Nýr skuldabréfamarkaður ryður sér til rúms
Valdimar Ármann skrifar í ViðskiptaMoggann um sértryggð skuldabréf sem nýjan valkost í stýringu skuldabréfa á Íslandi en útgáfa þeirra og velta á eftirmarkaði hefur aukist verulega síðustu misseri.
Nýr skuldabréfamarkaður ryður sér til rúms
Svokölluð sértryggð skuldabréf eiga sér langa sögu í Evrópu og má rekja aftur um meira en 200 ár til Prússlands. Hér á landi hófst formleg útgáfa sértryggðra skuldabréfa ekki fyrr en árið 2012 þegar íslensku viðskiptabankarnir hófu að gefa út skuldabréf til að fjármagna lánveitingar til íbúðakaupa. Í efnahagshruninu árið 2008 lenti ekkert sértryggt skuldabréf í greiðslufalli og má í langri sögu þeirra í Evrópu ekki finna dæmi um neitt greiðslufall.
Seljanleiki undirstaða skilvirkni markaðar
Árið 2008 gaf Kaupþing út sértryggð skuldabréf til fjármögnunar á íbúðalánum sínum en það var ekki fyrr en árið 2012 að formleg útgáfa hófst undir sérstökum lagaramma um sértryggð skuldabréf. Hér á landi hefur seljanleiki sértryggðra skuldabréfa einna helst staðið í vegi fyrir framþróun markaðarins en skilvirkur eftirmarkaður er grundvöllur réttrar og skilvirkrar verðmyndunar. Það er þó líklegt að bréfin verði að stórum hluta í eigu langtímafjárfesta eins og stofnanafjárfesta sem þó engu síður krefjast seljanleika eins og minni fjárfestar. Það er fagnaðarefni að nýlega var tilkynnt um aukna viðskiptavakt með sértryggð skuldabréf útgefin af Arion banka og Íslandsbanka og búast má við hinu sama með útgáfur Landsbankans. Innan skamms verður seljanleiki sértryggðra skuldabréfa orðinn meiri en skuldabréfa Íbúðalánasjóðs. Meðfylgjandi myndir sýna þróun útistandandi markaðsverðmætis sértryggðra skuldabréfa samanborið við þróun á veltu og vísitölu GAMMA yfir sértryggð skuldabréf. Vel sést að útgáfan hefur aukist verulega frá árinu 2012 og nemur nú um 100 milljörðum króna. Að sama skapi hefur velta með bréfin aukist mjög síðustu mánuði sem sýnir að markaðurinn er að dýpka og þroskast. Hvorutveggja skilar sér í auknu aðgengi fjárfesta að markaði með sértryggð skuldabréf sem og útgefenda.
Mynd – Mikil aukning í útgáfu og veltu
Heimild: GAMMA
Fjármögnun íbúðalána án ríkisábyrgðar
Sértryggð skuldabréf hafa um aldir verið notuð til fjármögnunar íbúðalána í mörgum ríkjum Evrópu. Er þetta í raun leið sem ríkisvaldið stendur alfarið fyrir utan ef undanskilin er umsjá regluverks. Á Íslandi eru útgáfur samkvæmt lögum nr 11 frá árinu 2008 um sértryggð skuldabréf og útgefandi þarf að fá leyfi frá FME fyrir útgáfu. Í stuttu og einfölduðu máli leggur útgefandi sértryggðra skuldabréfa að veði tryggingasafn sem í tilfelli útgáfu íslensku bankanna er samsett af veittum íbúðalánum til einstaklinga. Aukið hagræði og öryggi fjárfesta felst í því að útgefandi þarf að viðhalda tryggingasafninu yfir líftíma skuldabréfsins og jafnframt er tryggingasafninu haldið aðskildu frá öðrum eignum í tilfelli gjaldþrots. Þannig halda greiðslur áfram að berast til eigenda sértryggðu bréfanna af greiðsluflæði eigna í tryggingasafninu. Sjálfstæður skoðunarmaður staðfestur af Fjármálaeftirlitinu hefur eftirlit með tryggingasafni og reglulega eru gefnar út skýrslur um tryggingasafnið með álagsprófunum.
Áframhaldandi vöxtur
Sértryggður skuldabréfamarkaður hefur tekið stakkaskiptum undanfarna mánuði og tryggja þarf áframhaldandi vöxt og aðgengi að markaði. Eini sérhæfði sértryggði skuldabréfasjóðurinn á Íslandi er í rekstri hjá GAMMA og nefnist „Covered Bond Fund“ sem útleggst sem „Sértryggður skuldabréfasjóður“.Hann er tæplega tveir og hálfur milljarður að stærð og hefur verið í rekstri í tæpt ár. Slíkir sjóðir bjóða upp á leið fyrir fjárfesta, stóra sem litla, til að færa hluta af eignasafni sínu í sértryggð skuldabréf en aðgengi að sértryggðum skuldabréfum hefur verið takmarkað vegna lítils seljanleika, hárra fjárhæðamarka og margra útgáfa. Útgáfur undir merkjum sértryggðra skuldabréfa eru allt annars eðlis en aðrar útgáfur innlánsstofnana og er áhætta þeirra mun minni vegna undirliggjandi tryggingasafns. Þó er ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa almennt hærri en ríkisskuldabréfa en það álag hefur farið lækkandi með bættum markaði og gæti lækkað frekar.
Mynd – Sértryggða skuldabréfavísitala GAMMA
Heimild: GAMMA
Mikið öryggi sértryggðra skuldabréfa
Stærstu útgefendur sértryggðra skuldabréfa eru Danmörk, Spánn, Svíþjóð, Frakkland og Þýskaland en heildarstærð útgefinna sértryggðra bréfa í Evrópu vegna íbúðalána er rúmir tvö þúsund milljarðar evra (samkvæmt European Covered Bond Council). Í dag eru sértryggð skuldabréf meginhluti fjármögnunar evrópskra banka vegna íbúðalána en þau eru hins vegar minna notuð í Bandaríkjunum. Það er því athyglivert að Ben Bernanke, fyrrum Seðlabankastjóri, hefur bent á að sértryggð skuldabréf séu góð leið til að komast hjá ákveðnum vandamálum sem hafa myndast við það að fjármálafyrirtæki veiti lán, pakki þeim saman og fjármagni þau með því að losa þau út af sínum eigin efnahagsreikningi. Þar sem lán að baki sértryggðum skuldabréfum eru ávallt á efnahagsreikningi útgefanda, þ.e. bankans, sem þarf samkvæmt reglum að tryggja að skipta út veðum sem eru ekki greiðsluhæf þá setur það meiri ábyrgð á lánveitanda við sínar lánveitingar. Hagsmunir lánveitanda og kaupanda skuldabréfs eru því betur samtvinnaðir.
Sértryggð skuldabréf mikilvæg viðbót
Sértryggð skuldabréf bjóða því fjárfestum upp á nýjan valkost í stýringu skuldabréfa og eru ekki einungis góð viðbót við íslenskan skuldabréfamarkað heldur geta átt stóran þátt í umbreytingu á íslenskum lánamarkaði til íbúðakaupa. Þessi þróun er nauðsynlegur þáttur í því ferli að færa lánveitingar vegna íbúðakaupa úr faðmi ríkisábyrgðar yfir á markaðsforsendur.
Höfundur: Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA
- Birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 12. nóvember 2015