FréttirAbhijeet Gupta sigraði á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu

Frétt

17.3.2016 Samfélagsmál

Indverjarnir Abhijeet Gupta og Tania Sadchev stálu heldur betur senunni á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í gær í Hörpu. Gupta sigraði á mótinu en Tania hlaut kvennaverðlaunin og náði sér í áfanga að stórmeistaratitli. 

Indverjarnir Abhijeet Gupta og Tania Sadchev stálu heldur betur senunni á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í gær í Hörpu. Gupta sigraði á mótinu en Tania hlaut kvennaverðlaunin og náði sér í áfanga að stórmeistaratitli. 

Gupta vann afar sanngjarnan og öruggan sigur. Sigurvegarinn sem var aðeins tíundi í stigaröð keppenda, fékk 8,5 vinning, vann sjö skákir og leyfði aðeins 3 jafntefli. Rússinn Dmitry Andreikin varð annar með 8 vinninga. Níu skákmenn, allt stórmeistarar, urðu jafnir í 3.-11. sæti.

Abhijeet Gupta sigraði á GAMMA Reykjavíkurskákmótinu. Tania Sachdev stóð sig best kvenkeppenda og tryggði sér jafnframt áfanga að stórmeistaratitli.

Hjörvar Steinn Grétarsson varð efstur Íslendinga með 7 vinninga. Guðmundur KjartanssonHannes Hlífar Stefánsson og Sigurður Daði Sigfússon voru næstir með 6,5 vinning.

Mótið skilaði alls 580 skákstigum inn í íslenskt skákstigakerfi! Alexander Oliver Mai hækkaði mest allra eða um 142 skákstig. Aðrir sem hækkuðu um meira en 100 skákstig voru Þór Hjaltalín (140), Alec Elías Sigurðarson (128) og Birkir Ísak Jóhannsson (120). Þess má geta að Agnar Tómas Möller, einn eigenda GAMMA, hækkaði um tæp 37 stig á mótinu og hlaut 5 vinninga.

Agnar Möller var með 5 vinninga á Reykjavíkur-skákmótinu og hækkaði um tæp 37 stig.

Alls tóku 235 skákmenn frá 31 landi þátt í GAMMA Reykjavíkurskákmótinu í ár. Mikil ánægja var með mótshaldið og mótsstaðinn meðal hinna erlendu gesta.

Verðlaunafhending mótsins fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. 

 

Senda grein