FréttirTelfdu til sigurs í Barna Blitzi hjá GAMMA

14.3.2016 Samfélagsmál

Efnilegustu ungmenni landsins í skák tóku þátt í einum allra skemmtilegasta hliðarviðuburði Reykjavíkurskákmótsins í húsakynnum GAMMA Capital Management á sunnudaginn. Var viðburðurinn hluti af skákhátíð fjölskyldunnar hjá GAMMA.

Efnilegustu ungmenni landsins í skák tóku þátt í einum allra skemmtilegasta hliðarviðuburði Reykjavíkurskákmótsins í húsakynnum GAMMA Capital Management á sunnudaginn. Var viðburðurinn hluti af skákhátíð fjölskyldunnar hjá GAMMA.

Átta ungir skákmenn léku til úrslita í hraðskákmótinu Barna Blitz. Áður höfðu farið fram undankeppnir í taflfélögum með þátttöku um 100 ungra skákmanna á aldrinum 6-13 ára.

Óskar Víkingur Davíðsson, nýkrýndur Norðurlandameistari í flokki 11 ára og yngri, fór mjög mikinn á sunnudaginn og vann allar sínar viðureignir. Hann vann Stephan Briem í úrslitum. Alexander Oliver fékk bronsið eftir að hafa lagt Sindra Snæ Kristófersson í viðureign um þriðja sætið.

 

Alexander Oliver, Óskar Víkingur og Stephan Briem urðu hlutskarpastir á Barna Blitzi sem haldið var í húsakynnum GAMMA á sunnudag. Fyrir aftan þá standa Stefán Orri Davíðsson, Joshua Davíðsson, Róbert Luu, Sindri Snær Kristófersson og Sæmundur Árnason. Agnar Tómas Möller frá GAMMA, Gunnar Björnsson forseti Skáksambandsins og Stefán Bergsson framkvæmdastjóri Skákakademíu Reykjavíkur standa aftast.

Helgi Ólafsson með líflegar skákskýringar

Síðar um daginn á skákhátíð GAMMA var Helgi Ólafsson stórmeistari með skemmtilegt erindi um sögu Reykjavíkurskákmótsins í Hörpu. Gestir gátu fyrst fylgst með upphafi sjöundu umferðar mótsins og farið svo beint að hlusta á Helga skýra frá áhugaverðum skákum enda sérfróður um mótið eftir að hafa gefið út einstaklega vandað rit í tveimur bindum um sögu þess.

Helgi rifjaði upp athyglisverð atvik sem tengdust mótinu og gömlum og nýrri heimsmeisturum eins Mikhail Tal, Vasilly Smyslov, Bobby Fischer, Garry  Kasparov og Magnus Carlsen. Má þar nefna mjög fræga hraðskák úr Reykjavík Rapid, undanfara Reykjavíkurskákmótsins 2004, þar sem þrettán ára Carlsen náði jafntefli við rússneska heimsmeistarann, honum til lítillar ánægju. Myndskeið má finna hér af skákinni: https://www.youtube.com/watch?v=WjEmquJhSas

 

Helgi Ólafsson sagði að þótt netið geymi næstum allar upplýsingar hefði honum þótt nauðsynlegt að taka saman sögu Reykjavíkurskákmótsins í bók. Í bókinni væru allir hlutir settir í samhengi og skýrðir sem væri ekki alltaf raunin á netinu eða tæki mikinn tíma að finna og setja saman.

Senda grein