Fréttir„Viljum ryðja braut nýrra tækifæra“

18.8.2015 Skoðun Starfsemi

Viðtal í Morgunblaðinu við Gísla Hauksson, forstjóra GAMMA, um stofnun félagsins, nýsköpun á fjármálamarkaði, erlenda starfsemi og horfur í innlendum efnahagsmálum.

Á þeim sjö árum sem liðið hafa frá því að sjóðastýringarfyrirtækið GAMMA var stofnað hefur það verið leiðandi á sínu sviði. Það rekur rúmlega 20 sjóði sem eru opnir almennum fjárfestum sem og fagfjárfestum. Fyrirtækið var stofnað á miklum umbrotatímum í íslensku efnahagslífi og hefur á hverjum tíma leitast við að beina viðskiptavinum sínum á þær brautir þar sem tækifærin hafa legið. Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA og annar tveggja stærstu eigenda félagsins, segir bjarta og spennandi tíma fram undan í íslensku efnahagslífi og sér áfram fyrir sér mikil vaxtartækifæri fyrir GAMMA, hér heima en ekki síður erlendis.

Viðtal í MorgunblaðinuÍ reisulegu húsi við Garðastræti 37 í Reykjavík, teiknuðu af hinum þekkta arkitekt Gunnlaugi Halldórssyni, þar sem Síldarútvegsnefnd var áratugum saman til húsa, hefur fjármálafyrirtækið GAMMA komið sér haganlega fyrir. Hvorki að ytra byrði né að innan ber húsið þess sérstaklega vitni að þar starfi 25 einstaklingar við stýringu tuga sjóða sem í heildina eru um 50 milljarðar að umfangi. Það sem fyrst vekur athygli þeirra sem leið eiga inn í húsið er þau fjölmörgu og fjölbreyttu listaverk samtímalistamanna þjóðarinnar sem prýða veggina og mætti því í fyrstu ætla að þarna væru skrifstofur listasafns en ekki fjármálafyrirtækis.

Gísli Hauksson hagfræðingur er annar tveggja stofnenda GAMMA og hefur frá því að fyrirtækið var stofnað í byrjun júní 2008 veitt daglegum rekstri þess forystu. Ætla mætti að óheppilegt hafi verið að stofna fjármálafyrirtæki á þeim tímapunkti, í ljósi þess sem gerðist í íslensku efnahagslífi mánuðina á eftir, en við nánari skoðun kemur í ljós að svo reyndist alls ekki vera. Þar sannaðist mögulega hið fornkveðna að veldur hver á heldur.

„Ég hóf störf hjá Búnaðarbankanum 24 ára gamall. Verðbréfamarkaðurinn var á þessum árum að slíta barnsskónum og í raun að verða mun þróaðri en áður hafði verið. Þannig fékk ég tækifæri til að sækja mér reynslu samhliða vexti markaðarins og hafa áhrif á nýsköpun á þessum unga fjármálamarkaði. Síðar bauðst mér að flytja til London þegar Kaupþing setti á laggirnar skrifstofu þar í borg. Um mitt ár 2006 kom ég heim að nýju og það var aftur á miklu umbreytingarskeiði. Ég tók meðal annars þátt í því að breyta og efla afleiðumarkað með vexti, verðbólgu og hlutabréf en sem dæmi varð vaxtaafleiðumarkaðurinn miklu stærri en undirliggjandi skuldabréfamarkaður innan skamms tíma,“ segir Gísli þegar hann er beðinn um að rifja upp aðdragandann að stofnun GAMMA.

Svartsýnn í upphafi árs 2007

Í árslok 2006 var Gísli hluti af stórum hópi starfsmanna Kaupþings á sviði markaðsviðskipta. Milli jóla og nýárs ákvað hópurinn, eins og vant var, að spá því hvað nýtt ár myndi bera í skauti sér þegar verðbréfamarkaðurinn var annars vegar.

„Meðalspáin hjá hópnum var eitthvað á þá leið að hlutabréfamarkaðurinn myndi hækka um að mig minnir 40% á árinu 2007. Ég gerði hins vegar ráð fyrir 20% lækkun, sá eini sem spáði neikvæðri ávöxtun. Ég var kominn með óþægilega tifinningu fyrir ástandinu í efnahagslífinu þá þegar. Þrátt fyrir hækkun markaðarins upp á tugi prósenta fyrstu sex mánuði ársins reyndist endanleg niðurstaða í takt við mína spá. Markaðurinn endaði í stórum mínus.“

Gísli var farinn að huga að því að söðla um á seinni hluta árs 2007 og réði mestu sú þróun sem átt hafði sér stað á árinu. Ýmsir möguleikar voru kannaðir, m.a. stofnun vogunarsjóðs í samstarfi við fjárfesta í Bandaríkjunum. Niðurstaðan varð á endanum sú að setja á laggirnar sjóðafyrirtæki sem væri með öllu óháð viðskiptabönkunum þremur.

„Ég fékk samstarfsmann minn, Agnar Tómas Möller verkfræðing, með mér í verkefnið enda er hann afburðamaður og taldi ég hann þá og tel hann enn í dag besta skuldabréfa- og vaxtasjóðsstjóra landsins. Hann sló til og sagði upp í Kaupþingi þó að hann ætti von á tvíburum með eiginkonu sinni og óveðursský væru að hrannast upp yfir hagkerfinu hérlendis. Við hófumst handa strax í kjölfarið. MP banki, sem á þeim tíma var lítill fjárfestingarbanki, hafði trú á verkefninu og keypti sig inn í félagið og varð minnihlutaeigandi á móti mér og Agnari Tómasi. Í ágúst sama ár gekk Guðmundur Björnsson verkfræðingur, sem var yfirmaður afleiðuviðskipta í Kaupþingi, til liðs við okkur og þá vorum við orðnir þrír.“ Síðar um veturinn átti þeim eftir að bætast góður liðsauki í Valdimari Ármann fjármálahagfræðingi, sem hafði starfað árum saman í London og New York.

Bankahrunið reið yfir fjórum mánuðum eftir stofnun félagsins. „Við vorum að mestu að einbeita okkur að skuldabréfa- og afleiðumarkaðnum á þessum tíma. Þarna vorum við farnir af stað með sjóð sem við köllum Iceland Fixed Income Fund. Hann er í dag langsamlega stærsti sérhæfði skuldabréfasjóður landsins og er um sjö milljarðar að stærð. Sjóðnum gekk gríðarlega vel á árinu 2008. Það færðu sig einfaldlega allir sem gátu í skuldabréfin og tækifærin þar voru mikil enda sveiflurnar miklar. Sjóðurinn hefur haldið áfram að skila góðri ávöxtun og hefur meðalávöxtun verið um 18% á ári frá árinu 2009.“

Sáu tækifærin í kjölfar kreppu

Þegar allt var í upplausn í samfélaginu og enginn gat séð fyrir hver útkoman yrði, m.a. hvað varðaði endurreisn bankakerfisins, fór Gísli að gefa reynslu annarra þjóða af djúpstæðum kreppum meiri gaum.

„Á þessum tíma, þegar erfiðleikarnir voru hvað mestir hér heima, einbeitti ég mér að lestri um lönd sem gengið hafa í gegnum djúpar kreppur í gegnum tíðina. Ég las mikið um kreppuna sem reið yfir Skandinavíu í upphafi 10. áratugarins og krísur í Mexíkó, Suðaustur-Asíu, Rússlandi og Argentínu. Síðan má segja að ómeðvitað teiknuðum við í framhaldinu upp sviðsmynd um hvernig Ísland myndi þróast á komandi árum í kjölfar efnahagshremminganna. Þar litum við einkum til þeirra grunnkrafta sem eru að verki í íslensku samfélagi og efnahagslífi, ekki síst til hinnar umfangsmiklu matvælaframleiðslu í sjávarútvegi, ótrúlegrar orkuframleiðslu, og svo að sjálfsögðu lýðfræðinnar, þ.e. hversu ung þjóðin er og hversu mikið okkur mun fjölga á næstu árum. Síðan hefur enn einn krafturinn bæst við í formi ferðaþjónustu. Við hjá GAMMA erum í grunninn greinendur þjóðhagfræðilegra þátta enda er slíkt nauðsynlegt í litlu opnu hagkerfi með eigin gjaldmiðil. Við horfum á hagkerfið fyrst og greinum svo undirliggjandi tækifæri einstakra eignaflokka. Starfsmenn okkar hafa mikla reynslu, ekki aðeins úr fjármálakerfinu hér heima og erlendis heldur einnig úr fyrirtækjarekstri og háskólaumhverfinu.“

Meðan þeir félagarnir lágu yfir þeim tækifærum sem þeir töldu að gætu verið fram undan segir Gísli að viðhorf hans til efnahagslífsins hafi tekið breytingum.

„Ég hafði verið sérlega svartsýnn fyrir hrun. Nú snerist þetta allt við. Ég fylltist bjartsýni þegar við höfðum teiknað upp myndina af því hvernig Ísland gæti náð vopnum sínum að nýju á tiltölulega skömmum tíma. Við vorum sannfærðir um að kraftarnir á skuldabréfamarkaðnum myndu smitast yfir á hlutabréfamarkaðinn þegar áhættuviðhorf fjárfesta löguðust og þaðan áfram á aðra eignamarkaði. Við töldum að fasteignamarkaðurinn myndi braggast á nýjan leik enda verðlækkun á þeim markaði óeðlileg. Eftir þessari kortlagningu höfum við síðan siglt og það má segja að við höfum hreppt meðvind í flestum meiriháttar ákvörðunum okkar og höfum verið óhræddir við að færa fjárfestingar sjóða okkar milli eignaflokka.“

Brautryðjendur á ýmsum sviðum

Stofnendur GAMMA, þeir Gísli og Agnar Tómas, eiga enn um tvo þriðju hluta fyrirtækisins, en það er nú einnig í eigu fjögurra annarra starfsmanna. Gísli segir að eignarhaldið geri fyrirtækinu kleift að halda óhæði sínu og að það hafi engum öðrum herrum að þjóna en viðskiptavinum sínum. Það geri fyrirtækið með því að ávaxta sjóðina sem það stýri með sem bestum hætti. Þá segir hann að uppbygging fyrirtækisins hafi gert eigendunum kleift að taka frumkvæði á ýmsum sviðum, en GAMMA hóf til að mynda nýverið starfsemi í London.

„Við vorum fyrsta fyrirtækið eftir hrun sem kom fram með sérhæfðan skuldabréfasjóð. Þá stofnuðum við fyrsta hlutabréfasjóðinn eftir hrun, fyrsta vísitölusjóðinn, fyrsta fyrirtækjaskuldabréfasjóðinn og fyrstu sjóðina um íbúðarhúsnæði,“ segir Gísli.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að fjármálaumhverfið muni breytast mjög á næstu árum bæði hér heima og erlendis. Miðlun fjármagns, m.a. lánsfjár, muni að miklu leyti flytjast frá viðskiptabönkum sem byggja fjármögnun sína á innlánum með ríkisábyrgð yfir til sérhæfðra sjóða og útgefinna skuldabréfa í kauphöll. Enda sjáum við að einn mesti vöxturinn hjá okkur á síðustu árum hefur verið í rekstri fyrirtækjaskuldabréfasjóðs, en sá sjóður er í dag stærsti sjóður sinnar tegundar hér á landi með á sjötta milljarð króna í stýringu. Sjóðurinn hefur komið að fjölbreyttum verkefnum víðs vegar í hagkerfinu. Nægir að nefna að hann hefur fjármagnað verkefni á sviði nýbygginga, fyrirtækjakaupa, sjávarútvegs, ferðaþjónustu og nýsköpunar.“

Ein nýjungin sem GAMMA hefur innleitt er sjö vísitölur sem fyrirtækið smíðaði á grundvelli markaðsgagna. Þeim er ætlað að varpa ljósi á ávöxtun ólíkra flokka fjármálagerninga. Gísli segir að það hafi verið stórt skref að ráðast í þetta verkefni og eftir á að hyggja hafi það verið hálfgalin hugmynd í upphafi. Það hafi hins vegar reynst heilladrjúgt, ekki aðeins fyrir fyrirtækið heldur markaðinn í heild.

„Okkur þótti það nokkuð merkilegt þegar við fórum, árið 2008, að bera saman og skoða árangur þeirra sjóða sem voru í rekstri hérlendis að þeir voru sífellt að bera sig saman innbyrðis. Það minnti helst á söguna af landi hinna blindu. Þar var sá eineygði kóngur. Menn voru í raun ekki að bera sjóðina saman við eitthvað sem hald var í. Sjóðirnir voru til dæmis ekki að bera sig saman við ávöxtun markaðarins í heild. Sem dæmi má nefna að árið 2009 reiknuðum við vísitölu skuldabréfamarkaðarins aftur til ársins 2000 og á þessum tíu árum hafði enginn sjóður gert betur en markaðurinn í heild.“

Þá höfum við einnig stofnað til samstarfs við eitt öflugasta sjóðastýringafyrirtæki heims, PIMCO, og erum mjög stolt af því að þetta risastóra fjármálafyrirtæki hafi valið okkur sem samstarfsaðila hér á landi. Samstarfið við PIMCO og einnig sú staðreynd að við höfum nú fengið heimild til að veita þjónustu erlendis gerir okkur betur í stakk búin til að þjónusta íslenska fjárfesta þegar fjármagnshöftunum verður aflétt. Við teljum að með þessu séum við að taka forystu í þessum efnum.“

Það vakti einnig nokkra athygli í upphafi ársins þegar GAMMA kynnti til sögunnar nýjan námslánasjóð sem ber heitið Framtíðin. Gísli segir að með stofnun sjóðsins sé fyrirtækið að sækja inn á nýtt svið.

„Á næstu árum koma upp metárgangar sem útskrifast úr íslenskum háskólum. Frá hruni hefur orðið erfiðara að stunda nám erlendis, en það hefur verið ein mesta gæfa íslensks samfélags að margir hafa lagt það á sig að sækja sér menntun erlendis.

Það hefur hins vegar reynst mörgum snúið vegna kostnaðar og þá starfar að auki Lánasjóður íslenskra námsmanna þannig að þeir sem eru að koma af vinnumarkaði eiga ekki kost á láni vegna tengingar launa við lánsupphæð. Þá er það einnig staðreynd að hámarkslán LÍN dugar ekki fyrir kostnaðarsömu námi erlendis.

Okkur finnst það mjög táknrænt í þessu sambandi að merki sjóðsins er af farfuglunum. Þeir halda út en koma svo aftur. Við höfum nú á örfáum mánuðum aðstoðað á annað hundrað námsmenn við að gera drauminn um nám erlendis að veruleika og þá er líka mjög stór hópur sem stundar öflugt nám hér heima og fjármagnar námið með lánum frá Framtíðinni. Það hefur verið ótrúlegt að sjá hversu víða þessi hópur er að fara og mikill fjöldi sem kemst inn í strembið nám við virtustu háskóla heimsins.

Þessi lán okkar eru einnig þannig úr garði gerð að það eru engar kröfur gerðar um veð eða ábyrgðarmenn.“

Það hefur að sögn Gísla verið einstök reynsla að fylgja nýju fjármálafyrirtæki úr hlaði. Það hefur ekki síst verið áhugavert að sjá hvenær fyrirtækið vakti fyrst athygli á opinberum vettvangi.

„Það höfðu ekki margir áhuga á fyrirtækinu meðan við vorum að mestu í skuldabréfum og afleiðum. Það var ekki fyrr en við snerum okkur að fasteignamarkaðnum að GAMMA vakti athygli fjölmiðlanna. Það er athyglisvert í ljósi þess að fasteignahlutinn er ekki nema um fimmtungur af heildarumfangi sjóða fyrirtækisins.“

Innreið fyrirtækisins á fasteignamarkaðinn var hluti af þeirri sviðsmynd sem starfsmenn þess höfðu teiknað upp í eftirleik hrunsins. Byggði hún á greiningu sem félagið vann á árinu 2010.

„Ísland og Írland eru einu löndin innan OECD sem hafa lent í annarri eins lækkun á fasteignaverði á síðari tímum. Í greiningunni fórum við ofan í kjölinn á markaðnum. Dæmið gekk ekki upp að okkar mati. Atvinnuhúsnæði lækkaði um 70-80% að raunvirði og íbúðarhúsnæði um 50-60%. Byggingarkostnaður var sums staðar orðinn 50% hærri en markaðsverð og á sama tíma er Íslendingum að fjölga og það verulega. Við töldum að eftirspurnarhliðin myndi toga markaðinn upp. Á þessum tíma var ekkert byggt, byggingageirinn var hruninn og í raun var þetta uppskrift að algjöru ójafnvægi á markaðnum. Í þessum aðstæðum lá tækifæri fyrir viðskiptavini okkar og tókum við ákvörðun um að stofna sjóði sem myndu fjárfesta í íbúðarhúsnæði, en nú eru sjóðirnir með um 500 íbúðir í útleigu í gegnum Almenna leigufélagið en það er eina leigufélagið á Íslandi sem býður leigjendum í dag upp á lengri tíma leigusamninga ásamt þjónustu allan sólarhringinn. Það að færa íbúðir úr því að vera í einkaeigu yfir í leigu, hvorki hækkar leigu- né húsnæðisverð að öðru óbreyttu og því finnst okkur umræðan í fjölmiðlum stundum hafa verið ósanngjörn hvað þessa starfsemi okkar varðar. Það er auðvitað fyrst og fremst húsnæðisskorturinn, fjölgun ferðamanna og aukning skammtímaleiguíbúða sem hefur valdið því. Þegar markaðsverð og byggingarkostnaður mættust snerum við okkur að nýbyggingum. Í dag er fasteignafélag á vegum sjóðs hjá GAMMA, Upphaf fasteignafélag, að byggja um 700 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, einkum litlar og hagkvæmar íbúðir. Íbúðirnar eru einkum hugsaðar til fyrstu kaupa eða fyrir sístækkandi hóp eldri borgara sem vill minnka við sig. Markaðurinn fyrir hrun var orðinn dálítið firrtur að því leyti að menn byggðu allt of stórar íbúðir og allt of dýrar. Það er hins vegar mikil þörf fyrir minni eignir í dag og það reynist ungu fólki erfitt að eignast sína fyrstu íbúð vegna þess að of lítið framboð hefur verið af litlum íbúðum. Nú stefnir þetta í rétta átt og ég tel það koma vel til greina að við munum með tíð og tíma stefna að skráningu fasteignasafnsins sem við höfum byggt upp í Kauphöll, enda mælist stærð þess vel á þriðja tug milljarða króna.“

Tenging við útlönd nauðsynleg

Ráðgjafarverkefni GAMMA hafa mörg hver vakið töluverða athygli, einkum og sér í lagi skýrsla þess fyrir Alþingi í Icesave-deilunni og skýrslur þess um orku- og auðlindamál fyrir Landsvirkjun og HS Orku. „Við höfum haft tækifæri til að vinna fjölbreytt ráðgjafarverkefni fyrir fjöldamarga aðila, bæði opinbera aðila eins og forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið og stóran hluta skráðra félaga í kauphöllinni,“ segir Gísli. ,,Orkumálin hafa verið okkur hugleikin og höfum við m.a. skrifað töluvert um möguleika á lagningu sæstrengs til Bretlands. Í mínum huga er þar einstakt tækifæri sem gæti tryggt Íslandi verðmæti af áður óþekktri stærðargráðu.“

Gísli segir mikil tækifæri felast í starfsemi í London. Með því móti geti GAMMA stutt við sjóðsfélaga sína sem vilji áhættudreifa eignum sínum utan Íslands en á sama tíma aðstoðað erlenda fjárfesta sem hafi áhuga á fjárfestingum á Íslandi. ,,Það er ljóst að áhugi erlendra aðila á Íslandi er gríðarmikill enda eru horfur í hagkerfinu jákvæðar, sem mun skila sér í áframhaldandi hækkunum á eignamörkuðum, í bættum rekstri ríkissjóðs og hærra lánshæfi ríkis og íslenskra fyrirtækja.“

-------------

Þar sem viðskipti og menning mætast með áhugaverðum hætti

GAMMA hefur komið að ýmiss konar menningarstarfsemi á síðustu árum. Þannig hefur félagið meðal annars átt í öflugu samstarfi við i8 Gallery og Ólaf Elíasson um verkefnið Little Sun, styrkt myndlistarsýningar íslenskra listamanna hér heima og erlendis, styrkt Listahátíð í Reykjavík og bókaútgáfu og nú síðast gerðist fyrirtækið aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins. Þá hefur GAMMA verið aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands allt frá árinu 2009. Gísli segir að það hafi verið fyrirtækinu og eigendum þess sannkallaður heiður að koma að því verkefni.

„Þegar allt ætlaði um koll að keyra og hljómsveitin missti alla helstu styrktaraðila sína var okkur boðið að koma að málum. Það þótti okkur stórkostlegt tækifæri og með aðkomu GAMMA höfum við náð að uppfylla tvö markmið; annars vega að styðja við þessa frábæru hljómsveit og hins vegar að kynna klassíska tónlist fyrir fleira fólki. Við höfum til dæmis staðið fyrir auglýsingaherferð þar sem við höfum lagt áherslu á að kynna hið ótrúlega hæfileikaríka fólk sem hljómsveitin byggir starf sitt á. Þá er gaman að segja frá því að á síðasta starfsári gátum við boðið um 600 manns á tónleika og þar hafa orðið til nýir aðdáendur Sinfóníunnar.“

Þegar GAMMA flutti í húsnæðið við Garðastræti 37 stofnaði fyrirtækið einnig Gallery GAMMA og eru þar reglulega haldnar sýningar á nútímalist. Í sumar var til að mynda haldin sýning þar í samstarfi við Listahátíð í Reykjavík á verkum Dorothy Iannone, en hún er talin skipa stóran sess í listasögu síðari hluta 20. aldar. Gísli segir þetta verkefni hafa verið mjög gefandi.

„Ég hef persónulega safnað list um langt árabil og það á líka við um marga aðra innan fyrirtækisins. Með galleríinu skapast tækifæri til að kynna listaverk og listamenn úr mörgum ólíkum áttum, en galleríið er opið almenningi alla virka daga.“

Ekki verður hjá því komist að nefna lætin sem urðu hjá ákveðnum einstaklingum þegar fréttist að GAMMA hefði fengið rithöfundinn Braga Ólafsson til að rita bók eða nóvellu sem fyrirtækið prentaði síðan í 300 eintökum og færði viðskiptavinum sínum og ýmsum öðrum að gjöf á síðasta ári. Margir urðu til að gagnrýna fyrirtækið fyrir þetta og ekki síður listamanninn. Gísli segist lítið skilja í moldviðrinu vegna þessa.

„Við fengum einfaldlega einn besta rithöfund landsins til að skrifa bók sem við síðan gáfum út. Hún var prentuð í nokkrum hundruðum eintaka og ber höfundinum fagurt vitni. Þessi bók er enn til og öllum aðgengileg, bæði í þeim eintökum sem dreifðust vítt og breitt um landið og á Þjóðarbókhlöðunni. Við erum einfaldlega mjög stolt af þessu verkefni og finnst gaman að geta átt samstarf við frábæran listamann eins og Braga.“

Hér er tengill í stutta vísun í viðtalið á mbl.is

Senda grein