FréttirVegna nýrra skilmála á skuldabréfi Wow air

Fréttir

11.3.2019

Valdimar Ármann fjallaði um breytingar á skuldabréfi útgefnu á Wow air í kvöldfréttum sjónvarps og hvernig þetta snýr að skuldabréfaeigendum. Einnig var farið yfir hvað er í húfi en miklir hagsmunir eru fyrir fyrirtækið sjálft, vinnumarkað, hagkerfið og jafnvel ríkið hvernig til tekst með framtíðarrekstur Wow.

Af gefnu tilefni vegna umfjöllunar um fjárfestingar sjóða GAMMA í skuldabréfi útgefnu af Wow air, þá var fjárfest fyrir samtals um 3% af eignum tveggja sjóða í umræddu skuldabréfi. Virði bréfanna hefur verið fært í fjórðung af upphaflegum höfuðstól þeirra og endurspeglar gengi sjóðanna því nú þegar líkur á lægri endurheimtum og er vigt umrædds skuldabréfs nú undir 1% af eignum sjóðanna. Nú er lagt upp með skilmálabreytingar sem fela í sér að lækka höfuðstól skuldabréfsins um 50% gegn því að fá forgangshlutafé sem greiðist út að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Valdimar Ármann, CEOHér fyrir neðan er frétt af ruv.is sem sýnir viðtal við Valdimar Ármann í kvöldfréttum sjónvarps, þann 10. mars og má sjá hér líka: http://www.ruv.is/frett/segir-nyja-skilmala-akvedin-vonbrigdi
Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, segir nýja skilmála sem skuldabréfaeigendur í WOW air þurfa að samþykkja vera ákveðin vonbrigði. Þó sé niðurstaðan skárri en hann óttaðist. Tveir sjóðir á vegum Gamma fjárfestu fyrir tvær milljónir evra í skuldabréfum Wow air.

Eins og greint var frá í fréttum í gær þurfa skuldabréfaeigendur sem keyptu bréf í WOW air að samþykkja nýja skilmála sem fela meðal annars í sér að endurheimtur þeirra verði bundnar rekstarframmistöðu fyrirtæksins á næstu árum, vextir bréfanna fari úr níu prósentum í sjö prósent og bréfin endurgreiðist á fimm árum í stað þriggja. Þá lækkar höfuðstóll bréfanna um helming. Í janúar var einnig verið farið fram á að fjárfestar myndu fellast á breytta skilmála. Þeir skilmálar voru háðir þeim fyrirvara að Indigo myndi klára fjárfestinguna 28. febrúar. Þeim fyrirvara var ekki lyft og hafa skuldabréfin því staðið óbreytt frá því að þau voru seld í haust.

„Þetta eru vissulega ákveðin vonbrigði fyrir skuldabréfaeigendur og það er aldrei ánægjulegt að þurfa að taka tap á fjárfestingu,“ segir Valdimar. Hann bendir þó á að það jákvæða í þessu sé að í staðinn fái skuldabréfaeigendur möguleika á að vinna lækkun höfuðstóls til baka í gegnum forgangshlutafé að undangengnum ákveðnum skilyrðum um ávöxtun Indigo. Heldur hann því einnig til haga að beiðnin hafi komið fram í gær þannig að eigendur eigi eftir að meta fjárhagsáætlunina sem liggur að baki.

„Það voru ýmsar sögusagnir um afdrif félagsins og þessara samningaviðræðna í síðustu viku. Allt frá því að Indigo er að ganga frá borðinu í það að Indigo væri að biðja um stórfellda afskrift kröfuhafa til þess að samningurinn næði fram að ganga. Þannig að í raun og veru má líta á það sem svo að þetta var skárra en maður óttaðist og var undirbúinn fyrir,“ segir Valdimar.

Valdimar segist ekki getað talað fyrir Skúla Mogensen eða bandaríska eignastýringafyrirtækið Eaton Vance sem á allt að fimmtung skuldabréfanna en segist þó búast við því að niðurstaðan sé svekkjandi fyrir þessa aðila. „Ég get ekki talað fyrir hönd Skúla en ég geri ráð fyrir að niðurstaðan sé svekkjandi fyrir hann. Félagið virðist hafa náð töluvert góðum breytingum í gegn eftir að Indigo kom inn í ferlið með því að straumlínulaga reksturinn, losna við dýrar breiðþotur félagsins, einfalda skipulagið og færa félagið í rauninni í það sem það átti að vera í upphafi og var. Það er jákvætt en eflaust eru vonbrigði fyrir Skúla, geri ég ráð fyrir, að ná ekki að halda þessu í gegnum þennan hristing sem er í gangi,“ segir hann.

Nú verður beiðni lögð fyrir skuldabréfaeigendur en til þess að atkvæðagreiðslan sé marktæk þarf helmingur skuldabréfaeigenda að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og tveir þriðju að samþykkja breytingarnar. Samhliða þessu þurfa skuldabréfaeigendur að fallast á það gefa eftir kauprétti.

„Það eru alltaf einhverjar líkur á að þetta gangi ekki í gegn en miðað við stöðuna og það sem er í hendi, þó það sé búinn að vera stuttur tími til að meta þetta nákvæmlega, þá sýnist mér miðað við uppleggið að það séu góðar líkur á að þetta verði samþykkt,“ segir Valdimar.

Mikið er í húfi. „Fyrir félagið er náttúrulega í húfi að lifa af, að fá nýja fjárfestingu og ferskan pening inn í félagið en Indigo hefur núna gefið til kynna að hann sé hærri en var áður, úr 75 milljónum dollara í 90 milljónir dollara. Hliðaráhrifin eru náttúrulega þau að hjá félaginu starfa yfir þúsund manns. Hliðarstörf út frá starfsemi WOW eru örugglega önnur þúsund ef ekki fleiri. Komur ferðamanna, ferðaþjónusta og annað slíkt. Þetta er mjög stórt mál. Ekki bara fyrir WOW og skuldabréfaeigendur heldur líka fyrir allt hagkerfið,“ segir hann.

„Þetta þarf allt að vera klárt á næstu tveimur vikum og allt að vera klárt í lok mars – enda mjög mikilvægur þáttur í þessu að ná lúkningu í málið og létta þessari óvissu. Bæði fyrir félagið, starfsmenn þess og aðra hliðarþjónustu.“

Fréttin birtist í kvöldfréttum sjónvarpsins þann 10. mars 2019.


Senda grein