Fréttir



Þrír sjóðir GAMMA tilnefndir til Evrópskra verðlauna

28.3.2018 Starfsemi

Þrír sjóðir í rekstri GAMMA hafa verið tilnefndir til árlegra sjóðastýringarverðlauna fagtímaritsins HFM Week.

Skrifstofa_GAMMA_london

GAMMA Capital Management hf. hefur verið tilnefnt til evrópsku sjóðastýringarverðlaunanna HFM European Performance Awards 2018 í þremur flokkum, en elsti sjóður félagsins, fagfjárfestasjóðurinn GAMMA: Icelandic Fixed Income Fund (GAMMA: IFIF) er á meðal tilnefndra sjóða. Tilkynnt var um tilnefningar til verðlaunanna fyrr í dag.

Um er að ræða ein virtustu verðlaun sem veitt eru evrópskum fagfjárfestasjóðum. Mörg fremstu sjóðastýringafélög heims etja kappi um viðurkenninguna árlega. Dómnefnd skipuð leiðandi fjárfestum og fagfólki á sviði eignastýringar velur sigurvegarana, en verðlaunin eru veitt sjóðum sem skilað hafa framúrskarandi áhættuleiðréttri ávöxtun til fjárfesta eða skarað fram úr að öðru leyti.

„Við hjá GAMMA erum afar stolt af því að tilheyra þeim framúrskarandi hópi sjóðsstjóra sem tilnefndur er til verðlauna HFM Week, en ekki síður af þeim árangri sem við höfum náð fyrir hönd viðskiptavina okkar,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA.

Þetta er í annað skiptið sem GAMMA er tilnefnt til árlegra sjóðastýringarverðlauna HFM Week, en þess er skemmst að minnast að GAMMA vann í flokki sjóðastýringar á grundvelli efnahagsgreiningar (e. Macro under 500m USD) á síðustu verðlaunahátíð.

Þá er þetta í annað sinn sem GAMMA: IFIF er tilnefndur til evrópskra verðlauna, en hann var tilnefndur besti fagfjárfestasjóður Evrópu innan við 100 milljónir Bandaríkjadala að stærð síðastliðið haust af fagtímaritinu HFR.

GAMMA: IFIF er nú tilnefndur í flokki bestu skuldabréfasjóða álfunnar, en GAMMA hlaut einnig tilnefningu í flokki sjóðastýringar á grundvelli efnahagsgreiningar og í flokki nýliða sem fjárfesta á grundvelli efnahagsgreiningar.

„Sérstaða GAMMA hefur frá upphafi grundvallast á vandaðri efnahagsgreiningu, og því er sérlega ánægjulegt að sjóðir okkar séu taldir á meðal bestu fagfjárfestasjóða Evrópu á því sviði,“ segir Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða GAMMA og annar stofnenda félagsins.

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Lundúnum þann 26. apríl næstkomandi.

 

 

Senda grein