Fréttir



GAMMA gerist bakhjarl Listahátíðar í Reykjavík

2.6.2016 Samfélagsmál

GAMMA Capital Management og Listahátíð í Reykjavík hafa skrifað undir samstarfssamning þar sem GAMMA gerist bakhjarl hátíðarinnar til ársins 2020.

GAMMA Capital Management og Listahátíð í Reykjavík hafa skrifað undir samstarfssamning þar sem GAMMA gerist bakhjarl hátíðarinnar til ársins 2020. 

Listahátíð í Reykjavík hefur verið leiðandi afl í íslensku menningarlífi frá stofnun árið 1970. Margir af þekktustu listamönnum heims hafa komið fram á hátíðinni en hún hefur jafnframt haft frumkvæði að umfangsmikilli nýsköpun á sviði lista á Íslandi. Þrítugasta hátíðin stendur nú yfir en að henni lokinni verður Listahátíð að tvíæringi á ný og haldin næst árið 2018. Með breytingunni verður vægi Listahátíðar og hlutverk í íslensku listalífi eflt til muna. 

„GAMMA hefur í gegnum árin stutt ötullega við listir og menningu og við teljum mikilvægt að styðja við þessa góðu hátíð. Það er mikill heiður fyrir okkur að gerast bakhjarl Listahátíðar Reykjavíkur,” segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management.

„Íslendingar hafa ávallt haft mikinn áhuga á list og menningu og Listahátíð í Reykjavík gegnir lykilhlutverki í að mæta þeim áhuga. Stuðningur GAMMA við Listahátíð er okkur mikilvægur og hvetur okkur til áframhaldandi vaxtar og góðra verka,” segir Hanna Styrmisdóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Sem hluti af samstarfinu verður sýning Gabríelu Friðriksdóttur „Innra líf heysátu” í Gallery GAMMA í Garðastræti 37 frá 21. maí - 27. ágúst. Á sýningunni birtir Gabríela okkur innra líf heysátunnar í teikningum og lifandi teiknimynd. Verurnar úr heysátunni líkamnast síðan í líkneskjum sem Gabríela mótar í lífræn efni og jarðefni.  

Á Listahátíð árið 2015 var einnig sýning á verkum Dorothy Iannone "The Next Great Moment in History Is Ours" í Gallery GAMMA, en hún á sérstakan stað í listasögu síðari hluta 20. aldar þar sem kynfrelsi kvenna og félagsleg frelsun einstaklingsins hafa frá upphafi ferils hennar verið hennar helsta viðfangsefni. 

Hanna Styrmisdóttir, stjórnandi Listahátíðar, og Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, á opnun sýningar Gabríelu Friðriksdóttur “Innra líf heysátu" í Gallery GAMMA.

 

Senda grein