FréttirGAMMA eykur framboð erlendra sjóða og ræður framkvæmdastjóra sölu og viðskiptaþróunar

8.1.2016 Starfsemi

Jónmundur Guðmarsson verður framkvæmdastjóri sölu og viðskiptaþróunar hjá GAMMA. Samstarfssamningur undirritaður við alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið GAM.

GAMMA Capital Management hefur hafið samstarf við GAM, eitt stærsta eignastýringarfyrirtæki í heimi, og getur nú boðið viðskiptavinum sínum upp á beina fjárfestingu í alþjóðlegum sjóðum GAM. Auk þess verður unnt að stofna erlenda vörslureikninga hjá GAMMA Capital Management með milligöngu GAM. Samstarfið er liður í þeirri stefnu GAMMA Capital Management að gera viðskiptavinum sínum kleift, með einföldum hætti, að ná fram eignadreifingu erlendis eftir að gjaldeyrishöftum verður aflétt.

Þá hefur Jónmundur Guðmarsson verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra hjá GAMMA. Hann verður einn fjögurra framkvæmdastjóra félagsins og mun stýra sviði sölu og viðskiptaþróunar á Íslandi og á erlendum mörkuðum.

Jónmundur er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá Oxford-háskóla á Englandi. Hann var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi 2002 til 2009, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins árin 2009 til 2014 og hefur síðustu tvö ár gegnt starfi framkvæmdastjóra sænska fyrirtækisins Beringer Finance á Íslandi. 

Þá hefur hann setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og fjármálafyrirtækja, svo sem Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lánasjóðs sveitarfélaga. Jónmundur mun jafnframt bætast í hluthafahóp félagsins á árinu.

„GAMMA Capital Management hóf starfsemi í London í fyrra og stefnt er að því að efla þá starfsemi enn frekar á nýju ári, með það fyrir augum að geta boðið upp á heildarlausnir í fjárfestingum hér heima og erlendis. Við höfum nú nýverið flutt okkur um set í nýtt húsnæði í London, í Mayfair hverfinu, og samstarfið við GAM og ráðning framkvæmdastjóra sölu og viðskiptaþróunar eru næstu skref í þessu verkefni. Það er mikill fengur að ráðningu Jónmundar Guðmarssonar, sem hefur víðtæka reynslu af stjórnun og fjármálastarfsemi, og þá er það afar spennandi tækifæri fyrir okkur að vinna með fyrirtæki á borð við GAM. Markmið okkar er að viðskiptavinir GAMMA á Íslandi geti fengið alhliða þjónustu hjá okkur þegar kemur að fjárfestingum erlendis, allt frá stofnun vörslureiknings til beinna fjárfestinga í sjóðum hjá virtustu sjóðastýringarfyrirtækjum í heimi,“ segir Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA Capital Management.

GAMMA Capital Management (gamma.is) er rekstrarfélag verðbréfasjóða með um 60 milljarða króna í stýringu og starfsemi í Reykjavík, í Garðastræti 37, og í London, að 25 Upper Brook Street.

GAM (gam.com) er leiðandi eignastýringarfyrirtæki á heimsvísu og rekur starfsemi sína undir merkjum GAM og Julius Baer. Félagið hefur höfuðstöðvar í Zurich, starfsstöðvar í ellefu löndum og yfir eitt þúsund starfsmenn og 130 milljarða USD í stýringu.

Senda grein