FréttirLandsframleiðsla á mann sú fimmta hæsta í heimi

10.10.2016 Skoðun

Í viðtali við Morgunblaðið um helgina bendir Gísli Hauksson forstjóri GAMMA Capital Management á að Íslands sé með fimmtu hæstu meðaltekjur á mann í heiminum sem sé gríðaleg umbreyting til batnaðar á aðeins nokkrum árum

Ísland vermir nú fimmta sætið á lista yfir þau ríki þar sem landsframleiðsla á íbúa er hæst, mælt í bandaríkjadölum. 

Þetta kemur fram í nýjum tölum sem fjármálafyrirtækið GAMMA hefur tekið saman úr opinberum gögnum. Er það gjörbreyting á stöðu landsins á fáum árum. Árið 2009 vermdi landið sæti númer 14 samkvæmt sömu tölum. Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, segir að staða Íslands sé ekki síst áhugaverð þegar litið er til þeirra ríkja sem verma sætin fyrir ofan það á listanum. Það eru Noregur, Katar, Sviss og Lúxemborg.

„Löndin þar eru ekki að öllu leyti samanburðarhæf. Þá er einnig hægt að nefna að í Lúxemborg og Katar vinna miklu fleiri en búa þar og það veldur því að þjóðarframleiðsla mæld á hvern íbúa verður mun hærri en ef aðeins væri litið til þess hóps sem í raun byggir landið.“

Gísli segir að á síðustu árum hafi orðið fordæmalaus viðsnúningur á hagkerfinu og að ekki sé viðlíka dæmi að finna meðal OECD-ríkjanna. 

„Kaupmáttur Íslendinga í bandaríkjadölum hefur ekki verið hærri síðan 2007 en munurinn á stöðunni nú og þá er sá að skuldir heimilanna og ríkisins eru mun lægri.“

Gengi krónunnar rangt skráð 

Ein birtingarmynd hinnar breyttu stöðu er stöðug styrking íslensku krónunnar. Gísli segir að á síðustu árum hafi gengið í raun verið rangt skráð vegna viðamikilla inngripa Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði. 

„Seðlabankinn hefur verið að safna í gjaldeyrisvaraforða sinn og er kominn með gríðarlegan forða sem nemur um 30% af vergri landsframleiðslu. Hann hefur að undanförnu verið að draga úr kaupum á gjaldeyri og það leiðir til þess að krónan hefur styrkst meira. Það er fordæmalaust miðað við fyrri hagsveiflur að krónan sé að styrkjast á þessum tíma og að viðskiptajöfnuðurinn sé jákvæður. Það er margt sem bendir til þess að gengi krónunnar hafi verið rangt skráð á síðustu árum og sé nú að taka út ákveðna leiðréttingu í kjölfar þess að Seðlabankinn hefur verið að byggja upp forðann með svo afgerandi hætti.“

Hann segir að gríðarleg umsvif ferðaþjónustunnar ráði langmestu um breytta stöðu krónunnar. Hins vegar geti Seðlabankinn með ákveðnum aðgerðum unnið gegn því að hún styrkist um of. „Hér eru mjög háir vextir í alþjóðlegu samhengi. Hagvöxtur hér er sem stendur úr takti við stöðu mála í Evrópu og Bandaríkjunum. Flestir gera ráð fyrir 4 til 5 prósenta hagvexti á næstu árum og það er uppskrift að sterkara gengi. Mitt mat er það að Seðlabankinn geti hins vegar gert sitt með því að lækka vexti. Það gæti slegið á frekari styrkingu.“ 

Geta lækkað skuldir enn frekar 

Gísli telur allar aðstæður með þeim hætti að hægt sé að viðhalda þróttmiklu efnahagslífi hér á landi en að fara verði varlega svo góðum árangri verði ekki glutrað niður. „Það má ekki stórauka ríkisútgjöld og það verður að spara fjármuni til mögru áranna. Ríkissjóður er hins vegar á réttri braut með fjármálaáætlun sem felur í sér mikla skuldalækkun. Ef rétt er haldið á málum tel ég að hægt sé að gera ríkissjóð skuldlausan á næstu fimm árum. Hið opinbera segist ætla að taka skuldahlutfallið niður fyrir 30% af vergri landsframleiðslu á þessum tíma en ég tel að það sé hægt að gera mun betur.“

 

- Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 8. október 2016

 

Senda grein