Fréttir  • Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða
    Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA

Pólítísk óvissa og innflæðishöft hækka verðbólguálag

27.9.2017 Skoðun

Þrátt fyrir pólitískan óróleika er umtalsverð hækkun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði undanfarið aðeins að hluta til komin vegna vaxandi verðbólguvæntinga markaðarins. 

Óróleikinn hafi vissulega einhver áhrif á verðbólguvæntingar, en þau séu minni en margir vilji láta vera, enda séu fáar vísbendingar um að verðbólga fari vaxandi á næstu misserum og erfitt sé að tengja stjórnarslitin beint við hærri verðbólgu. 

„Það sem skýrir hærra verðbólguálag er fyrst og fremst ákveðin hræðsla og óvissuálag sem komið er til að miklu leyti vegna langvarandi innflæðishafta Seðlabankans sem hafa ýtt vaxtastiginu upp undanfarin misseri, einkum á óverðtryggða enda vaxtarófsins.

Innflæðishöftin hindra að mestu leyti langtíma skuldabréfafjárfestingar erlendra aðila á Íslandi og hafa þannig þurrkað upp skuldabréfamarkaðinn og gert hann mjög veikburða á sama tíma og þau ýta undir væntingar um veikari krónu horft fram á veginn en ella. Á sama tíma og fjármagn innlendra aðila leitar út úr hagkerfinu eftir langvarandi gjaldeyrishöft eiga erlendir skuldabréfafjárfestar, sem hafa mikinn áhuga á að fjárfesta í löngum innlendum vöxtum, ekki greiða leið inn á markaðinn. Þeir hafa verið nettó seljendur á skuldabréfamarkaði í ár og það sama má segja um lífeyrissjóðina sem hafa dregið sig í auknum mæli út af markaðinum.

Löng og óverðtryggð bréf eru eitt af því fyrsta sem lífeyrissjóðirnir selja þegar þeir fjárfesta erlendis eða þegar þá vantar fé til að fjármagna sjóðsfélagalán sín. Allir þessir kraftar eru til þess fallnir að þrýsta upp verðbólguálaginu, einkum til lengri tíma, og er birtingarmynd þess aukið óvissuálag og hærra vaxtastig. Kosningaskjálftinn hefur síðan leyst úr læðingi þessa hræðslutilfinningu á meðal fjárfesta á þeim tíma sem markaðurinn er mjög veikburða vegna skorts á fjármagni.“

- Fréttin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins þann 27. september 2017

Senda grein