FréttirHorfur á erlendum hlutabréfamörkuðum

16.12.2015 Skoðun

Jóhann Gísli Jóhannesson, sjóðsstjóri hlutabréfasjóða hjá GAMMA, skrifar um erlenda hlutabréfamarkaði.

Jóhann Gísli Jóhannesson, sjóðsstjóri hlutabréfasjóða hjá GAMMA, skrifaði grein í Fréttablaðið um erlenda hlutabréfamarkaði.

Greinina er að finna hér að neðan í lengri útgáfu, styttri útgáfu má sjá hér til hliðar:

Erlendir hlutabréfamarkaðir

 

 Fjárfesting erlendis

Rúmum 7 árum eftir að fjármagnshöft voru sett á eru teikn á lofti um að á þeim verði verulega slakað á næsta ári eða þau jafnvel aflétt að fullu. Við það opnast á ný tækifæri fyrir sparifjáreigendur til að dreifa sparnaði sínum erlendis. Það ætti að vera mikið hagsmunamál fyrir almenning enda hafa innlend hlutabréf mikla fylgni sín á milli og þá sérstaklega þegar innlend efnahagsleg áföll eiga sér stað en með því að fjárfesta erlendis að hluta minnkar kerfisáhætta safnsins verulega. Þó að megin markmiðið með dreifingu sparnaðar sé að draga úr áhættu skiptir ávöxtun auðvitað miklu máli og því þarf að velja fjárfestingakosti vel. Það er því ekki úr vegi að skoða helstu atburði sem hafa átt sér stað á erlendum hlutabréfamörkuðum undanfarið og hvernig framhaldið gæti litið út.

Miklar sviptingar á alþjóðlegum mörkuðum

Árið 2015 hefur verið viðburðaríkt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Helstu drifkraftar ársins hafa verið peningastefna seðlabanka í heiminum, miklar lækkanir á olíuverði, styrking Bandaríkjadals gagnvart flestum myntum og áhyggjur af Grikklandi og Kína. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur gefið til kynna að stutt sé í fyrstu vaxtahækkun þar síðan árið 2006 og telja flestir að vextir verði hækkaðir á næsta fundi seðlabankans þann 16. desember. Á sama tíma hefur evrópski seðlabankinn verið að lækka vexti og hóf í mars á þessu ári að kaupa skuldabréf á evrusvæðinu fyrir 60 milljarða evra í hverjum mánuði með það að markmiði að ýta undir lánveitingar og örva hagvöxt. Ástæða þessara andstæðu aðgerða er að hagkerfi Evrópu hefur verið tregt til að sýna merki um bata í samanburði við Bandaríkin. Þessar aðgerðir hafa leitt til þess að Bandaríkjadalur hefur styrkst mikið gagnvart evru. 

Hlutabréf fóru vel af stað

Árið byrjaði vel á flestum mörkuðum eftir að merki um betri hagvaxtarhorfur fyrir Evrópu og Japan komu fram ásamt aukinni trú á aðgerðum seðlabanka. Í mars hóf evrópski seðlabankinn mánaðarleg uppkaup á skuldabréfum á evrusvæðinu og höfðu þær aðgerðir jákvæð áhrif á evrópska hlutabréfamarkaði. Jafnframt stefnir í það að árið 2015 verði metár í alþjóðlegum samrunum og yfirtökum (e. M&A) og slái þar með met frá árinu 2007. Þetta hefur stutt við hlutabréfamarkaði þar sem félög hækka yfirleitt mikið eftir að tilkynnt hefur verið um samruna eða yfirtöku. Um mitt ár höfðu flestir stærstu markaðir heims skilað jákvæðri ávöxtun en Evrópa þó töluvert betri en Bandaríkin.

Grikkland, Kína og Seðlabanki Evrópu

Á sumarmánuðum jukust aftur áhyggjur fjárfesta af málefnum Grikklands eftir að það varð fyrsta þróaða ríkið til að vanefna greiðslu skuldar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Á tímabili leit út fyrir að grískur harmleikur væri í uppsiglingu og tvísýnt um hvort Grikkir myndu halda áfram þátttöku í myntsamstarfi Evrópusambandsins. Áhyggjur fjárfesta gagnvart Grikklandi minnkuðu þegar leið á haustið eftir að samkomulag náðist á milli grísku ríkisstjórnarinnar og evrópskra leiðtoga.
Næst á dagskrá voru áhyggjur af Kína. Lakari hagvaxtarhorfur, minni vöxtur í eftirspurn og mikil lækkun á kínverskum hlutabréfum smitaðist út og olli óróa og lækkunum á hlutabréfum í Evrópu og Bandaríkjunum. Hækkanir ársins voru að mestu þurrkaðar út og flestir stærstu hlutabréfamarkaðir heimsins sýndu rauðar tölur í lok þriðja ársfjórðungs. Síðustu vikur hafa einkennst af miklum sveiflum. Hlutabréf hækkuðu töluvert vegna væntinga um að evrópski seðlabankinn ætlaði að auka mánaðarleg skuldabréfakaup sín. Slegið var þó á þær væntingar á síðasta fundi seðlabankans þar sem tilkynnt var að upphæð skuldabréfakaupa yrði óbreytt og hafa evrópskir markaðir lækkað töluvert í kjölfarið.

Mynd – Ávöxtun nokkurra vísitalna

Heimild: Bloomberg og GAMMA

Hvar eru tækifærin?

Erfitt er að spá fyrir með vissu hvar tækifæri næsta árs liggja. Flestir sérfræðingar virðast sammála um að evrópsk hlutabréf muni skila betri ávöxtun en bandarísk. Þessi skoðun er rökstudd með nokkrum atriðum: Evrópska hagkerfið virðist vera á upphafsstigum uppsveiflu en Bandaríkin eru lengra komin í sinni hagsveiflu. Auk þess er Seðlabanki Bandaríkjanna við það að hefja vaxtahækkunarferli sitt á meðan evrópski seðlabankinn mun að öllum líkindum halda vöxtum lágum og halda áfram uppkaupum á evrópskum skuldabréfum. Afleiðingin af þessu er sterkur Bandaríkjadalur og mun hann jafnvel halda áfram að styrkjast á næsta ári sem setur pressu á söluvöxt bandarískra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi. Verðlagning er einnig hagstæðari, evrópsk hlutabréf eru verðlögð á 15 sinnum hagnað næsta árs á meðan bandarísk eru metin á rúmlega 17 sinnum hagnað 2016. Skýringin þar á er að væntingar um vöxt í hagnaði eru hærri fyrir evrópsk fyrirtæki. Þrátt fyrir þessa upptalningu er ekki þar með sagt að bandarísk hlutabréf muni skila slakri ávöxtun. Verðlagning virðist vera í jafnvægi ef miðað er við langtíma meðaltöl á verðmargföldurum og hagkerfið í uppsveiflu. Helstu óvissuþættir næsta árs eru tengdir peningastefnu seðlabanka beggja vegna Atlantshafsins og lakari hagvaxtarhorfum í Kína. Þá þurfa íslenskir fjárfestar að hafa gjaldeyrishreyfingar sérstaklega í huga þar sem töluverðar sveiflur geta orðið á íslensku krónunni gagnvart öðrum myntum ef fjármagnshöftum verður aflétt. Hreyfing á þeirri mynt sem hlutabréfið er skráð í getur haft mikil áhrif á heildarávöxtun fjárfestingar umreiknað í íslenskar krónur.

Mikilvæg tímamót framundan

Ísland stendur á tímamótum um þessar mundir en útlit er fyrir að fjármagnshöftum, sem sett voru á í kjölfar fjármálahrunsins haustið 2008, verði aflétt á næst ári. Verði það að veruleika gefst íslenskum fjárfestum og sparifjáreigendum tækifæri til að fjárfesta erlendis á ný. Á erlendum fjármálamörkuðum hefur mikið gengið á síðan fjármálakrísan reið yfir heiminn árið 2008 og töluverð óvissa framundan. Það er því mikilvægt að fylgjast vel með og greina fjárfestingakosti vel til að staðsetja sig sem best þegar kemur að fjárfestingum erlendis.

 

Senda grein