FréttirGAMMA Reykjavíkurskákmótið hefst í dag

8.3.2016 Samfélagsmál

GAMMA Reykjavíkurskákmótið hefst í Hörpu í dag þriðjudaginn 8. mars. Um 250 manns taka þátt í mótinu sem hefur sjaldan verið sterkara. 

GAMMA Reykjavíkurskákmótið hefst í Hörpu í dag þriðjudaginn 8. mars. Um 250 manns taka þátt í mótinu sem hefur sjaldan verið sterkara.  Á mótinu í ár má finna allt í senn undrabörn, ofurstórmeistara, sterkustu skákkonur heims og goðsagnir! Þátttakendur eru skákmenn á aldursbilinu 9-73 ára frá 35 þjóðlöndum.

Fremstur í flokki íslenska liðsins verður Hannes Hlífar Stefánsson, fimmfaldur sigurvegari Reykjavíkurskákmótsins. Einnig eru skráðir til leiks stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson, Henrik Danielsen og Stefán Kristjánsson. Agnar Tómas Möller, einn eigenda GAMMA, er á meðal 85 íslenskra keppenda.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, setja mótið klukkan 16.30 og tríó Óskars Guðjónssonar leikur skemmtilegan jazz.

Að lokinni opnunarathöfn hefst fyrsta umferð mótsins sem stendur yfir til 16. mars. Tefldar verða tíu umferðir og enginn aðgangseyrir að mótsstað. Rúmum tveimur klukkustundum eftir að hver umferð hefst munu þekktir skákmenn sjá um skákskýringar fyrir gesti og fara yfir forvitnilegustu skákirnar í hverri umferð í hliðarsal Hörpu.

Efnilegustu skákmenn heims mæta

Það hefur verið stefna Reykjavíkurskákmótsins að bjóða hingað ungum og efnilegum skákmönnum. Í ár má nefna hinn ítalska Fransesco Rambaldi  sem er aðeins 16 ára, og einn yngsti stórmeistari heims, hinn norska Aryan Tari sem er yngsti stórmeistari Norðurlanda og bandaríska undrabarnið Awonder Liang. Hann er aðeins 12 ára og er sá yngsti í skáksögunni sem hefur unnið stórmeistara en það afrekaði hann aðeins 9 ára. Hann er sem stendur yngsti alþjóðlegi meistari heims!

Awonder Liang

Sterkar skákkonur eru einnig áberandi í ár.  Má þar nefna hina þýsku Elizabetu Paetz og hina indversku Tönju Sachdev sem er þjóðþekkt í Indlandi. 

Tania Sachdev 

Erlendir ofurmeistarar

Aserinn Shakhriyar Mamedyarov er stigahæstur keppenda en hann hefur 2747 skákstig. Næstir koma Rússinn Dmitry Andreikin (2732), Ungverjinn Richard Rapport (2721) og Armeninn Gabriel Sargassian (2702). Allt eru þetta lykilmenn í sínum landsliðum.

Shakhriyar Mamedyarov 

GAMMA Capital Management hf. er aðalstyrktaraðili mótsins ásamt Reykjavíkurborg.

Senda grein