Fréttir



Sjóðir GAMMA kaupa 15% hlut í Arctic Adventures hf

20.12.2017 Starfsemi

„Við teljum að Arctic Adventures hafi nýtt vel þau tækifæri sem eru til samþættingar í greininni og að fram undan séu jafnframt mjög spennandi tímar hjá þessu öfluga félagi,“ segir Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA

Snorkling-in-Silfra-Into-the-blueSjóðir í stýringu hjá GAMMA Capital Management hafa keypt 15% hlut í Arctic Adventures hf., stærsta fyrirtæki landsins á sviði afþreyingar fyrir ferðamenn. Arctic sameinaðist nýlega afþreyingarfyrirtækinu Extreme Iceland og er velta sameinaðs fyrirtækis um 5,6 milljarðar króna og starfsmenn um 250.

Arctic býður upp á nánast allar tegundir afþreyingar sem í boði eru á Íslandi; jöklagöngur, íshellaferðir, gönguferðir, snjósleðaferðir, hvalaskoðun, flúðasiglingar og kajakaferðir. Nýlega keypti Arctic Hótel Hof í Öræfasveit og Hótel Geirland við Kirkjubæjarklaustur til að styðja við vöxt fyrirtækisins.

Eftir kaupin eiga þeir Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson saman tæplega 28% hlut í félaginu, fyrrum eigendur Extreme Iceland eiga samtals 27%, sjóðir á vegum GAMMA 15% og Jón Þór Gunnarsson og Styrmir Þór Bragason tæplega 14% hvor.

„Eigendur Arctic Adventures fagna því að fá sjóði GAMMA inn í eigendahópinn. Við lítum á GAMMA sem framsýnan fjárfesti sem passi vel inn í stefnu Arctic. Arctic hefur vaxið mikið síðustu ár og teljum við ennþá vera mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Íslandi. Fyrirtækið er í góðri stöðu, með góða afkomu og lága skuldsetningu sem gerir okkur kleift að halda áfram að vaxa og styrkja stöðu okkar á þessum spennandi markaði. Við stefnum á skráningu á markað á árinu 2019 og teljum við aðkomu GAMMA styrkja okkur í þeirri vegferð,“ segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures.

„Við hjá GAMMA höfum á undanförnum misserum fylgst náið með örum vexti Arctic Adventures, en samhliða höfum við unnið að ítarlegri greiningu á ferðaþjónustu á Íslandi. Við teljum að Arctic Adventures hafi nýtt vel þau tækifæri sem eru til samþættingar í greininni og að fram undan séu jafnframt mjög spennandi tímar hjá þessu öfluga félagi. Það er því mikið ánægjuefni að  tilkynna að sjóðir GAMMA ætli sér að taka þátt í þeirri vegferð með fjárfestingu í félaginu og góðu samstarfi við öflugt stjórnendateymi félagsins,“ segir Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA

Sjóðir í rekstri GAMMA Capital Management fjárfesta fyrir hönd sjóðsfélaga samkvæmt skilgreindri fjárfestingarstefnu. Eignir í stýringu hjá GAMMA eru um 140 milljarðar króna og rekur fyrirtækið tvo verðbréfasjóði, sex fjárfestingarsjóði og 23 fagfjárfestasjóði.

Senda grein