FréttirUndirritun viljayfirlýsingar við Kviku um kaup á GAMMA

22.6.2018 Starfsemi

Þann 20. júní síðast liðinn  tilkynntu Kvika banki og GAMMA um undirritun viljayfirlýsingar Kviku banka hf. og hluthafa GAMMA Capital Management hf. („GAMMA“) um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA.

Fyrirhuguð viðskipti eru háð ýmsum skilyrðum, svo sem niðurstöðu áreiðanleikakannana, samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku banka.

Við hjá GAMMA teljum að með breyttu eignarhaldi munu myndast enn frekari tækifæri í starfsemi GAMMA og framtíð félagsins standa enn styrkari fótum. Félagið verður rekið áfram undir nafni GAMMA í Garðastræti 37 og engin breyting verður í okkar viðmóti eða þjónustu við viðskiptavini enda markmiðið að halda áfram að bjóða upp á fjölbreytta fjármálaþjónustu með auknu vöruframboði.

Kvika leggur áherslu á fjárfestingabankastarfsemi og er með sterka stöðu í eigna- og sjóðastýringu. Bankinn er einnig með öfluga starfsemi í markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.  Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku banka og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna gangi kaupin á GAMMA eftir.

Þótt GAMMA verði rekið sem sjálfstæð eining þá mun félagið njóta stuðnings af Kviku enda er markmið bankans með kaupunum er að styrkja sig enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar og erlendrar starfsemi.   GAMMA er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og fagnaði 10 ára afmæli nú nýverið. Eignir í stýringu hjá GAMMA námu 138 milljörðum króna í árslok 2017.

Viljayfirlýsing aðila kveður á um að kaupverð fyrir allt útistandandi hlutafé GAMMA nemi 3.750 milljónum króna, m.v. stöðu félagsins í árslok 2017 og stöðu árangurstengdra þóknana sem eftir á að tekjufæra. Kaupverðið á GAMMA getur tekið breytingum til hækkunar og lækkunar eftir því hvernig rekstur og verðmæti eigna GAMMA þróast á næstu misserum og samanstendur af reiðufé og hlutabréfum í Kviku banka.

Nánari upplýsingar um viljayfirlýsinguna er að finna á vef kauphallarinnar.

Gamma96464

Senda grein