FréttirÞegar pýramídi verður kassi

29.8.2017 Skoðun

Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá GAMMA Capital Management skrifar í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um aldursamsetningu íslensku þjóðarinnar

Framundan er tími stórfelldra tækni- og samfélagsbreytinga. Einn mikilvægasti þátturinn í því eru breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Það er ástæða til að staldra við þessa þróun með hliðsjón af svokölluðu framfærsluhlutfalli. Hlutfallið segir til um samanlagðan fjölda eftirlaunaþega og yngra fólks, deilt með fjölda fólks á vinnualdri. Fjölgun fólks á vinnualdri hefur áhrif til lækkunar hlutfallsins og öfugt. Í stuttu máli mun fjölgun fólks á eftirlaunaaldri á næstu áratugum ásamt lækkandi fæðingartíðni gera það að verkum að hlutfallið mun hækka. 

Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir rúmlega tvöföldun á fjölda fólks 64 ára og eldri úr rúmlega 50.000 manns árið 2017 í 120.000 árið 2065. Hlutfallið náði sögulegu lágmarki árið 2009 í 48% en mun á tímabilinu 2017 til 2065 fara úr 51% í 72%. Með öðrum orðum, við erum að eldast. 

Dregur úr fæðingartíðni 

Ísland hefur notið þess síðustu áratugi að vera meðal yngstu þjóða í Evrópu. Til dæmis var Ísland með þriðju hæstu fæðingartíðni í Evrópu árið 1995 og árið 1970 voru tveir af hverjum þremur landsmönnum yngri en 34 ára. Á tímabilinu 1980 til 2010 var fjöldi barna á hverja konu að meðaltali 2,05 til 2,2. Frá árinu 2012 hefur heldur dregið úr barneignum og árið 2015 fæddust fleiri börn á hverja konu í Svíþjóð og Bretlandi en á Íslandi í fyrsta skipti síðan mælingar hófust. Spár gera ráð fyrir að árið 2060 verði 40% íslensku þjóðarinnar yngri en 34 ára miðað við 50% árið 2017. 

 

Solvi1

 

 

Áhrifin á hagvöxt? 

Af framangreindu má ætla að áhrif breyttrar aldurssamsetningar á hagvöxt séu fremur neikvæðar. Á Íslandi er atvinnuþátttaka með því mesta sem þekkist og því er ljóst að aldursdreifing hefur verið með hagstæðasta móti að teknu tilliti til hagvaxtar. Það má því leiða líkur að því að breytt aldurssamsetning ein og sér gæti valdið lækkun hagvaxtar um 0,25% á ári næstu fimmtíu árin. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar á næstu áratugum verður því ekki einn megindrifkraftur hagvaxtar eins og verið hefur. 

Óhjákvæmilega eru það einkum lífeyriskerfi, heilbrigðis- og öldrunarþjónusta sem bera munu auknar byrðar vegna fyrrgreindrar þróunar. Hérlendis gegna lífeyrissjóðir því hlutverki að færa til neyslu í tíma. Hins vegar er það hið opinbera sem mun þurfa að taka á sig auknar byrðar vegna heilbrigðis- og öldrunar- þjónustumála. Ætla má að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu muni rúmlega tvöfaldast, úr 7% af VLF í 15,2%, á tímabilinu 2015- 2050 miðað við 3% aukningu á heilbrigðisútgjöldum á ári. 

OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evr- ópu, hefur svipaða sögu að segja en ætla má að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu hjá aðildarlöndum OECD muni nema 14% af VLF að meðaltali árið 2060. Stofnunin spáir því að um miðja þessa öld muni kostnaðaraukningin ná ósjálfbæru stigi miðað við núverandi viðmið um ríkisfjármál. 

 

Solvi2

 

Lengri vinnuævi og fleiri innflytjendur 

Það er mikil áskorun að takast á við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Rannsóknir gefa til kynna að einstaklingur sem er eldri en 65 ára stofni til fjórfalt meiri heilbrigðis- útgjalda en einstaklingur sem er yngri en 65 ára. Áskorunin felst meðal annars í því að tryggja fjármögnun og framboð á heilbrigðis- þjónustu og stuðla að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum til framtíðar. Hvað viðvíkur fjármögnun og framboði á heilbrigðisþjónustu þá er mikilvægt að tryggja fjölbreytni. Fleiri geta annast sjálfa þjónustuna, hið opinbera, einkafyrirtæki, einstaklingar, sjálfseignarstofnanir, tryggingafélög, og fleiri. 

Sá sem aflar fjárins þarf ekki endilega að hafa yfirumsjón með þjónustunni. Tvær hagvaxtarhvetjandi aðgerðir sem vert er að nefna eru hækkun eftirlaunaaldurs annars vegar og minni hömlur á fólksflutninga til Íslands hins vegar. Varla er um það deilt að lengri meðalævi hlýtur að kalla á endurskoðun eftirlaunaaldurs og margt bendir til þess að Ísland myndi til langs tíma njóta góðs af auknum fjölda innflytjenda til landsins. Það sýnir reynsla annarra þjóða.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.

 

Senda grein