Fréttir



12-15 milljarða tap þjóðarbúsins

29.3.2016 Skoðun

Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA segir nauðsynlegt að koma Sundabraut af stað og telur hana henta vel til einkaframvkæmdar. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum er um 250 milljarðar króna.

Gisli-Hauksson-12„Sundabraut er líklega eitt skýrasta dæmið um vegaframkvæmd sem hentar mjög vel í einkafjármögnun og -framkvæmd og má búast við að hægt væri að hefjast handa nú þegar við það verkefni,“ segir Gísli Hauksson, forstjóri fjármálafyrirtækisins GAMMA, sem ásamt LEX lögmannsstofu hefur sýnt áhuga á að hrinda af stað undirbúningi vegna lagningar Sundabrautar.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu sl. laugardag hafa þessir aðilar sent erindi til stjórnar Faxaflóahafna um að koma af stað vinnuhópi um Sundabrautina. Verkfræðistofan EFLA hefur átt fundi með forsvarsmönnum GAMMA og LEX.

Að sögn Gísla er GAMMA að leggja lokahönd á skýrslu um innviðafjárfestingar á Íslandi. Fyrirtækið meti það svo að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum á Íslandi nemi að minnsta kosti 250 milljörðum króna. Þá metur GAMMA það svo að fjárfestingarþörf í innviðum næstu 7-10 árin verði að minnsta kosti 500 milljarðar. Telur fyrirtækið að þjóðhagslegt tap af því að hafa ekki ráðist í gerð Sundabrautar fyrir áratug nemi á bilinu 12-15 milljörðum.

Kynna á stjórnvöldum og fjárfestum verkefnið

„Markmiðið er að fá sem flesta hagsmunaaðila að þessari vinnu, til þess að unnt verði að fá fram sem flest sjónarmið og auka líkurnar á því að Sundabraut verði að veruleika fyrr en síðar,“ segir Gísli.

Hann segir að nú sé eingöngu verið að vinna áætlun til að kynna stjórnvöldum sem og fjárfestum, hér heima eða erlendis, þannig að sýnt verði fram á að unnt sé að fjármagna verkefnið án beinnar fjárfestingar opinberra aðila.

„Á þessu stigi er of snemmt að segja til um hverjir væru líklegustu fjárfestar í verkefni sem þessu, en gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir og erlendir innviðasjóðir gætu haft áhuga á því,“ segir Gísli, aðspurður hvort leitað verði til lífeyrissjóðanna en þeir sýndu Sundabraut áhuga á sínum tíma.

Hvort fjármagna eigi Sundabrautina með veggjöldum, líkt og Hvalfarðargöng, segir Gísli að í innviðafjárfestingum, þar sem fjármagn kemur frá öðrum en opinberum aðilum, séu til ýmiss konar útfærslur. Það sé á forræði stjórnvalda að ákveðna hvaða leið verði farin. Rifjar Gísli upp að í skýrslu frá því í mars í fyrra hafi starfshópur á vegum innanríkisráðherra útlistað þrjár mögulegar fjármögnunarleiðir við einkaframkvæmd Sundabrautar.

Hraða þarf vinnunni

Stjórn Faxaflóahafna hefur falið formanni stjórnar og hafnarstjóra að ræða við forsvarsmenn GAMMA og LEX. Gísli segir Faxaflóahafnir vera einn stærsti hagsmunaaðilinn við byggingu Sundabrautar og því sé afar brýnt að fá sjónarmið þeirra fram í vinnu hópsins. „Við gerum okkur vonir um gott samstarf á milli starfshópsins og Faxaflóahafna.“

Spurður hvenær vinnuhópnum sé ætlað að ljúka starfi sínu segir Gísli stefnt að því að hraða vinnunni eins og kostur er, þó þannig að vandað sé til verka, enda um stórt og flókið verkefni að ræða.

„Það er hins vegar mat GAMMA að lagning Sundabrautar væri þjóðhagslega mjög hagkvæm og því æskilegt að málið tefjist ekki að óþörfu. Ákvörðun um tímasetningu er þó augljóslega í hendi opinberra aðila, en það er von okkar að vinnuhópurinn geti sýnt fram á það að fjármögnun framkvæmdarinnar ætti ekki að vera fyrirstaða í þeim efnum,“ segir Gísli Hauksson.

Senda grein