Fréttir



Uppsöfnuð fjárfestingarþörf nemur 230 milljörðum króna

2.11.2016 Skoðun Útgáfa

Tækifæri eru til að fá langtímafjárfesta að verkefnum sem tengjast innviðauppbyggingu á Íslandi, að því er fram kemur í nýrri skýrslu GAMMA. Heildarumfang verkefna sem nefnd eru í skýrslunni og eru talin henta í einkafjármögnun nemur ríflega 900 milljörðum króna.

Gislihauksson

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Innviðafjárfestingar á Íslandi - Infrastructure investment in Iceland

Í nýrri skýrslu GAMMA Capital Management kemur fram að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum hér á landi nemi um 230 milljörðum íslenskra króna. Mat GAMMA er að á næstu sjö til tíu árum þurfi að fjárfesta í innviðum hér á landi fyrir hátt í 600 milljarða króna.

Í skýrslunni kemur fram að hið opinbera standi tæpast eitt undir því að veita fjármagni til uppbyggingarinnar, enda fjárhæðir mjög háar, en fjárfestar geti haft bæði áhuga og ávinning af því að koma að stökum verkefnum með ríkinu.

Tekin eru dæmi um fjölmörg verkefni sem verið hafa í umræðunni og gætu reynst vænlegir kostir í hálfopinbera einkaframkvæmd. Þar á meðal eru verkefni á borð við Sundabraut, stækkun Keflavíkurflugvallar, nýr Landspítali, hraðlest milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu og rafstrengur milli Íslands og Bretlands, auk smærri verkefna.

Screen-Shot-2016-11-02-at-15.31.51

Heildarumfang verkefna sem nefnd eru í skýrslu GAMMA og eru talin henta í einkafjármögnun nemur ríflega 900 milljörðum króna.

„Við höfum fundað með stórum innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins og finnum fyrir miklum áhuga þeirra á að fjárfesta í innviðaverkefnum hér landi,“ segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, sem rekur starfsstöðvar bæði á Íslandi og í London. „Stærstu verkefnin eru orðin nógu stór til að vekja athygli þeirra.“

Fram kemur í skýrslu GAMMA að fjárfestar sjá hag í þátttöku í slíkum verkefnum vegna stöðugleika, fremur en mikils vænts hagnaðar, þar sem sveiflur á markaði komi ekki endilega niður á ávöxtun. Fjármögnunarverkefni af þessum toga henti til dæmis til að dreifa áhættu með öðrum verkefnum. 

„Nú er tækifæri að fá langtímafjárfesta að verkefnum, þar með talið erlenda aðila sem eru mjög áhugasamir og gera ekki háa ávöxtunarkröfu á sama tíma og vextir í heiminum eru í sögulegu lágmarki,“ segir Gísli. 

GAMMA hefur síðustu ár fjallað töluvert um innviðafjárfestingu, en ný skýrsla fyrirtækisins er samantekt á ítarlegri greiningu sem unnin hefur verin fyrir bæði innlenda og erlenda fjárfesta.

„Við höfum til dæmis verið leiðandi í umræðu um Sundabraut og sæstreng til Evrópu, sem og að ekki sé réttlætanlegt að skattgreiðendur beri alla ábyrgð á stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli,“ segir Gísli.

Fram kemur í skýrslu GAMMA að í Evrópu hafi innviðafjárfesting, sem hlutfall af landsframleiðslu, fallið úr 5% í 2,5%, en þurfi að minnsta kosti að ná 4,1% til að viðhalda vexti. Að mati GAMMA væri kjörhlutfall slíkrar fjárfestingar 5,5% hér á landi, en innviðafjárfesting á Íslandi hafi náð botni í 2,5% árið 2012 og sé nú rétt yfir 3%.

Senda grein