Fréttir  • Gamma G37

Nýtt skipurit GAMMA tekur gildi

9.2.2018 Starfsemi

Nýtt skipurit GAMMA Capital Management hefur verið innleitt og tekur það mið af örum vexti félagsins undanfarin ár og auknum umsvifum nýrra tekjusviða. 

Nýtt skipurit GAMMA Capital Management hf. hefur verið innleitt og tekur það mið af örum vexti félagsins undanfarin ár og auknum umsvifum nýrra tekjusviða. Skýrari aðgreining milli deilda og verkefna samhliða auknu samstarfi þvert á starfsemina mun tryggja að GAMMA getur náð enn betri árangri fyrir viðskiptavini og boðið fjölbreyttara vöruframboð til að mæta sérhæfðum þörfum hvers og eins.

GAMMA Ráðgjöf verður dótturfélag GAMMA en fram til þessa hefur félagið verið systurfélag rekstrarfélagsins. Forstjóri GAMMA er sem áður Valdimar Ármann, nýr framkvæmdastjóri Ráðgjafar verður Þórður Ágúst Hlynsson og Gísli Hauksson stýrir erlendri starfsemi félagsins. Aðrir framkvæmdastjórar eru sem áður Agnar Tómas Möller framkvæmdastjóri sjóða, Ingvi Hrafn Óskarsson framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga, Guðmundur Björnsson framkvæmdastjóri reksturs og áhættustýringar og Jónmundur Guðmarsson framkvæmdastjóri sölu og viðskiptaþróunar. 

Vöxtur GAMMA hefur verið hraður á þeim tíu árum sem liðin eru frá því að félagið tók til starfa en í lok árs 2017 var félagið með um 137 milljarða króna í stýringu. Rekstrarhagnaður síðastliðins árs var sá næst besti í 10 ára sögu félagsins. Á þessu ári verður unnið að því að stækka sjóði sem eru í stýringu GAMMA, fjölga tækifærum í fjárfestingum erlendis og auka vöruúrval fyrir viðskiptavini félagins. 

Hér má sjá nýtt skipurit GAMMA. 

Skipurit-GAMMA---feb.-2018

Samhliða breytingum á skipuriti hefur ný stjórn verið kjörin og verður Hlíf Sturludóttir stjórnarformaður, ásamt nýjum stjórnarmönnum Sveini Biering og Gunnari Sturlusyni. Varamenn í stjórn eru Sigurgeir Örn Jónsson og Ásdís Kristjánsdóttir. 

Þar sem erlend starfsemi er nú færð undir dótturfélag GAMMA eins og ráðgjöfin lætur Gísli Hauksson af stjórnarformennsku, enda geta starfsmenn fjármálafyrirtækja ekki setið í stjórnum þeirra. Hann mun einbeita sér að sífellt vaxandi erlendum verkefnum og uppbyggingu á erlendri starfsemi í London, þar sem GAMMA opnaði skrifstofu árið 2015, og New York. Er ekki síst horft til vaxandi umsvifa erlendis í fasteignaverkefnum, innviðafjárfestingum og aðkomu að lánasjóðum í samstarfi við þarlend fjármálafyrirtæki. 

Allar nánari upplýsingar veitir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, valdimar@gamma.is eða 519-3300.

Senda grein