Fréttir



  • Vala_VB

Viðskiptablaðið: Vala nýr framkvæmdastjóri Framtíðarinnar

22.3.2018 Starfsemi

Vala Halldórsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Framtíðarinnar, segir mikla þörf hafa verið fyrir viðbótarhúsnæðislán fyrirtækisins. Félagið hyggst senn bjóða upp á brúarlán fyrir fasteignakaupendur sem ekki hafa selt eigin fasteign. 

 

Screen-Shot-2018-03-22-at-10.27.12

Vala Halldórsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Framtíðarinnar, segir mikla eftirspurn hafa verið eftir nýjum lánum Framtíðarinnar sem félagið hóf að bjóða á síðasta ári, húsnæðislán og almenn lán til viðbótar við námslán fyrirtækisins. 

„Í húsnæðislánunum duttum við greinilega inn á eitthvað sem fólk þurfti á að halda,“ segir Vala. Nokkur þúsund manns hafa tekið slík lán hjá Framtíðinni, en fyrirtækið er í eigu sjóðs í stýringu hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA. „Það er ótrúlega skemmtilegt að sjá hvað við höfum náð að hjálpa mörgum, sérstaklega fyrstu kaupendum,“ segir Vala. „Við erum til dæmis hagkvæmasti kosturinn á móti lífeyrissjóðsláni,“ segir hún. Lífeyrissjóðir lána í flestum tilfellum fyrir 70-75% af kaupverði. Því geta lán á borð við þau sem Framtíðin býður brúað mismuninn milli útborgunar og lífeyrissjóðslánsins.

Húsnæðislán Framtíðarinnar eru viðbótarlán fyrir allt að 90% af fasteignaverði fyrir kaupendur fyrstu fasteignar og 85% af kaupverði fyrir aðra kaupendur. Þá eru vaxtakjör Framtíðarinnar sniðin að hverjum og einum út frá lánshæfismati Creditinfo ásamt fleiri breytum.

 

Vala tekur við starfinu af Hrólfi Andra Tómassyni. Hún er með BSc gráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað í hugbúnaðar- og nýsköpunargeiranum frá útskrift árið 2008, þar á meðal lengi vel hjá leikjafyrirtækinu Plain Vanilla.

Stífar kröfur fyrir lánum

Almenn lán félagsins eru fyrir allt að einni milljón króna. Meðal þeirra möguleika sem gefnir eru upp sem ástæður lána eru brúðkaup, jólin, læknisþjónusta, framkvæmdir eða viðhald á bíl eða fasteign, ferðalög, flutningar, eða kaup á bifreið. Hins vegar sé mörgum lánaumsóknum hafnað. „Við viljum fá til okkar góða lántaka, erum því með nokkuð stífar kröfur um lánshæfismat og veljum þannig úr,“ segir Vala. 

 

Starfa eingöngu á netinu

Stefna Framtíðarinnar er að bjóða þjónustu sína eingöngu á netinu. „Hugsunin er að að vera algjörlega rafræn sem gefur okkur mjög mikið svigrúm og koma inn á svið þar sem önnur fyrirtæki eru ekki að bjóða lán til að hjálpa neytendum þar,“ segir Vala. 

„Við gerum allt til að halda mjög lítilli yfirbyggingu og geta þannig hreyft okkur hraðar og bjóða betri kjör og þjónustu,“ segir Vala. Allir þrír starfsmenn fyrirtækisins, eru kvenkyns. „Það var ekki endilega stefnan en æxlaðist þannig,“ segir Vala. 

 

„Við reynum að hafa þetta öðru vísi. Oft er ferlið langt og mikið pappírs óð sem fylgir lánaumsóknum. Auðvitað eru lög sem skylda okkur til að gera ákveðið en við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma öllu öðru í skilvirkara ferli,“ segir Vala. „Þetta á að vera skýrt og gegnætt feril. Fasteignakaup gerast oft mjög hratt. Þannig að sá sem er að styðja þig í þessu þarf líka að geta hreyfa sig hratt.“ 

 

Bjóða senn upp á brúarlán

 

 

Framtíðin er með nokkrar nýjar vörur í bígerð. „Við munum senn kynna brúarlán sem svarar mikilli eftirspurn á lánamarkaðnum,“ segir Vala. Brúarlán Framtíðarinnar eru skammtímalán til einstaklinga, veitt út á eigið fé í núverandi fasteign, til kaupa á nýrri fasteign þar til eldri fasteign er seld. Þá er brúarlánið greitt upp. Með þessu móti geti einstaklingar lagt inn kauptilboð án þess að þurfa að hafa fyrirvara um sölu á eigin fasteign. „Það gerir það líklegra að kauptilboðinu verði tekið, sérstaklega ef margir eru um hituna,“ segir Vala. 

Fjártækniheimurinn breytist hratt

Vala segir margt spennandi að gerast í fjártækniheiminum. „Á Íslandi erum við nokkrum árum á eftir þróuninni erlendis. Við höfum horft til Svíþjóðar og Bandaríkjanna þar sem þau eru komin ótrúlega langt og mörg flott fjártæknifyrirtæki sem eru að gera frábæra hluti fyrir neytendur,“ segir Vala. „Fólk er víða næstum hætt að notast við peninga og nær allt er orðið rafrænt. Þess vegna er mjög spennandi að sjá hvað verður hér á landi.“

 

Vala, sem kemur úr hugbúnaðargeiranum, segir að sér hafa komið nokkuð á óvart hve hugbúnaðargeirinn nær víða. „Öll fyrirtæki í dag, liggur við, eru hugbúnaðarfyrirtæki. Flugfélögin eru að hluta til hugbúnaðarfyrirtæki og fjármálastofnanirnar eru það líka. Það hefur komið skemmtilega á óvart hvað þetta er svipað alls staðar,“ segir Vala. 

 

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu þann 22. mars 2018, 12. tölublaði, 25 árgangi. 

 

 

 

 

Senda grein