Fréttir  • London Office

Fjárfestingarsjóðurinn GAMMA Global Invest

12.10.2016 Starfsemi

Í gegnum GAMMA Global Invest geta almennir fjárfestar og stofnanafjárfestar dreift eignasafni sínu og fjárfest erlendis

GAMMA Global Invest er nýr fjárfestingarsjóður GAMMA Capital Management sem hefur heimild til fjárfestinga erlendis. Sjóðurinn er opinn almennum fjárfestum og stofnanafjárfestum sem vilja auka vægi erlendra eigna í eignasöfnum sínum, draga úr áhættu og fá jafna ávöxtun. Sjóðurinn fjárfestir í dreifðum eignasöfnum og sjóðum þar sem undirliggjandi eignir geta meðal annars verið hlutabréf, skuldabréf, fasteignir og sérhæfðar fjárfestingar auk þess að hafa heimild til beinna fjárfestinga.

Aðgangur að víðtækri þekkingu og fjölbreyttu vöruúrvali erlendra samstarfsaðila GAMMA, á borð við sjóðastýringarfyrirtækið PIMCO og alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið GAM, hefur nýst vel í undirbúningi að stofnun GAMMA Global Invest og mun skila sjóðsfélögum bættri eignadreifingu.

Sjóðurinn hefur starfsemi í kjölfar samþykktar Alþingis á nýjum lögum um gjaldeyrisviðskipti. Í lögunum eru heimildir Íslendinga til að dreifa áhættu út fyrir íslenska hagkerfið rýmkaðar verulega. Með samþykkt laganna eru tekin langþráð skref í rýmkun gjaldeyrishafta sem ber að fagna, en undirbúningur að stofnun GAMMA Global Invest hefur staðið yfir í tvö ár.

Síðustu misseri hefur GAMMA skoðað og undirbúið fjárfestingartækifæri erlendis fyrir viðskiptavini sína, einkum í Bretlandi, og hefur að auki kynnt erlendum viðskiptavinum og fjárfestum tækifæri til fjárfestinga á Íslandi.

GAMMA hóf starfsemi í London 2015, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja, eftir tilkynningu um fyrirhugað afnám hafta og rekur þar skrifstofu með sjálfstætt starfsleyfi. Í London hefur starfseminni verið fagnað og GAMMA afar vel tekið. Í byrjun ágúst síðastliðnum urðu svo tímamót þegar GAMMA fékk sjálfstætt starfsleyfi frá fjármálaeftirlitinu í Bretlandi.

Þegar tilkynnt var um opnun skrifstofunnar í London í júní 2015 í boðaði Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, að við afléttingu hafta yrðu jafnframt í boði sérhæfði sjóðir sem eingöngu myndu fjárfesta á erlendum mörkuðum.

GAMMA Global Invest eykur möguleika sparifjáreigenda til fjárfestinga erlendis. Að auki er í rekstri hjá GAMMA fjárfestingarsjóðurinn Total Return Fund, sem einnig hefur heimildir til fjárfestinga erlendis.

Markmið GAMMA er að veita viðskiptavinum á Íslandi alhliða þjónustu þegar kemur að fjárfestingum erlendis, allt frá stofnun vörslureikninga til beinna fjárfestinga í sjóðum hjá virtustu sjóðastýringarfyrirtækjum í heimi, auk þess að veita viðskiptavinum GAMMA erlendis þjónustu þegar kemur að fjárfestingum á Íslandi.

Senda grein