Fréttir



Tími kominn á innviðafjárfestingu

5.10.2017 Skoðun

Samhljómur er milli skýrslu Samtaka iðnaðarins (SI) um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi og fyrri umfjöllunar GAMMA um uppsafnaða fjárfestingarþörf vegna innviða undir lok síðasta árs. 

Download

Skýrsla Samtaka iðnaðarins (SI) um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi var kynnt í morgun. Að mati SI er komið að þeim tíma að um taki að hægjast í hagkerfinu og því lag að huga að fjárfestingu í innviðum. 

„Og á innviðunum byggir hagvöxtur framtíðarinnar,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í inngangsorðum sínum. Þá kom fram kom í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, að samtökin sæju fyrir sér að einkaaðilar kæmu í meira mæli að uppbyggingu innviða, bæði væri góð reynsla af slíkum verkefnum hér á landi, svo sem við uppbyggingu Hvalfjarðarganga og eins væru fyrirliggjandi verkefni af þeirri stærðargráðu að vandséð væri að hið opinbera fengi eitt staðið undir því öllu.

Áhuginn er til staðar

Í skýrslu SI er uppsöfnuð viðhaldsþörf í þeim þáttum sem horft er til áætluð 372 milljarðar króna, og er þá horft til kostnaðar við að koma þeim innviðum í ásættanlegt horf. Í fjárhæðum talið er viðhaldsþörfin sögð mest í vegagerð, fasteignum ríkisins, fráveitum og á sviði orkuflutninga.

Í skýrslu GAMMA sem út kom í nóvember í fyrra er bent á margvísleg verkefni sem verið hafa í opinberri umræðu og gætu verið vænlegir kostir í hálfopinbera einkaframkvæmd. Heildarumfang verkefna sem nefnd voru í skýrslu GAMMA og talin eru henta í einkafjármögnun nema ríflega 900 milljörðum króna. Við kynningu á skýrslunni sagði Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA og forstjóri GAMMA í Lundúnum, að á fundum með innviðafjárfestum beggja vegna Atlantshafsins hafi fyrirtækið fundið fyrir miklum áhuga á innviðaverkefnum hér á landi. 

„Nú er tækifærði til að fá langtímafjárfesta að verkefnum, þar með talið erlenda aðila sem eru mjög áhugasamir og gera ekki háa ávöxtunarkröfu á sama tíma og vextir í heiminum eru í sögulegu lágmarki,“ sagði Gísli.

Horfa þarf til lengri tíma

Download--1-

Fjárfestingu í innviðum ber einnig á góma í viðtali Viðskiptablaðsins í dag við Valdimar Ármann, forstjóra GAMMA. Líkt og fram kemur í skýrslu SI segir hann ljóst að þegar hægi á hagvexti hér á landi sé kjörið að hlúa að innviðum hagkerfisins og þá sérstaklega þeim sem snerti ferðaþjónustuna. 

„Það þarf að huga að rekstrarfyrirkomulagi Leifsstöðvar og hugleiða að draga ríkið úr þeim áhætturekstri. Það þarf að tvöfalda vegakerfið, brýr og jarðgöng, en sérstaklega þarf að tvöfalda vegakerfið á Suðurlandinu og út úr Reykjavík þar sem megnið af ferðamönnunum er. Þetta gæti ríkið gert í samstarfi við einkaaðila,“ segir Valdimar í viðtalinu. Uppbygging innviða sé langt ferli þar sem hugsa þurfi langt fram í tímann og hefja þurfi markvissan undirbúning strax.

GAMMA hefur töluvert fjallað um innviðauppbyggingu síðustu ár og fagnar því að fleiri beinu sjónum í þá átt og gerir sér grein fyrir mikilvægi þeirrar uppbyggingar. Í inngangserindi sínu í Hörpu í morgun furðaði Guðrún Hafsteinsdóttir sig á því hversu erfitt Íslendingar ættu með að ná samstöðu um mál sem alla landsmenn vörðuðu. 

„Hversu lítil erum við að geta ekki einu sinni haldið við mannvirkjum sem forfeður okkar byggðu upp í bláfátæku landi,“ sagði hún og áréttaði að nú væri tíminn til úrbóta þegar drægi úr hagvexti og slaknaði á spennu í hagkerfinu.

Senda grein