Fréttir



  • Power-plant-67538

Umfjöllun um aðkomu GAMMA að jarðvarmaverkefnum

27.12.2017 Starfsemi

Fréttablaðið fjallar um aukinn áhuga fjárfesta á nýtingu jarðvarma og aðkomu GAMMA að slíkum verkefnum.

Aukinn áhugi stórra alþjóðlegra fjárfesta á að fjárfesta í jarðvarmaverkefnum getur skapað mikil tækifæri fyrir Íslendinga. Þetta kom fram í samtali við Gísla Hauksson, stjórnarformann GAMMA, í Fréttablaðinu nú rétt fyrir jól. Í umfjöllun blaðsins var fjallað almennt um jarðavarmanýtingu, áhuga alþjóðlegra fjárfesta á því að fjárfesta frekar í greininni og samstarf GAMMA við bandaríska ráðgjafafyrirtækið Interlink Capital Strategies.

Umfjöllunina má sjá hér fyrir neðan:

Áhugi fjárfesta á að nýta jarðvarma eykst

FBL---umfjollun-19.12.17Aukinn áhugi stórra alþjóðlegra fjárfesta á að fjárfesta í jarðvarmaverkefnum getur skapað mikil tækifæri fyrir Íslendinga, að mati Gísla Haukssonar, stjórnarformanns GAMMA. Einn þekktasti fjárfestir í heimi, Bill Gates, hefur stofnað sjóð sem mun fjárfesta í slíkum verkefnum.

„Notkun jarðvarma á heimsvísu er undir einu prósenti af orku sem við notum, þrátt fyrir vitneskju um mikla nýtanlega jarðvarmaorku víðs vegar um heiminn. Ástæðan fyrir þessu lága nýtingarhlutfalli er tvíþætt; annars vegar voru framfarir í bortækni, að geta borað nógu djúpt, hægfara en mikil breyting er að verða þar á nú. Hins vegar er meiri óvissa á undirbúningsstigi þegar verið er að leita að nýtanlegum jarðvarma samanborið við aðra orkukosti. Margar dýrar tilraunaboranir þarf til að finna orkuna en þegar hún finnst er nýting hennar hlutfallslega ódýrari en aðrir orkukostir, og stöðug,“ segir Gísli.

„Um leið og þú veist að það er nýtanlegt heitt vatn og gufa sem getur knúið túrbínu eða hitað hús dregur hratt úr áhættu verkefnisins. Óvissan er mest á fyrsta stiginu,“ segir Gísli til útskýringar. Hann segir að á allra síðustu árum hafi stórir alþjóðlegir sjóðir, sem eru yfirleitt með einum eða öðrum hætti fjármagnaðir af hinu opinbera, komið að rannsóknum á jarðhitasvæðum á fyrstu stigum. Þetta séu áhættusamar fjárfestingar. Það hafi mikla þýðingu að Bill Gates sé farinn að fjárfesta á þessu sviði, því reynslan sýni að aðrir öflugir fjárfestar feti jafnan í fótspor hans.

„Þegar fjármögnun rannsókna á þessu sviði er ekki bara á hendi opinberra stofnana heldur jafnframt fjársterkra einkaaðila opnast tækifæri fyrir hefðbundna fjárfesta, lífeyrissjóði, tryggingafélög og aðra til að fjárfesta í jarðvarmaverkefnum,“ segir Gísli. Þessi áherslubreyting feli í sér að draga úr áhættu í þessum fjárfestingum. Gísli bendir á að því hafi verið spáð að eftir tíu ár verði jarðvarminn jafn mikið nýttur og sólarorkan er í dag. Þetta hafi mikla þýðingu fyrir Ísland.

„Heimurinn er í fyrsta lagi að átta sig betur á mikilvægi jarðvarma í aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku í framtíðinni og hversu hagkvæm tæknin er. En ekki nóg með það heldur eru margir helstu vísindamenn og verkfræðingar í jarðvarmatækni Íslendingar, sem annaðhvort starfa á Íslandi eða fyrir íslensk fyrirtæki erlendis. Íslendingar eru mjög framarlega í þessum geira,“ segir hann.

Umfjöllunin birtist upphaflega í Fréttablaðinu þann 19. desember 2017. 

Senda grein