FréttirSvipmynd Markaðarins: Forstjóri GAMMA hlustar á Sinfó eða X-ið

11.3.2017 Starfsemi

Valdimar Ármann nýr forstjóri GAMMA Capital Management sat fyrir svörum í Svipmynd Markaðarins á dögunum

Valdimar Ármann tók við sem forstjóri GAMMA Capital Management á Íslandi um síðustu mánaðamót. Valdimar gegndi áður starfi framkvæmdastjóra sjóða hjá GAMMA og er meðal fyrstu starfsmanna félagsins. Valdimar situr hér fyrir svörum í Svipmynd Markaðarins

Hvað hefur komið þér mest á óvart það sem af er ári? 
Gríðarlega jákvæð og batnandi staða íslensks hagkerfis kemur mér enn mest á óvart – við erum að ganga í gegnum mikið umbreytingarskeið og í því felast miklar áskoranir. Í rauninni hefur staðan líklega aldrei verið betri og nú er komið að því að spila sem best úr þeim spilum sem hafa verið lögð á borðið.

Hvaða app notarðu mest? 
Ég nota nokkur líklega álíka mikið, það er til að fylgjast með íþróttaiðkun eins og Strava og Activity, Spotify til að hlusta á tónlist og síðan, tengt vinnu og samskiptum tengdum henni er töluverð notkun á LinkedIn, Kodiak Mobile og Skype Business.

Hvað gerir þú í frístundum þínum? 
Frítíma mínum eyði ég mest með fjölskyldunni og þar sem yngstu krílin eru farin að eldast aðeins þá sjáum við fram á frekari ferðalög saman til að skoða nýjar og spennandi borgir og staði. Það er fátt betra en að komast á skíði eða í stangveiði og alltaf er gott að grípa í góða bók.

Hvernig heldur þú þér í formi? 
Hef notað langhlaup til að halda mér í formi undanfarin ár með því að setja ákveðin hlaup sem markmið, til dæmis Reykjavíkurmaraþon eða München-maraþonið, sem halda aga á æfingaáætlunum. Útihlaup eru frábær leið til að hreinsa hugann, fá sér ferskt loft og endurnæra líkama og sál. Samhliða hlaupum reyni ég jafnframt að taka reglulega styrktaræfingar.

Hvernig tónlist hlustar þú á? 
Er nánast alæta á tónlist en það fer eftir því hvað er verið að gera hverju sinni. Ég nýt þess að hlusta á klassíska músík Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða rólegan og léttan djass Noruh Jones eða Katie Melua á kvöldin. Á hlaupunum er það yfirleitt tónlist frá níunda áratugnum sem ræður ríkjum en á leiðinni í vinnuna er sjaldan eitthvað betra en rokkið á X-inu.

Ertu í þínu draumastarfi? Ég hef starfað á fjármálamarkaði frá 1998, bæði hérlendis og erlendis, og finnst ég jafnt og þétt alltaf vera að koma mér betur og betur fyrir í starfinu. Það er af nógu að taka, nýjar áskoranir og spennandi verkefni sem gera þetta sannarlega að draumastarfi.

*Fréttin birtist á visir.is þann 11. mars 2017: www.visir.is/svipmynd-markadarins--forstjori-gamma-hlustar-a-sinfo-eda-x-id/

Senda grein