Fréttir



  • Valdimar Ármann, CEO
    Valdimar Ármann, CEO GAMMA Capital Management

Umfjöllun í erlendum fjölmiðlum vegna ferðaþjónustuskýrslu

25.6.2018 Skoðun

Þrjú erlend fagtímarit hafa nýverið birt viðtöl og greinar eftir Valdimar Ármann, forstjóra GAMMA þar sem fjallað er m.a. um þörfina á erlendri fjárfestingu.

Ferðaþjónustuskýrsla GAMMA Ráðgjafar, sem gefin var út í mars síðastliðnum, hefur vakið eftirtekt erlendis, en skýrslunni er ætlað að veita alþjóðlegum fjárfestum yfirsýn yfir þau tækifæri sem tengjast vexti íslenskrar ferðaþjónustu á einum stað.

Undanfarnar vikur hafa birst þrjár umfjallanir í hinum víðlesnu alþjóðlegu fagtímaritum Infrastructure Investor, Investment & Pensions Europe og Property Investor Europe, þar sem Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, ræðir niðurstöður skýrslunnar í víðu samhengi.

Tími til kominn að fjárfestar elti ferðamenn 

Í maí birtist grein eftir Valdimar í tímaritinu Infrastructure Investor, þar sem hann bendir á að áhugi á Íslandi sem ferðamannastað hafi stóraukist á undanförnum átta árum eða svo. Um sé að ræða samspil fjölda þátta; eldgoss sem hafi á endanum reynst frábær landkynning, taka velþekktra kvikmynda og sjónvarspþátta í íslenskri náttúru, markaðsátaks, og örrar stækkunar leiðakerfis flugfélaga sem miði að því að nýta legu landsins til að brúa Evrópu og Norður-Ameríku.

Þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi verið drifskaft mikils hagvaxtar bendir Valdimar á að fjárfesting í nauðsynlegum innviðum, svo sem í gistirými, vegakerfinu og flugsamgöngum hafi ekki fylgt fjölgun ferðamanna eftir. Einn lyklanna að því að leysa einkafjármagn úr læðingi sé að útbúa lagalega umgjörð fyrir samvinnuverkefni, sem stundum eru nefnd PPP eða Public Private Partnership, sem skapar skyggni um samskipti ríkis og fjárfesta, úrlausn deilumála og tryggir fjárfestavernd. Þá bendir Valdimar jafnframt á fjölda tækifæra sem felast í sameiningu smærri ferðaþjónustufyrirtækja.

Greininni lýkur með áeggjan Valdimars til erlendra fjárfesta um að elta ferðamenn til Íslands og kynna sér hinn mikla fjölda fjárfestingartækifæra á landinu.

Greinina má nálgast í heild sinni hér: Time for investors to follow tourists to Iceland

Screen-shot-2018-06-19-at-10.25.30

Samvinnuverkefni vegurinn til framtíðar

Fyrr í mánuðinum birtist umfjöllun um niðurstöður ferðaþjónustuskýrslu GAMMA í tímaritinu Property Investor Europe, þar sem aftur er vikið að miklum möguleikum þess að nýta einkafjármagn til uppbyggingar innviða, meðal annars með samvinnuverkefnum.

Í samtali við blaðið setur Valdimar þörfina á erlendum fjárfestingum í samhengi við fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis, og bendir á að innflæði erlends fjármagns viðhaldi jafnvægi á greiðslujöfnuði landsins á sama tíma og íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti í auknu mæli á alþjóðlegum mörkuðum. Þá liggi einnig áhættudreifingarsjónarmið til grundvallar því að Íslendingar beri ekki áhættuna af uppbyggingu innviða einir, auk þess sem margvísleg sérfræðiþekking erlendra fjárfesta geti nýst vel.

Valdimar telur stækkun flugstöðvarinnar í Keflavík sérstaklega mikilvæga, ekki síst vegna sívaxandi fjölda skiptifarþega, auk þess sem hann bendir á möguleika sem felast í því að bæta samgöngur milli flugvallarins og Reykjavíkur, t.d. með byggingu hraðlestar. Til viðbótar sé mikil þörf á byggingu fasteigna, hvort sem er íbúða, atvinnuhúsnæðis eða gistirýmis.

Greinina má nálgast í heild sinni hér: Reykjavik, Charting a public-private way forward

Screen-shot-2018-06-20-at-12.14.47

Næsta aldan framundan

Í byrjun maí birtist grein í tímaritinu Investment & Pensions Europe um afléttingu gjaldeyrishafta og fjárfestingar lífeyrissjóða erlendis. Í greininni er bent á að hlutdeild erlendra eigna í söfnum íslenskra lífeyrissjóða sé verulega ábótavant að loknum áratug í viðjum gjaldeyrishafta.

Í samtali við tímaritið segir Valdimar að GAMMA hafi hvatt innlenda fjárfesta til að leita áhættudreifingar með fjárfestingum erlendis, en ef vel eigi að vera þurfi að nálega tvöfalda hlutdeild erlendra fjárfestingarkosta úr rúmlega 20% eignasafna í um 40%. Samkvæmt útreikningum GAMMA þurfi verulegt átak til: Útflæðið þyrfti að nema andvirði allt að $25 milljarðar bandaríkjadala á næstu 10-15 árum, en það er að stórum hluta vegna örrar stækkunar sjóðanna sem rekja má til hagstæðrar lýðfræði og verulegrar hækkunar mótframlags atvinnurekenda til sjóðanna.

Þá er í greininni bent á að nú séu aðstæður til erlendrar eignadreifingar með hagstæðasta móti, en það má auðvitað að hluta þakka hagfelldum greiðslujöfnuði vegna vaxtar ferðaþjónustunnar.

Greinina má nálgast í heild sinni hér: Iceland: Preparing for a second wave

Senda grein