FréttirSamið um kaup Kviku á GAMMA

20.11.2018

Undirritað hefur verið samkomulag um kaup Kviku banka hf. á öllu hlutafé GAMMA Capital Management hf.

Undirritað hefur verið samkomulag um kaup Kviku banka hf á öllu hlutafé GAMMA Capital Management. Viðskiptin eru háð samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku, en eftir kaupin verður GAMMA dótturfélag Kviku. Í kauphallartilkynningu frá Kviku banka kemur fram að markmið Kviku með kaupunum sé að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar. Samanlagðar eignir í stýringu hjá Kviku og rekstrarfélögum í eigu bankans verða um 400 milljarðar króna gangi kaupin eftir.

„Þetta eru jákvæð tímamót fyrir félagið og mjög ánægjulegt að geta loks tilkynnt að samningar hafi náðst. Við lítum bjartsýnum augum til framtíðar,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA. „Saman höfum við byggt upp öflugt og frábært fyrirtæki sem við getum verið stolt af og býður nýtt eignarhald upp á ný og spennandi tækifæri fyrir okkur.“

Í tilkynningu til Kauphallar er haft eftir Valdimari að salan styrki GAMMA sem framvegis bjóði viðskiptavinum sínum enn fjölbreyttari fjármálaþjónustu og aukið vöruframboð. „Árangur GAMMA undanfarinn áratug er mikilsverður fyrir viðskiptavini, starfsmenn sem og hluthafa. Félagið er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og rekur fjölbreytt sjóðaúrval sem er um 140 milljarðar króna að stærð. Við hjá GAMMA lítum stolt um öxl á þessum tímamótum og björtum augum til framtíðar,“ segir Valdimar.

GAMMA er eitt öflugasta sjóðastýringarfélag landsins og fagnaði 10 ára afmæli á árinu. Félagið býður upp á fjölbreytt úrval sjóða fyrir fjárfesta og almenning. Sjóðir GAMMA eru meðal stærstu fyrirtækjaskuldabréfasjóða á Íslandi og stærstu fjárfestar á íslenskum fasteignamarkaði. Sjóðirnir fjárfesta einnig í hlutabréfum, ríkisskuldabréfum, innlánum og fleiru, auk þess sem félagið hóf nýlega rekstur sjóða um erlendar fjárfestingar.

Senda grein