FréttirGAMMA Reykjavíkurskákmótið fer fram í apríl

29.8.2016 Samfélagsmál

GAMMA Reykjavíkurskákmótið fer fram í 32. sinn næsta vor í tónleika- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík. 


Mótið hefst 19. apríl og stendur til 27. sama mánaðar. Þetta er þriðja árið í röð sem GAMMA Capital Management er aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins með það að markmiði að tryggja glæsilega umgjörð mótsins, sem er kjölfestan í íslenskri skákflóru.  Fjölmargir íslenskir skákmenn fá tækifæri til að tefla við sterka erlenda skákmenn sem skilar sér í öflugra skáklífi hér á landi.

Mótið 2017 verður haldið mánuði síðar en fyrri skákmót sem farið hafa fram í mars. Nýjar dagsetningar í apríl miða að því að gefa þátttakendum enn betri upplifun af Íslandi, með mildara veðri og vorblóma.

GAMMA Reykjavíkurskákmótið 2016 var þriðja besta opna skákmót í heiminum í ár að mati ACP, samtaka atvinnuskákmanna. Hærri einkunn fengu bara skákmótin virtu á Gíbraltar og í Dúbaí.

Svo gott orð fer af mótinu að strax í lok síðasta móts lýstu fjölmargir stórmeistarar og aðrir sterkir skákmenn því yfir að þeir ætluðu að taka þátt að ári liðnu. Þar á meðal áhugaverðustu skákmenn heims um þessar mundir. Í fyrra tóku þátt 235 skákmenn frá 31 landi, þar á meðal 24 stórmeistarar. Af þeim voru svo 13 með 2.600 skákstig (ELO-stig) eða meira.

GAMMA Reykjavíkurskákmótið viðheldur þeirri stefnu að bjóða hingað ungum og efnilegum skákmönnum og -konum sem náð hafa langt í íþróttinni. Það hefur líka verið stefna GAMMA að efla áhuga yngri kynslóða á skáklistinni, meðal annars með því að halda svokallað „Barna Blitz“ hraðskákmót fyrir unga skákmenn í tengslum við Reykjavíkurskákmótið.

Senda grein