í 1-2 ár eða enst allt að 5 ár eftir því hvernig ytri aðstæður þróast. Vöxturinn er nú að mestu leiddur áfram með vexti þjóðarútgjalda, einkum einkaneyslu en einnig fjárfestingu í einhverjum mæli. Innlend eftirspurn hefur löngum hlaupið á sjómílna skóm hérlendis, ef hún tekur á rás á annað borð.  Af langri reynslu mætti jafnvel búast við  töluverðum krafti í þjóðarútgjöldum á næsta ári – mun meiri krafti en Seðlabankinn, Hagstofan og fleiri aðilar hafa spáð ef ytri aðstæður haldast tiltölulega hagfelldar.  Þessi vaxtarkippur getur þó ekki orðið langvinnur fyrir tilverknað innlendrar eftirspurnar einnar saman. Þegar litið er til ársins 2013 og lengra fram verður útsýnið óskýrara í hvaða átt íslenska hagkerfið stefnir enda gríðarlega óvissa um þróun efnahagsmála í helstu viðskiptalöndum.
Nú býr þjóðin við viðskiptaafgang sem einmitt fékkst með hruni einkaneyslunnar árið 2008 og gengisfalli krónunnar. Um leið og þjóðarútgjöld aukast mun ganga á þennan afgang enda er aukin einkaneysla alltaf ávísun á aukinn innflutning þar sem um 40% af neyslukörfu heimilanna innfluttar vörur. Íslenska hagkerfið er í skrúfstykki í þeim skilningi að innflutningur getur aukist verulega umfram útflutning án þess að hætta steðji að gjaldeyrisstöðu landsins. Þjóðin getur því ekki eytt meira en hún aflar og fjármagnað viðskiptahalla með erlendu lánsfé sem raunin hefur verið svo oft áður. Annað hvort verður Seðlabankinn að grípa í taumana með vaxtahækkunum eða gjaldeyrisútflæði vegna aukins innflutnings mun veikja krónunna, skapa verðbólgu og kæfa neysluna niður. Það andrými sem eftirspurnardrifinn vöxtur hefur hérlendis er aðeins 1-2 ár.
Til þess að hagvöxtur geti haldið skriði fram yfir 2013 þarf framfarir í útflutningsframleiðslu landsins; ferðaþjónustan verður að halda áfram sínu skriði og fjárfestingar í orkuframleiðslu verða að ganga fram. Einkneysla getur ekki vaxið hraðar en útflutningur en að öðrum kosti verða Seðlabankinn og önnur hagstjórnaryfirvöld að stíga mjög harkalega á bremsurnar til þess að halda jafnvægi í greiðslujöfnuði landsins. Ísland þarf að safna gjaldeyrisforða en ekki eyða með viðskiptahalla.
Hins vegar er í öllum þessum framreikningum gríðarleg óvissa vegna ytri aðstæðna, þ.e. fjármálakreppunnar á Vesturlöndum. Þróun markaða á evrusvæðinu hefur verið mjög kvíðvænleg á síðustu mánuðum og ljóst að djúp evrópsk kreppa mun slá á allan vöxt hérlendis. Auk þess má bæta við ýmsum gamalkunnum áhættuþáttum eins og Kötlugosi sem gæti hæglega lamað ferðaþjónustuna um eitthvert skeið.
Senda grein