Forstjóri GAMMA í viðtali í ViðskiptaMogganum: Snýst um að leita tækifæra og nýta þau
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir í viðtali við ViðskiptaMoggann þann 22. mars sl. að nú sé hentugur tími fyrir félagið til að þess að horfa inn á við, leggja mat á það sem búið er að gera og gera breytingar.
Valdimar Ármann segir að tekin hafi verið ákvörðun um á hægja á vexti erlendrar starfsemi, meðal annars með lokun skrifstofu í Sviss. Valdimar vill frekar sjá erlenda aðila fjárfesta í sjálfu hagkerfinu hér á landi en í vaxtastiginu. Hann telur komið að vatnaskilum í ferðaþjónustu og að erlendir fjárfestar geti hjálpað til við að koma greininni á næsta þroskastig.
Um mitt árið er áratugur síðan fjármálafyrirtækið GAMMA hóf starfsemi, einungis nokkrum mánuðum áður en íslensku bankarnir féllu. Stofnendurnir voru Agnar Tómas Möller og Gísli Hauksson, sem tók við forstjórastarfi og gegndi því þar til í febrúar í fyrra þegar Valdimar Ármann tók við. Gísli gerðist þá stjórnarformaður fyrirtækisins en lét af því starfi í febrúar síðastliðnum og sagði svo skilið við fyrirtækið fyrr í þessum mánuði.
Vöxtur GAMMA hefur verið mikill en fyrirtæki var með 137 milljarða króna í stýringu um áramótin, auk þess sem það hefur sett upp skrifstofur í London, New York og Zürich. Í byrjun febrúar var kynnt nýtt skipurit félagsins þar sem meðal annars var greint frá því að fyrirtækjaráðgjöf þess, GAMMA Ráðgjöf, og erlend starfsemi félagsins verði færð úr því að vera í systurfélögum yfir í dótturfélög. Mánuði síðar var svo greint frá því að Gísli Hauksson, sem undanfarin misseri hefur einbeitt sér að uppbyggingu á erlendri starfsemi GAMMA, hefði ákveðið að láta af störfum hjá fyrirtækinu. Hann yrði þó áfram stærsti einstaki hluthafi félagsins.
Á þessum tímamótum í sögu GAMMA settist Valdimar Ármann niður með ViðskiptaMogganum til þess að ræða stöðu félagsins og framtíðarsýn. Valdimar hefur starfað hjá GAMMA nánast frá stofnun, en áður starfaði hann á fjármálamörkuðum í London og New York um 7 ára skeið.
Góður tímapunktur til að horfa inn á við
Inntur eftir aðdraganda að brotthvarfi Gísla Haukssonar segir Valdimar að hann hafi í sjálfu sér ekki verið langur. „Eins og fram kom í tilkynningu ákvað Gísli að nota tækifærið, nú þegar félagið er komið vel á legg, til að breyta til og sinna öðrum hugðarefnum. Félagið sjálft er síðan að komast á ákveðið þroskastig í rekstri eftir að hafa vaxið mikið. Því má segja að þetta sé góður tímapunktur fyrir félagið til þess að horfa inn á við, leggja mat á hvað búið er að gera og nota um leið tækifærið til þess að breyta aðeins til í skipulaginu. Við gerðum því skipulagsbreytingar í byrjun ársins og endurskoðuðum erlendu starfsemina og ráðgjöfina.“
Valdimar viðurkennir að rekstrarlegar ástæður eigi þátt í að ráðist sé í þessar breytingar. „Að hluta til. Þótt ársreikningur liggi ekki endanlega fyrir þá er ljóst að í heild skiluðum við mjög góðu rekstrarári í fyrra og hagnaðurinn verður sá næstmesti sem félagið hefur skilað. Vissulega eru það vonbrigði að bæta ekki afkomuna frá 2016. Skýringin er náttúrlega sú að það er kostnaðarsöm fjárfesting að setja á laggirnar erlendar skrifstofur. Sem reyndar mátti lesa strax út úr hálfsársuppgjörinu.“
Hann segir mjög eðlilegt í þessum rekstri, eins og í öllum öðrum rekstri, að sífellt sé verið að endurmeta stöðuna. „Við höfum ekki staðið mjög lengi í því að setja upp ráðgjöfina og erlendu skrifstofurnar, svo við sjáum tiltölulega fljótt hvað gengur og hvað ekki, og viljum frekar taka á því fyrr en seinna. En uppgjörið hjá félaginu er traust og eiginfjárstaðan er mjög góð.“
Gísli Hauksson er annar tveggja stærstu hluthafa GAMMA með um 31% hlut og því eðlilegt að menn velti fyrir sér hvað verði um hlutinn og hvort aðrir hluthafar séu reiðubúnir til þess að kaupa hann út. „Það hefur ekkert verið rætt um það og ekki rétt að fara út í neinar fabúleringar,“ segir Valdimar. „Gísli hefur sagt að hann muni halda hlutnum áfram og annað hefur ekki komið fram.“
Teygðu sig fulllangt með Sviss
En hverjar eru þær stefnubreytingar sem stjórnendur GAMMA vilja ná fram? „Það felast í raun litlar breytingar í þessum stefnubreytingum – þær snúast meira um að skerpa á áhersluatriðum og bæta fókus. Hvað varðar erlendu starfsemina, þá töldum við að við værum hugsanlega að teygja okkur fulllangt með því að vera með skrifstofu í Zürich í Sviss. Svo við ákváðum að sleppa henni og einbeita okkur frekar að London og New York, því það eru ákveðnar ástæður fyrir þeim staðsetningum sem ég vík nánar að síðar. Á hinn bóginn vildum við skerpa á hvernig ráðgjöfin vinnur með rekstrarfélagi GAMMA og loks hvernig allar skrifstofurnar geta síðan unnið saman, þ.e.a.s. erlendu skrifstofurnar, ráðgjöfin og rekstrarfélagið.
Í skipulaginu sem við kynntum í byrjun febrúar var ráðgjöfin í raun tekin inn í skipuritið og er nú dótturfélag, en áður var ekki leyfilegt fyrir rekstrarfélag að eiga dótturfélag. Þetta undirstrikar að ráðgjöfin verður áfram mikilvægur hlekkur í starfseminni. Við sjáum til dæmis tækifæri í að hjálpa fyrirtækjum við að vaxa og kynna þau síðan fyrir erlendum fjárfestum, samanber samning við Genís á Siglufirði sem kynntur var fyrir nokkrum dögum.“
Valdimar bendir einnig á nýja skýrslu GAMMA um þróun og tækifæri í ferðaþjónustu, sem út kom fyrr í mánuðinum á ensku. „Skýrslan er í rauninni hugsuð fyrir erlenda aðila með það í huga að tengja erlenda fjárfesta við fjárfestingakosti á Íslandi. Þar verður þetta samspil mjög mikilvægt á milli erlendu skrifstofanna, ráðgjafarinnar og sjóðastýringar rekstrarfélagsins.“
Erlendu skrifstofurnar eru svo á hinn bóginn mikilvægar fyrir íslenska fjárfesta, segir Valdimar. „Bæði við að finna samstarfsaðila með sjóði sem við getum fjárfest í, en ekki síður til þess að finna samstarfsaðila til þess að fjárfesta í verkefnum með. Eitt dæmi um það er fasteignaþróunarsjóðurinn Anglia sem við settum á laggirnar í fyrra, þar sem við erum að fjárfesta með þremur samstarfsaðilum. Þannig dreifum við áhættunni með öðrum og erum í rauninni að kaupa okkur inn í þekkingu og reynslu, en höfum samt úrslitavald um það hvort við viljum vera í fjárfestingunni eða ekki með okkar fjárfesta.
Það er því stefnt að því að erlenda starfsemin sé tvíhliða gátt. Sú vinna hefur gengið hægar en búist var við, þannig að stefnubreytingin felst kannski frekar í því að skerpa á því hvernig þetta getur verið að vinna saman og nýta tækifærin sem við erum að sjá.“
Helgi Bergs leiðir skrifstofuna í London
Inntur eftir því hvort til standi að draga úr umfanginu á starfstöðvum í New York og London, segir Valdimar að í rauninni hafi þegar verið dregið úr starfseminni. „Það var gert samhliða lokuninni í Sviss að draga úr umsvifunum erlendis og starfsmannafjölda á erlendu skrifstofunum. Eins og staðan er núna eru tveir starfsmenn í New York og fimm í London. Skrifstofan í London verður kjarnaskrifstofan erlendis. Það er hægt að nýta London betur sem Evrópumiðstöð, fremur en að opna lítil útibú eins og í Sviss. Því fylgir of mikill kostnaður og vinna.“
Í gær var starfsfólki GAMMA greint frá því að Helgi Bergs mundi taka við sem framkvæmdastjóri London-skrifstofunnar en hann stýrði áður skrifstofunni í Zürich. „Helgi hefur áratuga reynslu af erlendum fjármálamörkuðum, en hann stýrði meðal annars fjárfestingabankastarfsemi Kaupþings frá London á árunum 2005 til 2008,“ segir Valdimar. „Áður en hann kom til starfa hjá GAMMA stýrði hann miðlunarstarfsemi verðbréfafyrirtækisins Birwood í London.“
Valdimar segir að til þess að vera með aðgang að mörkuðum í Bandaríkjunum reynist það nauðsynlegt að vera með skrifstofu þar, meðal annars út af tímamismun og regluverki. „Starfsemi okkar úti er komin með það sem kallað er „Investment Advisor“-leyfi. Það gerir okkur kleift að setja upp sjóði í Bandaríkjunum og stýra eignum þar.
Fyrsti sjóðurinn sem við erum að setja á laggirnar í Bandaríkjunum er utan um lán til sjávarútvegsfyrirtækja í Bandaríkjunum og Kanada. Þetta er risastór markaður með mikil tækifæri sem hefur ekki þróast eins hratt og á Íslandi, þannig að það hefur skapast mikil vöntun á fjármagni inn í tækniþróun, uppfærslu skipa og jafnvel í fyrirtækjasamruna. Það skortir sérhæfingu og tengslanet í sjávarútvegi hjá hefðbundnum viðskiptabönkum í Norður-Ameríku sem veldur því að bankar eru ekki viljugir til þess að lána mikið til þessara fyrirtækja. Það tómarúm skapar markaðstækifæri fyrir sjóðinn. Við erum í samstarfi við sérhæfðan fjárfestingarbanka í Bandaríkjunum sem heitir Antarctica Advisors. Á bak við hann er teymi sem var hjá Glitni í New York á sínum tíma og starfaði m.a. við að útvega lán til sjávarútvegsfyrirækja og eftir hrun þróuðu þeir þá starfsemi áfram og hafa verið umfangsmiklir í fyrirtækjaráðgjöf, m.a. með því að tengja saman sjávarútvegsfyrirtæki og fjárfesta. Samkvæmt samstarfssamningi getum við valið lán inn í sjóðinn sem „Asset Manager“. Við erum byrjaðir að markaðssetja sjóðinn til íslenskra fjárfesta og þar er verulegur áhugi, enda sjávarútvegur í Norður-Ameríku risastór og býður upp á áhugaverðan fjárfestingarkost í erlendri mynt. Síðar verður sjóðurinn markaðssettur til bandarískra fjárfesta og þannig munum við sameina íslenska og bandaríska fjárfesta í sjóð utan um þessa afurð, sem ég tel marka ákveðin tímamót.“
Hann segir því skrifstofuna í Bandaríkjunum og leyfið þar mikilvægan hlekk fyrir félagið. „Lykilatriði er að vera með samstarfsaðila en reyna ekki að byggja allt frá grunni upp á eigin spýtur. Það er ekki heldur eins mannaflsfrekt. Þannig að héðan í frá mun ekki verða mikil breyting á erlendu starfseminni, þótt allt geti tekið breytingum eftir því hvernig hlutirnir þróast.“
Erlendur áhugi á ferðaþjónustunni
Má þá skilja það svo að GAMMA hafi farið of geyst í uppbyggingu erlendis? „Það er erfitt að dæma um það því þetta er fjárfesting þar sem tekjurnar skila sér ekki frá fyrsta degi. Þannig að ég ætla ekki að segja að það hafi endilega verið farið of geyst en það hefur að minnta kosti verið tekin ákvörðun um að hægja á.
Eitt af því sem hefur gengið hægt en við erum að sjá núna skila árangri, er að vera með íslensk ráðgjafarverkefni og kynna þau erlendis. Þar er til dæmis ferðaþjónustuskýrslan mikilvægur hlekkur í markaðssetningu okkar erlendis, en fjárfestar eru að sjá tækifærin í íslensku ferðamennskunni. Margir ferðamenn sem hingað koma t.d. frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópu eru að einhverju leyti viðloðandi fjárfestingar og ferðamannaiðnaðurinn er á þeim stað núna eftir hraðan vöxt, að ýmis tækifæri felast til dæmis í sameiningum fyrirtækja, bættri þjónustu við ferðamenn og almennri hagræðingu. Einnig sjá erlendir fjárfestar tækifærin og hafa áhuga á því að fjárfesta í öruggu umhverfi sem er í vexti og í hreinni náttúru. Þar við bætist að hagkerfið er núna í svo góðu horfi, þar sem skuldir fyrirtækja og heimila hafa farið lækkandi, seðlabankinn býr yfir stöndugum gjaldeyrisvarasjóði, verðbólgan hefur verið lág og þokkalegur stöðugleiki ríkt í landinu. Þannig að Ísland hefur góða sögu að segja. Það eina neikvæða þegar maður hefur talað við erlenda fjárfesta, er að þurfa að útskýra að það séu ennþá innflæðishöft inn á skuldabréfamarkaðinn.
Það sem verið er að kynna núna fyrir erlendum fjárfestum eru fjárfestingartækifæri í íslenska hagkerfinu, ekki í íslenskum vöxtum. Við höfum talað fyrir því í mörg ár að það eigi að lækka vextina og hleypa útlendingum inn, þannig að þeir séu ekki að kaupa sig inn í vaxtastigið heldur séu að kaupa hlut í íslensku hagkerfi. Það myndi hjálpa til við ná samlegðaráhrifum í ferðaþjónustu. Það að ná erlendum hótelkeðjum mun t.d. hjálpa okkur við að viðhalda ferðamannastraumnum í framtíðinni. Erlendar hótelkeðjur og erlend flugfélög þyrfti þá að auglýsa Ísland þannig að við yrðum ekki ein um það.“
Valdimar telur komið að vatnaskilum í ferðaþjónustunni og að erlendir fjárfestar geti hjálpað til við að koma greininni upp á næsta þroskastig. „Það er öðruvísi að reka ferðaþjónustufyrirtæki þegar ferðamönnum fjölgar um 300 þúsund manns á hverju ári og reksturinn vex með auknum fjölda, en þegar búið er að ná ákveðinni stærð og dregur úr fjölgun. Þá þarf að hugsa meira um hvernig hægt sé að halda viðskiptavinahópnum.
Þátttaka erlendra aðila gefur okkur einnig tækifæri í að fjárfesta í innviðum og búa okkur undir næstu stækkun, sem gæti komið eftir einhvern tíma. Ég sé ekki að Ísland geti fjárfest eitt og sér í innviðum, hótelum og öllu því sem tengist ferðamönnum sem eru sjö sinnum fleiri en íbúafjöldinn. Ég tel að það verði að fá erlent fjármagn. Fyrir Ísland er það auk þess tækifæri til áhættudreifingar. Ef til áfalls kæmi myndum við deila því með erlendum fjárfestum, því að á sama tíma eru lífeyrissjóðirnir og sparifjáreigendur að nota tækifærið og fjárfesta erlendis. Þetta ætti því að draga úr heildaráhættu í íslenska hagkerfinu ef þetta er gert á réttan hátt.“
Sjá mikil tækifæri í fjártækni
En sé litið til innlendrar starfsemi GAMMA, má búast við hagræðingu þar eða breyttum áherslum? „Í rauninni hefur innlenda starfsemin gengið afar vel og það þarf ekki að breyta neinum árherslum þar. Það er vissulega breyting hjá okkur að Almenna leigufélagið er á leiðinni í skráningu í Kauphöll. En annars mun innlendi reksturinn þróast áfram á svipaðan hátt og hingað til, og snúast um að leita tækifæra sem eru á markaðnum og nýta þau til þess að kynna fyrir okkar fjárfestum. Það sem gæti mögulega breyst núna er að verkefni verði meira kynnt fyrir erlendum fjárfestum, sem tengist því sem ég sagði áðan.
Kjarnastarfsemin hérna heima varðandi skuldabréf, hlutabréf, fyrirtækjalán og slíkt er á mjög góðum stað og í mjög góðum farvegi. Það eru án efa einhver tækifæri framundan sem er mögulega hægt að nýta. Miklar breytingar eru framundan í bankakerfinu sem á eftir að sjá fyrir endann á, þegar þeir fara á markað og nýir fjárfestar koma inn. Svo er náttúrlega ennþá verið að breyta lögum og reglum um greiðslumiðlun og verður áhugavert að sjá hvernig fjártæknifyrirtækjum reiðir af í framtíðinni. Íslendingar hafa alltaf verið fljótir að tileinka sér tækninýjungar en mér finnst við hafa setið svolítið á eftir í tækniþróun hvað varðar greiðslumiðlun, greiðslur með síma og annað slíkt. Það er klárlega eitthvað sem er áhugavert að taka þátt í. Við erum í samstarfi við Nova varðandi lán í gegnum síma, höfum frá upphafi verið fjármögnunaraðili á greiðslulausninni PEI og svo erum við með Framtíðina, veflánafyrirtæki sem byrjaði á að veita námslán og veitir nú líka almenn neytendalán og húsnæðislán. Við erum því þegar töluvert í fjártækni enda sjáum við mikil tækifæri þar.“
Valdimar segir að stefnt sé að skráningu Almenna leigufélagsins seint á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. „Við vorum í stóru verkefni í haust og vetur við að endurfjármagna Almenna leigufélagið. Félagið gaf út skuldabréf sem skráð var í Kauphöll með viðskiptavakt. Það var fyrsta skrefið. Síðan þarf félagið að ná heilu rekstrarári þar sem það stækkaði mikið í fyrra, svo fjárfestar sjái nákvæmlega hvernig félagið lítur út.“
Valdimar segir vandmeðfarið með íbúðafélög sem eru að leigja á neytendamarkaði og það standi mörg spjót á þeim. „En ef maður horfir til annarra ríkja þá er ekki eins það sé verið að taka eitthvað af félagslegum úrræðum. Þetta er í rauninni frábær viðbót við fasteignamarkaðinn. Við höfum verið að reyna að koma því á framfæri að það eigi að vera frjálst val um að leigja eða kaupa. Það hefur lengi verið deilt á íslenska fasteignamarkaðinn að ekki hafi verið hægt að leigja af traustum aðilum sem helga sig slíkum rekstri. En núna eru þessi leigufélög orðin að veruleika og ég held að það muni hjálpa þeim mikið að vera skráð í Kauphöllinni við hliðina á atvinnuhúsnæðisfélögunum. Það mun tryggja að þau sinni sínum viðskiptavinum vel ásamt því að skila góðri arðsemi til fjárfesta.“
Skörun innanlands og erlendis
Eins og fyrr segir voru Ráðgjöf GAMMA og erlenda starfsemin rekin í systurfélagi af tæknilegum ástæðum, en eru nú komin undir rekstrarfélagið sem dótturfélag. „Það er eins og við vildum hafa það. Þetta átti ekki að vera aðskilið. Þetta er sama fyrirtækið og sömu hluthafar og þetta styður allt hvað við annað og er mikilvægur hlekkur í því. Þess vegna mun líka alltaf verða erfitt að segja að erlenda starfsemin gangi svona og innlenda starfsemin svona. Að einhverjum hluta eru óljós skil, það er verið að finna innlend ráðgjafarverkefni sem seld eru til útlanda og það er verið að finna verkefni erlendis sem seld eru heim. Þannig að það verður ákveðin skörun og þess vegna verður maður að líta á heildarmyndina. Ég held að það sé bara mjög gott og hollt fyrir fyrirtæki við tímamót á 10 ára afmælinu að taka fast á skipulaginu og forma skipurit og tekjusviðin nákvæmlega.
En í heild gengur innlenda starfsemin afar vel og rekstrarfélagið stendur mjög vel. Aðgerðir okkar fólust í því að draga úr kostnaði við fjárfestingar í því sem ekki gekk upp, en styðja við það sem gengur vel upp. Það mun áfram verða hjá okkur ráðgjöf og við sjáum það í tengslum við ferðaþjónustuskýrsluna að hún og erlendu skrifstofurnar munu fá nóg af verkefnum til þess að sinna. Eins og staðan er núna erum við komnir með góða mynd á fyrirtækið og hvernig þessi svið öll geta unnið saman.“
Fréttin birtist á heimasíðu mbl.is þann 25. mars 2018: www.mbl.is/vidskipti/snyst_um_ad_leita_taekifaera_og_nyta_thau/