FréttirAlmenn ánægja með fyrsta skref í afnámi hafta

23.8.2016 Skoðun

Valdimar Ármann framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA ræddi um fyrstu skref afnáms gjaldeyrishafta við Morgunblaðið.

Tímamörk á undanþágum óhentug

Valdimar Ármann framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA segir í viðtali við Morgunblaðið að tímapunktur afnáms sé góður og ánægjulegt að þetta skref sé stigið, en það stingi í augun að heimildir Seðlabankans til upplýsingaöflunar séu auknar ásamt því að ekkert sé fjallað um það hvernig eigi að opna fyrir erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða og verðbréfasjóða.

„Í heild lýsi ég ánægju með að þetta skref sé stigið nú. Þetta er góður tímapunktur til að hefja afléttingu hafta því allar aðstæður í hagkerfinu með tilliti til gjaldeyrisinnstreymis og gjaldeyrisforða eru ákjósanlegar til þess.” Segir Valdimar Ármann, hagfræðingur og fjármálaverkfræðingur.

„Hins vegar má benda á að með frumvarpinu eru Seðlabankanum fengnar frekari heimildir til upplýsingaöflunar vegna gjaldeyrisviðskipta og virðist sem svo að samhliða afléttingu hafta eigi að herða allt eftirlit.”

Auknar eftirlitsheimildir

Valdimar vísar til frumvarps um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og segir hann meðal annars að skylt sé, að viðlögum dagsektum, að veita Seðlabankanum allar upplýsingar og gögn er varða gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa, sem hann óskar eftir til að sinna nauðsynlegu eftirliti. Jafnframt kemur fram í frumvarpinu að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita upplýsingar og veita bankanum aðgang að gögnum.

Um 20 manns starfa að gjaldeyriseftirliti hjá Seðlabankanum samkvæmt upplýsingum hans. Þá kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu sem vísað er til að á árinu 2015 hafi beinn kostnaður við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans verið 265 milljónir króna. Verkefnis eftirlitsins eru reyndar fleiri og í ársskýrslu Seðlabankans kemur fram að eftirlitið taki þátt í endurskoðun reglna, birtingu leiðbeininga og túlkun þeirra. Þá hafi eftirlitið einnig heimild til að hefja rannsókn vegna ætlaðra brota á lögunum um gjaldeyrismál, að því fram kemur í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu.

Óljóst með framtíð heimilda

Valdirmar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, telur að tímabundnar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða og annara vörsluaðila séreignalífeyrissparnaðar til fjárfestinga í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri, sem renna út 30. september, setji lífeyrissjóðum þröngar skorður. 
 

„Það blasir við að það hlýtur að vera slæmt fyrir hagsmuni lífeyrissjóðanna og langtímafjárfesta að geta ekki valið tíma til fjárfestinga sem best hentar þeim. Þeir þurfa að geta horft fram í tímann og stillt af hvað þeir eiga að fjárfesta á hverjum tíma. Þetta fyrirkomulag með tímabundnar heimildir rekur þá til að fullnýta heimildina, og það á öðrum tímapunkti en þeir hefðu ella gert. Ef þeir hefðu vitað að þeir fengju fulla heimild á næsta ári þá hefðu þeir tíma til að undirbúa og ákveða fjárfestingar af meiri yfirvegun” segir Valdimar í umfjöllun í Morgunblaðinu.

Seðlabankinn hefur veitt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágu til fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri fyrir samtals 80 milljarða króna. Gildandi heimild nemur 40 milljörðum króna og rennur hún út 30. september.

- Fréttin birtist í Morgunblaðinu 20. ágúst 2016.

Senda grein