FréttirVerðbólguvæntingar á villigötum í Seðlabankanum

21.8.2015 Skoðun

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA, gagnrýnir Seðlabankann fyrir túlkun hans á þróun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði undanfarið.

Agnar

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA, gagnrýnir Seðlabankann fyrir túlkun hans á þróun verðbólguálags á skuldabréfamarkaði undanfarið, í samtali við Viðskiptablaðið.

Þar kemur fram gagnrýni á hvernig Seðlabankinn túlkar verðbólguvæntingar mismunandi milli vaxtaákvörðunarfunda og í raun rangtúlkar þróun verðbólguvæntinga á skuldabréfamarkaði. Að mati Agnars eru útreikningar Seðlabankans á verðbólguálagi einfaldlega rangir eða í besta falli villandi og gefa til kynna of háar verðbólguvæntingar sem kunna að leiða til meira aðhalds peningastefnunnar en ella. Þetta er tilefni er til nánari útskýringa og er það gert hér að neðan.

Í  yfirlýsingu peningastefnunefndar frá 19. ágúst þegar Seðlabankinn hækkaði vexti um 0,5%, segir: „verðbólguvæntingar hafa hækkað“. Það verður að teljast með ólíkindum að Seðlabankinn greini svo frá þróun mála. Þar er vísað í könnun frá öðrum ársfjórðungi um verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja til 12 mánaða sem hækka úr 3% í 4% en þessi gögn lágu jafnframt fyrir við seinustu vaxtaákvörðun bankans þann 10.júní sl. Engar mælingar liggja því fyrir á milli vaxtaákvarðana um þessar væntingar. Ný könnun bankans á verðbólguvæntingum markaðsaðila sýnir að verðbólguvæntingar þeirra hækka að meðaltali um 0,4% milli vaxtaákvörðunarfunda en líkt og bent hefur verið á þarf að taka þeirri könnun með fyrirvara eins og kemur fram í neðangreindu viðtali í Viðskiptablaðinu. Einnig verður að hafa í huga að 12 mánaða verðbólguvæntingar fyrirtækja og einstaklinga eru sveiflukenndar og þarf ekki að koma á óvart að þær hafi risið með þeirri þungu verðbólguumræðu í kringum kjarasamninga. Var Seðlabankinn þá,  líkt og nú, mjög ákafur í að vara við mikilli verðbólgu sem enn sem komið er bólar ekki á.

Nú gerist það á milli vaxtaákvörðunarfunda Seðlabankans að framvirkar verðbólguvæntingar, frá 5 árum til 10 ára, lækka um heil 0,8% niður í 3,8% (og 3,6% þegar þetta er ritað) og eru með eðlilegri áhættuleiðréttingu komnar nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þetta er mjög mikil breyting á væntingum skuldabréfamarkaðarins og er Seðlabankinn sammála um stærð hreyfingarinnar en telur hins vegar álagið vera um 0,7% hærra en það í raun er og er það jafnframt slæmt að Seðlabankinn meti verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hærra en þær í raun eru.

Seðlabanki Íslands, líkt og flestir aðrir seðlabankar, hefur jafnan lagt mikla áherslu á verðbólguvæntingar skuldabréfamarkaðarins sem mælikvarða á kjölfestu peningastefnunnar. Það er ekki að ástæðulausu, þar sem fjárfestar taka jafnan ekki stöður sem þeir búast við að tapa á. En nú bregður svo við að þegar verðbólguvæntingar falla skarpt á skuldabréfamarkaði kýs Seðlabankinn að líta framhjá því með rökum sem standast ekki skoðun, eins og rakið var í fyrrnefndu viðtalið við Viðskiptablaðið.

Vaxtahækkun Seðlabankans frá því í gær verður vart tekin til baka en röksemdarfærslan fyrir henni sem snýr að verðbólguvæntingum stenst ekki skoðun og er það ákaflega óheppilegt að Seðlabankinn skuli stilla vogarskálar sínar með þeim hætti að auka aðhald peningastefnunnar meir en nauðsyn krefur.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA

Senda grein