Fréttir



  • SvipmyndValdimar

Tími til að leyfa Íslandi að njóta velgengninnar

8.5.2017 Skoðun

Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA Capital Management skrifar í helgarblaði Morgunblaðsins um íslenska hagkerfið og svigrúm til vaxtalækkunar

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur nú lækkað um 1,8% síðastliðið ár. Það má því segja sem svo að það sé enginn innlendur verðbólguþrýstingur og í rauninni frekar um að ræða verðhjöðnun á Íslandi. Athygli vekur að myndast hefur umtalsverður munur á vísitölu neysluverðs með og án húsnæðis en vísitalan með húsnæði hefur hækkað um 1,9% síðastliðið ár. Það er því húsnæðisliðurinn sem hefur umtalsverð áhrif á vísitöluna sem Seðlabanki Íslands hefur til viðmiðunar við sínar vaxtaákvarðanir en hann stefnir að því að verðbólga sé að jafnaði sem næst 2,5%.

Í raun skiptir ekki máli hvort hún sé hærri eða lægri en 2,5% heldur einfaldlega sem næst markmiðinu að jafnaði og þá eru tilgreind vikmörk +/- 1,5%. Vert er að geta þess að þessu markmiði hefur verið náð og viðhaldið í ríflega þrjú ár en verðbólgan hefur verið undir viðmiði Seðlabankans í 39 mánuði eða frá febrúar 2014. Á þessu tímabili hefur hún í 27 mánuði verið undir tveimur prósentum en 12 mánuði verið á milli 2-2,5%.

Sett í samanburð við síðustu uppsveiflu þá var verðbólgan sjaldnar undir viðmiðinu en náði á árinu 2002-2004 að vera samtals 19 mánuði í kringum viðmiðið og þar af 16 mánuði undir því. Lengsta samfellda skeið lágrar verðbólgu var árin 1994-1999 en þá var verðbólgan undir núverandi 2,5% markmiði í 60 mánuði af 62 á þessu tímabili.

Árleg breyting vísitölu neysluverðs frá 1940 (heimild: hagstofan)

Screen-Shot-2017-05-09-at-12.18.40

Litið fram á veginn er erfitt að spá um þróunina en miðað við væntingar skuldabréfamarkaðarins er ekki gert ráð fyrir verulegri hækkun verðbólgu heldur að hún verði áfram lág eða á bilinu 2,2% -2,5% næstu 5 til 10 árin að meðaltali (með svokallaðri „áhættuleiðréttingu“ vegna verðbólguáhættu, má rökstyðja að verðbólguvæntingarnar séu í raun enn lægri). Það mætti því ætla að Seðlabankinn hefði getað séð sér fært að lækka vexti til að ná verðbólgu aftur upp í markmið, en svo er ekki heldur eru vextir einungis 0,25% lægri nú heldur en árið 2014 þegar verðbólgan fór undir markmiðið.

Ef rýnt er í hagtölur má sjá að Ísland er á einstökum stað með mikil umsvif í hagkerfinu samhliða litlum útlánavexti og uppbyggingu gjaldeyrisforða sem hefur skilað sér í jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins. Mikil fjölgun ferðamanna á Íslandi á stuttum tíma hefur valdið ýmis konar ójafnvægi enda ekki óeðlilegt að það taki hagkerfið nokkur ár að ganga í gegnum jafn viðlíka breytingu eins og átt hefur sér stað hér á landi.

Auðséð er að slík gjörbylting á hagkerfinu hlýtur að skila sér í mikilli breytingu í peningamála- og efnahagsstjórnun. Háum vöxtum verður ekki beitt til að stöðva umsvifin í hagkerfinu sem eru drifin áfram af stórauknum komum erlendra ferðamanna til landsins. Háum vöxtum verður ekki beitt til þess að lækka fasteignaverð sem að hluta til er drifið af því að hýsa þarf ferðamennina sem hingað koma (svo ekki sé minnst á aukningu í erlendu vinnuafli), en talið er að um 3.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu séu í leigu til ferðamanna, einhvern hluta allavega úr ári, sem er nærri 4% íbúða á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Ekki þarf að beita háum vöxtum til að viðhalda vaxtamun til að laða gjaldeyri til landsins þar sem óskuldsettur gjaldeyrisforði er til staðar, viðskiptajöfnuður jákvæður ásamt jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins.

Undirliggjandi erlend staða sem hlutfall af landsframleiðslu

Screen-Shot-2017-05-09-at-14.38.16

Skuldir heimila og fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu

Screen-Shot-2017-05-09-at-14.37.46

Undanfarin ár hefur kaupmáttur hækkað myndarlega og áfram er útlit fyrir umtalsverða samkeppni í smásöluverslun sem litast af innkomu erlendra aðila sem og aukinni verslun á netinu. Þá hefur vöruverð lækkað bæði vegna hagræðinga og gengisstyrkingar, en einnig vegna lægri skatta í formi afnuminna vörugjalda og tolla og lækkun á virðisaukaskatti. En nú er kominn tími til þess að Seðlabanki Íslands leyfi íslenskum almenningi og fyrirtækjum að njóta góðs af velgengni landsins með því að lækka hér vaxtastig og létta þannig á heimilum landsins og auka samkeppnishæfnina.

Höfundur: Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA.

 

- Greinin birtist Morgunblaðinu laugardaginn 6. maí 2017.

Screen-Shot-2017-05-08-at-11.56.21

Senda grein