Fréttir  • Ellert

Stofnun samtaka fjártæknifyrirtækja

24.1.2018 Starfsemi

Framtíðin lánasjóður er stofnmeðlimur Samtaka fjártæknifyrirtækja sem stofnuð voru síðastliðinn föstudag. Framtíðin er í eigu sjóðs í stýringu hjá GAMMA. 

Stofnfundur Samtaka fjártæknifyrirtækja var haldinn síðastliðinn föstudag en tilgangur samtakanna er að gæta hagsmuna þeirra fjártæknifyrirtækja á Íslandi sem vinna að því breyta og bæta núverandi umhverfi fjármálakerfisins með nýsköpun og tækniþróun. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að taka þátt í umræðu og vinnu í tengslum við breytingar á fjármálakerfinu og regluverki þess vegna tækniþróunar í almennri fjármálastarfsemi.

Stakkaskipti verða í samkeppnisumhverfi fjármálamarkaða á næstu árum og ræður þar mestu ný greiðsluþjónustutilskipun Evrópusambandsins (PSD 2). Þá eru tækninýjungar að ryðja burt aðgangshindrunum sem til þessa hafa staðið í vegi fyrir innkomu nýrra fyrirtækja á fjármálamarkað. Neytendur eru þegar farnir að sjá aukna stafræna fjármálaþjónustu frá nýjum fyrirtækjum á markaði. Framboð fjármálaþjónustu utan bankanna á eftir að aukast til muna í kjölfar tilskipunar ESB og kostnaður neytenda og fyrirtækja mun lækka. Almennt er talið að evrópskir viðskiptabankar geti orðið af allt að fjórðungi tekna sinna á næstu árum vegna þessa en á sama tíma eru fjölmörg tækifæri fyrir banka að opnast og þróast – ekki síst með samstarfi við leiðandi fjártæknifyrirtæki um nýjar lausnir. 

Screen-Shot-2018-01-23-at-12.53.20

Meðal stofnmeðlima samtakanna er Framtíðin lánasjóður sem er í eigu sjóðs í stýringu hjá GAMMA. Þá tekur Ellert Arnarson, stjórnarmaður í Framtíðinni, sæti í stjórn samtakanna ásamt Evu Björk Guðmundsdóttur og Sverri Hreiðarssyni. Aðrir stofnmeðlimir samtakanna eru Aur, Memento, Meniga, Kóði og Reiknistofa bankanna. Aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki þar sem meginstarfsemi snýr að nýsköpun, nýtingu og þróun á tæknilausnum á sviði fjármálaþjónustu og eru öll íslensk fjártæknifyrirtæki hvött til að sækja um aðild að samtökunum.

Senda grein