FréttirGAMMA í London fær starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu

8.8.2016 Starfsemi

Breska fjármálaeftirlitið (FCA), veitti GAMMA Capital Management Limited sjálfstætt starfsleyfi til að veita fjármálaþjónustu í Bretlandi síðastliðinn föstudag. 

Breska fjármálaeftirlitið, Financial Conduct Authority (FCA), veitti síðastliðinn föstudag GAMMA Capital Management Limited sjálfstætt starfsleyfi til að veita fjármálaþjónustu í Bretlandi. Áður hafði GAMMA Capital Management hf. sinnt starfsemi í London í rúmt ár á grundvelli íslensks starfsleyfis. Leyfið frá breska fjármálaeftirlitinu heimilar GAMMA í London að bjóða uppá víðtækari fjármálaþjónustu, sem felur meðal annars í sér fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingarráðgjöf.  

„Í fyrra varð GAMMA fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til þess að hefja starfsemi í London eftir tilkynningu um fyrirhugað afnám hafta. Markmið eigenda og stjórnenda GAMMA hefur verið að útvíkka og styrkja grundvöll starfseminnar með því að fá sjálfstætt starfsleyfi í Bretlandi og hefur þeim stóra áfanga nú verið náð. Með þessu skrefi verður GAMMA í enn betri stöðu en áður til að veita viðskiptavinum sínum öfluga þjónustu á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars þegar kemur að erlendum verkefnum, fjárfestingum, fjármögnun og greiningavinnu,“ segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA.

„GAMMA hefur á að skipa öflugu teymi innlendra sem erlendra starfsmanna með áralanga reynslu af alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Við höfum markvisst búið okkur undir afnám gjaldeyrishafta og munum þegar við þau tímamót geta boðið viðskiptavinum okkar upp á fjárfestingar hjá alþjóðlegum sjóðastýringarfyrirtækjum og þátttöku í erlendum fyrirtækjaverkefnum. Auk þess hefur fjárfestingarsjóðurinn Total Return Fund, sem er í rekstri hjá GAMMA, heimildir til að fjárfesta erlendis og verða þær nýttar þegar höftum verður aflétt,“ segir Gísli.

Með nýja leyfinu nær starfsemi GAMMA nú til rekstrar og stýringar á verðbréfasjóðum, fjárfestingarsjóðum og fagfjárfestasjóðum, eignastýringar, ráðgjafar í tengslum við fjárfestingar, svo sem í verðbréfum, sjóðum og fyrirtækjaverkefnum, fyrirtækjaráðgjafar og útgáfu á greiningum. 

GAMMA Capital Management Limited er eigu sömu hluthafa og GAMMA Capital Management hf. á Íslandi. Skrifstofan í London er staðsett við Upper Brook Street í Mayfair-hverfinu og starfa þar fjórir starfsmenn. GAMMA Capital Management hf. er fjármálafyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu og rúmlega þrjátíu starfsmenn. GAMMA er með yfir 90 milljarða króna í stýringu fyrir fagfjárfesta, fyrirtæki og almenning í yfir fimmtán sjóðum.

Senda grein