Fréttir



Forstjóri GAMMA í viðtali í ViðskiptaMogganum: Snýst um að leita tækifæra og nýta þau

25.3.2018 Skoðun

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir í viðtali við ViðskiptaMoggann þann 22. mars sl. að nú sé hentugur tími fyrir félagið til að þess að horfa inn á við, leggja mat á það sem búið er að gera og gera breytingar. 

Vidskiptamogginn

Valdimar Ármann segir að tekin hafi verið ákvörðun um á hægja á vexti erlendrar starfsemi, meðal annars með lokun skrifstofu í Sviss. Valdimar vill frekar sjá erlenda aðila fjárfesta í sjálfu hagkerfinu hér á landi en í vaxtastiginu. Hann telur komið að vatnaskilum í ferðaþjónustu og að erlendir fjárfestar geti hjálpað til við að koma greininni á næsta þroskastig.

Um mitt árið er ára­tug­ur síðan fjár­mála­fyr­ir­tækið GAMMA hóf starf­semi, ein­ung­is nokkr­um mánuðum áður en ís­lensku bank­arn­ir féllu. Stofn­end­urn­ir voru Agn­ar Tóm­as Möller og Gísli Hauks­son, sem tók við for­stjóra­starfi og gegndi því þar til í fe­brú­ar í fyrra þegar Valdi­mar Ármann tók við. Gísli gerðist þá stjórn­ar­formaður fyr­ir­tæk­is­ins en lét af því starfi í fe­brú­ar síðastliðnum og sagði svo skilið við fyr­ir­tækið fyrr í þess­um mánuði.

Vöxt­ur GAMMA hef­ur verið mik­ill en fyr­ir­tæki var með 137 millj­arða króna í stýr­ingu um ára­mót­in, auk þess sem það hef­ur sett upp skrif­stof­ur í London, New York og Zürich. Í byrj­un fe­brú­ar var kynnt nýtt skipu­rit fé­lags­ins þar sem meðal ann­ars var greint frá því að fyr­ir­tækjaráðgjöf þess, GAMMA Ráðgjöf, og er­lend starf­semi fé­lags­ins verði færð úr því að vera í syst­ur­fé­lög­um yfir í dótt­ur­fé­lög. Mánuði síðar var svo greint frá því að Gísli Hauks­son, sem und­an­far­in miss­eri hef­ur ein­beitt sér að upp­bygg­ingu á er­lendri starf­semi GAMMA, hefði ákveðið að láta af störf­um hjá fyr­ir­tæk­inu. Hann yrði þó áfram stærsti ein­staki hlut­hafi fé­lags­ins.

Á þess­um tíma­mót­um í sögu GAMMA sett­ist Valdi­mar Ármann niður með ViðskiptaMogg­an­um til þess að ræða stöðu fé­lags­ins og framtíðar­sýn. Valdi­mar hef­ur starfað hjá GAMMA nán­ast frá stofn­un, en áður starfaði hann á fjár­mála­mörkuðum í London og New York um 7 ára skeið.

Góður tíma­punkt­ur til að horfa inn á við

Innt­ur eft­ir aðdrag­anda að brott­hvarfi Gísla Hauks­son­ar seg­ir Valdi­mar að hann hafi í sjálfu sér ekki verið lang­ur. „Eins og fram kom í til­kynn­ingu ákvað Gísli að nota tæki­færið, nú þegar fé­lagið er komið vel á legg, til að breyta til og sinna öðrum hugðarefn­um. Fé­lagið sjálft er síðan að kom­ast á ákveðið þroska­stig í rekstri eft­ir að hafa vaxið mikið. Því má segja að þetta sé góður tíma­punkt­ur fyr­ir fé­lagið til þess að horfa inn á við, leggja mat á hvað búið er að gera og nota um leið tæki­færið til þess að breyta aðeins til í skipu­lag­inu. Við gerðum því skipu­lags­breyt­ing­ar í byrj­un árs­ins og end­ur­skoðuðum er­lendu starf­sem­ina og ráðgjöf­ina.“

Valdi­mar viður­kenn­ir að rekstr­ar­leg­ar ástæður eigi þátt í að ráðist sé í þess­ar breyt­ing­ar. „Að hluta til. Þótt árs­reikn­ing­ur liggi ekki end­an­lega fyr­ir þá er ljóst að í heild skiluðum við mjög góðu rekstr­ar­ári í fyrra og hagnaður­inn verður sá næst­mesti sem fé­lagið hef­ur skilað. Vissu­lega eru það von­brigði að bæta ekki af­kom­una frá 2016. Skýr­ing­in er nátt­úr­lega sú að það er kostnaðar­söm fjár­fest­ing að setja á lagg­irn­ar er­lend­ar skrif­stof­ur. Sem reynd­ar mátti lesa strax út úr hálfs­árs­upp­gjör­inu.“

Hann seg­ir mjög eðli­legt í þess­um rekstri, eins og í öll­um öðrum rekstri, að sí­fellt sé verið að end­ur­meta stöðuna. „Við höf­um ekki staðið mjög lengi í því að setja upp ráðgjöf­ina og er­lendu skrif­stof­urn­ar, svo við sjá­um til­tölu­lega fljótt hvað geng­ur og hvað ekki, og vilj­um frek­ar taka á því fyrr en seinna. En upp­gjörið hjá fé­lag­inu er traust og eig­in­fjárstaðan er mjög góð.“

Gísli Hauks­son er ann­ar tveggja stærstu hlut­hafa GAMMA með um 31% hlut og því eðli­legt að menn velti fyr­ir sér hvað verði um hlut­inn og hvort aðrir hlut­haf­ar séu reiðubún­ir til þess að kaupa hann út. „Það hef­ur ekk­ert verið rætt um það og ekki rétt að fara út í nein­ar fabúl­er­ing­ar,“ seg­ir Valdi­mar. „Gísli hef­ur sagt að hann muni halda hlutn­um áfram og annað hef­ur ekki komið fram.“

Teygðu sig full­langt með Sviss

En hverj­ar eru þær stefnu­breyt­ing­ar sem stjórn­end­ur GAMMA vilja ná fram? „Það fel­ast í raun litl­ar breyt­ing­ar í þess­um stefnu­breyt­ing­um – þær snú­ast meira um að skerpa á áherslu­atriðum og bæta fókus. Hvað varðar er­lendu starf­sem­ina, þá töld­um við að við vær­um hugs­an­lega að teygja okk­ur full­langt með því að vera með skrif­stofu í Zürich í Sviss. Svo við ákváðum að sleppa henni og ein­beita okk­ur frek­ar að London og New York, því það eru ákveðnar ástæður fyr­ir þeim staðsetn­ing­um sem ég vík nán­ar að síðar. Á hinn bóg­inn vild­um við skerpa á hvernig ráðgjöf­in vinn­ur með rekstr­ar­fé­lagi GAMMA og loks hvernig all­ar skrif­stof­urn­ar geta síðan unnið sam­an, þ.e.a.s. er­lendu skrif­stof­urn­ar, ráðgjöf­in og rekstr­ar­fé­lagið.

Í skipu­lag­inu sem við kynnt­um í byrj­un fe­brú­ar var ráðgjöf­in í raun tek­in inn í skipu­ritið og er nú dótt­ur­fé­lag, en áður var ekki leyfi­legt fyr­ir rekstr­ar­fé­lag að eiga dótt­ur­fé­lag. Þetta und­ir­strik­ar að ráðgjöf­in verður áfram mik­il­væg­ur hlekk­ur í starf­sem­inni. Við sjá­um til dæm­is tæki­færi í að hjálpa fyr­ir­tækj­um við að vaxa og kynna þau síðan fyr­ir er­lend­um fjár­fest­um, sam­an­ber samn­ing við Genís á Sigluf­irði sem kynnt­ur var fyr­ir nokkr­um dög­um.“

Valdi­mar bend­ir einnig á nýja skýrslu GAMMA um þróun og tæki­færi í ferðaþjón­ustu, sem út kom fyrr í mánuðinum á ensku. „Skýrsl­an er í raun­inni hugsuð fyr­ir er­lenda aðila með það í huga að tengja er­lenda fjár­festa við fjár­fest­inga­kosti á Íslandi. Þar verður þetta sam­spil mjög mik­il­vægt á milli er­lendu skrif­stof­anna, ráðgjaf­ar­inn­ar og sjóðastýr­ing­ar rekstr­ar­fé­lags­ins.“

Er­lendu skrif­stof­urn­ar eru svo á hinn bóg­inn mik­il­væg­ar fyr­ir ís­lenska fjár­festa, seg­ir Valdi­mar. „Bæði við að finna sam­starfsaðila með sjóði sem við get­um fjár­fest í, en ekki síður til þess að finna sam­starfsaðila til þess að fjár­festa í verk­efn­um með. Eitt dæmi um það er fast­eignaþró­un­ar­sjóður­inn Anglia sem við sett­um á lagg­irn­ar í fyrra, þar sem við erum að fjár­festa með þrem­ur sam­starfsaðilum. Þannig dreif­um við áhætt­unni með öðrum og erum í raun­inni að kaupa okk­ur inn í þekk­ingu og reynslu, en höf­um samt úr­slita­vald um það hvort við vilj­um vera í fjár­fest­ing­unni eða ekki með okk­ar fjár­festa.

Það er því stefnt að því að er­lenda starf­sem­in sé tví­hliða gátt. Sú vinna hef­ur gengið hæg­ar en bú­ist var við, þannig að stefnu­breyt­ing­in felst kannski frek­ar í því að skerpa á því hvernig þetta get­ur verið að vinna sam­an og nýta tæki­fær­in sem við erum að sjá.“

Helgi Bergs leiðir skrif­stof­una í London

Innt­ur eft­ir því hvort til standi að draga úr um­fang­inu á starfstöðvum í New York og London, seg­ir Valdi­mar að í raun­inni hafi þegar verið dregið úr starf­sem­inni. „Það var gert sam­hliða lok­un­inni í Sviss að draga úr um­svif­un­um er­lend­is og starfs­manna­fjölda á er­lendu skrif­stof­un­um. Eins og staðan er núna eru tveir starfs­menn í New York og fimm í London. Skrif­stof­an í London verður kjarna­skrif­stof­an er­lend­is. Það er hægt að nýta London bet­ur sem Evr­ópumiðstöð, frem­ur en að opna lít­il úti­bú eins og í Sviss. Því fylg­ir of mik­ill kostnaður og vinna.“

Í gær var starfs­fólki GAMMA greint frá því að Helgi Bergs mundi taka við sem fram­kvæmda­stjóri London-skrif­stof­unn­ar en hann stýrði áður skrif­stof­unni í Zürich. „Helgi hef­ur ára­tuga reynslu af er­lend­um fjár­mála­mörkuðum, en hann stýrði meðal ann­ars fjár­fest­inga­banka­starf­semi Kaupþings frá London á ár­un­um 2005 til 2008,“ seg­ir Valdi­mar. „Áður en hann kom til starfa hjá GAMMA stýrði hann miðlun­ar­starf­semi verðbréfa­fyr­ir­tæk­is­ins Birwood í London.“

Valdi­mar seg­ir að til þess að vera með aðgang að mörkuðum í Banda­ríkj­un­um reyn­ist það nauðsyn­legt að vera með skrif­stofu þar, meðal ann­ars út af tíma­mis­mun og reglu­verki. „Starf­semi okk­ar úti er kom­in með það sem kallað er „In­vest­ment Advisor“-leyfi. Það ger­ir okk­ur kleift að setja upp sjóði í Banda­ríkj­un­um og stýra eign­um þar.

Fyrsti sjóður­inn sem við erum að setja á lagg­irn­ar í Banda­ríkj­un­um er utan um lán til sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í Banda­ríkj­un­um og Kan­ada. Þetta er risa­stór markaður með mik­il tæki­færi sem hef­ur ekki þró­ast eins hratt og á Íslandi, þannig að það hef­ur skap­ast mik­il vönt­un á fjár­magni inn í tækniþróun, upp­færslu skipa og jafn­vel í fyr­ir­tækja­samruna. Það skort­ir sér­hæf­ingu og tengslanet í sjáv­ar­út­vegi hjá hefðbundn­um viðskipta­bönk­um í Norður-Am­er­íku sem veld­ur því að bank­ar eru ekki vilj­ug­ir til þess að lána mikið til þess­ara fyr­ir­tækja. Það tóma­rúm skap­ar markaðstæki­færi fyr­ir sjóðinn. Við erum í sam­starfi við sér­hæfðan fjár­fest­ing­ar­banka í Banda­ríkj­un­um sem heit­ir Ant­arctica Advisors. Á bak við hann er teymi sem var hjá Glitni í New York á sín­um tíma og starfaði m.a. við að út­vega lán til sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­ækja og eft­ir hrun þróuðu þeir þá starf­semi áfram og hafa verið um­fangs­mikl­ir í fyr­ir­tækjaráðgjöf, m.a. með því að tengja sam­an sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki og fjár­festa. Sam­kvæmt sam­starfs­samn­ingi get­um við valið lán inn í sjóðinn sem „As­set Mana­ger“. Við erum byrjaðir að markaðssetja sjóðinn til ís­lenskra fjár­festa og þar er veru­leg­ur áhugi, enda sjáv­ar­út­veg­ur í Norður-Am­er­íku risa­stór og býður upp á áhuga­verðan fjár­fest­ing­ar­kost í er­lendri mynt. Síðar verður sjóður­inn markaðssett­ur til banda­rískra fjár­festa og þannig mun­um við sam­eina ís­lenska og banda­ríska fjár­festa í sjóð utan um þessa afurð, sem ég tel marka ákveðin tíma­mót.“

Hann seg­ir því skrif­stof­una í Banda­ríkj­un­um og leyfið þar mik­il­væg­an hlekk fyr­ir fé­lagið. „Lyk­il­atriði er að vera með sam­starfsaðila en reyna ekki að byggja allt frá grunni upp á eig­in spýt­ur. Það er ekki held­ur eins mannafls­frekt. Þannig að héðan í frá mun ekki verða mik­il breyt­ing á er­lendu starf­sem­inni, þótt allt geti tekið breyt­ing­um eft­ir því hvernig hlut­irn­ir þró­ast.“

Er­lend­ur áhugi á ferðaþjón­ust­unni

Má þá skilja það svo að GAMMA hafi farið of geyst í upp­bygg­ingu er­lend­is? „Það er erfitt að dæma um það því þetta er fjár­fest­ing þar sem tekj­urn­ar skila sér ekki frá fyrsta degi. Þannig að ég ætla ekki að segja að það hafi endi­lega verið farið of geyst en það hef­ur að minnta kosti verið tek­in ákvörðun um að hægja á.

Eitt af því sem hef­ur gengið hægt en við erum að sjá núna skila ár­angri, er að vera með ís­lensk ráðgjaf­ar­verk­efni og kynna þau er­lend­is. Þar er til dæm­is ferðaþjón­ustu­skýrsl­an mik­il­væg­ur hlekk­ur í markaðssetn­ingu okk­ar er­lend­is, en fjár­fest­ar eru að sjá tæki­fær­in í ís­lensku ferðamennsk­unni. Marg­ir ferðamenn sem hingað koma t.d. frá Bretlandi, Banda­ríkj­un­um og Evr­ópu eru að ein­hverju leyti viðloðandi fjár­fest­ing­ar og ferðamannaiðnaður­inn er á þeim stað núna eft­ir hraðan vöxt, að ýmis tæki­færi fel­ast til dæm­is í sam­ein­ing­um fyr­ir­tækja, bættri þjón­ustu við ferðamenn og al­mennri hagræðingu. Einnig sjá er­lend­ir fjár­fest­ar tæki­fær­in og hafa áhuga á því að fjár­festa í ör­uggu um­hverfi sem er í vexti og í hreinni nátt­úru. Þar við bæt­ist að hag­kerfið er núna í svo góðu horfi, þar sem skuld­ir fyr­ir­tækja og heim­ila hafa farið lækk­andi, seðlabank­inn býr yfir stönd­ug­um gjald­eyr­is­vara­sjóði, verðbólg­an hef­ur verið lág og þokka­leg­ur stöðug­leiki ríkt í land­inu. Þannig að Ísland hef­ur góða sögu að segja. Það eina nei­kvæða þegar maður hef­ur talað við er­lenda fjár­festa, er að þurfa að út­skýra að það séu ennþá inn­flæðis­höft inn á skulda­bréfa­markaðinn.

Það sem verið er að kynna núna fyr­ir er­lend­um fjár­fest­um eru fjár­fest­ing­ar­tæki­færi í ís­lenska hag­kerf­inu, ekki í ís­lensk­um vöxt­um. Við höf­um talað fyr­ir því í mörg ár að það eigi að lækka vext­ina og hleypa út­lend­ing­um inn, þannig að þeir séu ekki að kaupa sig inn í vaxta­stigið held­ur séu að kaupa hlut í ís­lensku hag­kerfi. Það myndi hjálpa til við ná sam­legðaráhrif­um í ferðaþjón­ustu. Það að ná er­lend­um hót­elkeðjum mun t.d. hjálpa okk­ur við að viðhalda ferðamanna­straumn­um í framtíðinni. Er­lend­ar hót­elkeðjur og er­lend flug­fé­lög þyrfti þá að aug­lýsa Ísland þannig að við yrðum ekki ein um það.“

Valdi­mar tel­ur komið að vatna­skil­um í ferðaþjón­ust­unni og að er­lend­ir fjár­fest­ar geti hjálpað til við að koma grein­inni upp á næsta þroska­stig. „Það er öðru­vísi að reka ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki þegar ferðamönn­um fjölg­ar um 300 þúsund manns á hverju ári og rekst­ur­inn vex með aukn­um fjölda, en þegar búið er að ná ákveðinni stærð og dreg­ur úr fjölg­un. Þá þarf að hugsa meira um hvernig hægt sé að halda viðskipta­vina­hópn­um.

Þátt­taka er­lendra aðila gef­ur okk­ur einnig tæki­færi í að fjár­festa í innviðum og búa okk­ur und­ir næstu stækk­un, sem gæti komið eft­ir ein­hvern tíma. Ég sé ekki að Ísland geti fjár­fest eitt og sér í innviðum, hót­el­um og öllu því sem teng­ist ferðamönn­um sem eru sjö sinn­um fleiri en íbúa­fjöld­inn. Ég tel að það verði að fá er­lent fjár­magn. Fyr­ir Ísland er það auk þess tæki­færi til áhættu­dreif­ing­ar. Ef til áfalls kæmi mynd­um við deila því með er­lend­um fjár­fest­um, því að á sama tíma eru líf­eyr­is­sjóðirn­ir og spari­fjár­eig­end­ur að nota tæki­færið og fjár­festa er­lend­is. Þetta ætti því að draga úr heild­aráhættu í ís­lenska hag­kerf­inu ef þetta er gert á rétt­an hátt.“

Sjá mik­il tæki­færi í fjár­tækni

En sé litið til inn­lendr­ar starf­semi GAMMA, má bú­ast við hagræðingu þar eða breytt­um áhersl­um? „Í raun­inni hef­ur inn­lenda starf­sem­in gengið afar vel og það þarf ekki að breyta nein­um ár­hersl­um þar. Það er vissu­lega breyt­ing hjá okk­ur að Al­menna leigu­fé­lagið er á leiðinni í skrán­ingu í Kaup­höll. En ann­ars mun inn­lendi rekst­ur­inn þró­ast áfram á svipaðan hátt og hingað til, og snú­ast um að leita tæki­færa sem eru á markaðnum og nýta þau til þess að kynna fyr­ir okk­ar fjár­fest­um. Það sem gæti mögu­lega breyst núna er að verk­efni verði meira kynnt fyr­ir er­lend­um fjár­fest­um, sem teng­ist því sem ég sagði áðan.

Kjarn­a­starf­sem­in hérna heima varðandi skulda­bréf, hluta­bréf, fyr­ir­tækjalán og slíkt er á mjög góðum stað og í mjög góðum far­vegi. Það eru án efa ein­hver tæki­færi framund­an sem er mögu­lega hægt að nýta. Mikl­ar breyt­ing­ar eru framund­an í banka­kerf­inu sem á eft­ir að sjá fyr­ir end­ann á, þegar þeir fara á markað og nýir fjár­fest­ar koma inn. Svo er nátt­úr­lega ennþá verið að breyta lög­um og regl­um um greiðslumiðlun og verður áhuga­vert að sjá hvernig fjár­tæknifyr­ir­tækj­um reiðir af í framtíðinni. Íslend­ing­ar hafa alltaf verið fljót­ir að til­einka sér tækninýj­ung­ar en mér finnst við hafa setið svo­lítið á eft­ir í tækniþróun hvað varðar greiðslumiðlun, greiðslur með síma og annað slíkt. Það er klár­lega eitt­hvað sem er áhuga­vert að taka þátt í. Við erum í sam­starfi við Nova varðandi lán í gegn­um síma, höf­um frá upp­hafi verið fjár­mögn­un­araðili á greiðslu­lausn­inni PEI og svo erum við með Framtíðina, veflána­fyr­ir­tæki sem byrjaði á að veita náms­lán og veit­ir nú líka al­menn neyt­endalán og hús­næðislán. Við erum því þegar tölu­vert í fjár­tækni enda sjá­um við mik­il tæki­færi þar.“

Valdi­mar seg­ir að stefnt sé að skrán­ingu Al­menna leigu­fé­lags­ins seint á fyrsta árs­fjórðungi næsta árs. „Við vor­um í stóru verk­efni í haust og vet­ur við að end­ur­fjármagna Al­menna leigu­fé­lagið. Fé­lagið gaf út skulda­bréf sem skráð var í Kaup­höll með viðskipta­vakt. Það var fyrsta skrefið. Síðan þarf fé­lagið að ná heilu rekstr­ar­ári þar sem það stækkaði mikið í fyrra, svo fjár­fest­ar sjái ná­kvæm­lega hvernig fé­lagið lít­ur út.“

Valdi­mar seg­ir vandmeðfarið með íbúðafé­lög sem eru að leigja á neyt­enda­markaði og það standi mörg spjót á þeim. „En ef maður horf­ir til annarra ríkja þá er ekki eins það sé verið að taka eitt­hvað af fé­lags­leg­um úrræðum. Þetta er í raun­inni frá­bær viðbót við fast­eigna­markaðinn. Við höf­um verið að reyna að koma því á fram­færi að það eigi að vera frjálst val um að leigja eða kaupa. Það hef­ur lengi verið deilt á ís­lenska fast­eigna­markaðinn að ekki hafi verið hægt að leigja af traust­um aðilum sem helga sig slík­um rekstri. En núna eru þessi leigu­fé­lög orðin að veru­leika og ég held að það muni hjálpa þeim mikið að vera skráð í Kaup­höll­inni við hliðina á at­vinnu­hús­næðis­fé­lög­un­um. Það mun tryggja að þau sinni sín­um viðskipta­vin­um vel ásamt því að skila góðri arðsemi til fjár­festa.“

Skör­un inn­an­lands og er­lend­is

Eins og fyrr seg­ir voru Ráðgjöf GAMMA og er­lenda starf­sem­in rek­in í syst­ur­fé­lagi af tækni­leg­um ástæðum, en eru nú kom­in und­ir rekstr­ar­fé­lagið sem dótt­ur­fé­lag. „Það er eins og við vild­um hafa það. Þetta átti ekki að vera aðskilið. Þetta er sama fyr­ir­tækið og sömu hlut­haf­ar og þetta styður allt hvað við annað og er mik­il­væg­ur hlekk­ur í því. Þess vegna mun líka alltaf verða erfitt að segja að er­lenda starf­sem­in gangi svona og inn­lenda starf­sem­in svona. Að ein­hverj­um hluta eru óljós skil, það er verið að finna inn­lend ráðgjaf­ar­verk­efni sem seld eru til út­landa og það er verið að finna verk­efni er­lend­is sem seld eru heim. Þannig að það verður ákveðin skör­un og þess vegna verður maður að líta á heild­ar­mynd­ina. Ég held að það sé bara mjög gott og hollt fyr­ir fyr­ir­tæki við tíma­mót á 10 ára af­mæl­inu að taka fast á skipu­lag­inu og forma skipu­rit og tekju­sviðin ná­kvæm­lega.

En í heild geng­ur inn­lenda starf­sem­in afar vel og rekstr­ar­fé­lagið stend­ur mjög vel. Aðgerðir okk­ar fólust í því að draga úr kostnaði við fjár­fest­ing­ar í því sem ekki gekk upp, en styðja við það sem geng­ur vel upp. Það mun áfram verða hjá okk­ur ráðgjöf og við sjá­um það í tengsl­um við ferðaþjón­ustu­skýrsl­una að hún og er­lendu skrif­stof­urn­ar munu fá nóg af verk­efn­um til þess að sinna. Eins og staðan er núna erum við komn­ir með góða mynd á fyr­ir­tækið og hvernig þessi svið öll geta unnið sam­an.“

Fréttin birtist á heimasíðu mbl.is þann 25. mars 2018: www.mbl.is/vidskipti/snyst_um_ad_leita_taekifaera_og_nyta_thau/

Senda grein