FréttirBrothættur stöðugleiki

14.8.2015 Skoðun

Agnar Tómas Möller skrifar í Viðskiptablaðið um lækkun verðbólguálags undanfarna mánuði, samspil verðbólguvæntinga og verðbólguáhættuálags og þýðingu þess fyrir peningastefnuna.

Í grein sem undirritaður skrifaði í Viðskiptablaðinu í október 2014, var fjallað um þróun verðbólguálags og mikilvægi þess að mat á því sé byggt á traustum og vel ígrunduðum forsendum í ljósi þess hve mikilvægur mælikvarði það er á framkvæmd peningastefnunar. Í því samhengi var fjallað um svokallað „verðbólguáhættuálag“ og hefur Seðlabankinn undanfarin misseri fjallað nokkuð um það og reynt sérstaklega að meta það, meðal annars í gegnum markaðskönnun markaðsaðila sem og með umfjöllun um erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið. Einnig hefur verðbólguáhættuálag fengið sérstaka umfjöllun, á köflum, í fundargerð peningastefnunefndar undanfarin misseri.

Í sem einföldustu máli er „verðbólguáhættuálag“ sá vaxtamunur sem fjárfestar krefjast ofan á verðbólguvæntingar sínar til að þeir telji sig jafnsetta með að eiga verðtryggð og óverðtryggð bréf, m.ö.o. er verðbólguálag, sem lesa má beint á skuldabréfamarkaði, samsett úr verðbólguvæntingum og verðbólguáhættuálagi. Það er því sérstaklega mikilvægt að taka verðbólguáhættuálag inn í mat verðbólguvæntinga við framkvæmd peningastefnu á Íslandi, þar sem álagið er líklegt til að vera hærra hér en annars staðar í ljósi sveiflukenndrar verðbólgusögu íslensku krónunnar. Hættan er þá einkum sú að ef ekki sé tekið fullnægjandi tillit til áhættuálagsins, geti verðbólguvæntingar skuldabréfamarkaðar orðið ofmetnar og þar af leiðandi gæti aðhaldsstig peningastefnunnar hneigst til að vera meira en raunveruleg þörf er á. Í október á seinasta ári var 7 ára verðbólguálag um 3,25% á sama tíma og verðbólga var lág og verðbólguþrýstingur ákaflega lítill. Í umræddri grein voru þá færð rök fyrir því að teknu tilliti til verðbólguáhættuálags væru verðbólguvæntinguar markaðarins í raun nær 2,5% en 3,0%, þ.e. að verðbólguáhættuálag væri að minnsta kosti hálft prósentustig.

Seðlabankinn virðist hafa verið á svipaðri skoðun og greinarhöfundur því að í fundargerð Seðlabankans frá 15. nóvember segir að „verðbólguvæntingar hefðu hnigið að markmiðinu að undanförnu og væru á suma mælikvarða komnar nálægt því, sérstaklega horft til skemmri tíma“, og í seinni fundargerð frá 20. desember segir að „miðað við áhættuálag sem nemur u.þ.b. 0,5% virðast verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði því vera svipaðar og verðbólgumarkmiðið“. Lækkuðu vextir jafnframt um 0,25% á fyrri fundinum í nóvember og um 0,5% á seinni fundinum í desember og var tónn Seðlabankans með þeim hætti að búist var við frekari lækkun vaxta í kjölfarið.

Í lok janúar á þessu ári gerði svo Seðlabankinn könnun á mati markaðsaðila á verðbólguáhættuálagi og spurði hvert „áhættuálag vegna óvissu um verðbólguþróun á skuldabréfamarkaði [væri] um þessar mundir“. Miðgildi svarenda mat álagið 0,2% til eins árs, 0,3% til tveggja ára og 0,5 % til fimm ára og því ágætt samræmi í mati Seðlabankans frá mánuðinum á undan og mati markaðsaðila mánuði síðar í umræddri könnun. Í Peningamálum í maí fjallar bankinn svo um verðbólguáhættuálag í rammagrein þar sem kemur fram að flestar rannsóknir á verðbólguáhættuálagi í Bandaríkjunum bendi til þess að verðbólguáhættuálag til 10 ára liggi á bilinu 0,5% - 1,0%.

Í byrjun febrúar á þessu ári fór svo hinn þungi tónn verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við kjarasamninga að hafa veruleg áhrif á skuldabréfamarkaðinn og hækkaði verðbólguálag til lengri og skemmri tíma um nærri 2% frá byrjun febrúar til loka mars og stóð þá í nálægt 4,2%. Undirritun kjarasamninga í maí lok dró ekki sérstaklega úr þeim væntingum og náði verðbólguálagið hæstu hæðum í 4,7% um miðjan júní, eða um svipað leyti og Seðlabankinn hækkaði vexti um 0,5% og gaf sterklega til kynna að umtalsverðar frekari vaxtahækkanir væru framundan næstu misserin. Meiri ótti við verðbólgu leiðir að jafnaði til hækkunar á verðbólguáhættuálagi, þótt mat á því sé auðvitað ávallt huglægt og erfitt að meta með beinum hætti. Það má því slá því föstu að í ljósi mikillar hækkunar verðbólguálags eftir áramót, án þess að verðbólgan sjálf hafi nokkuð risið að ráði, hafi verðbólguáhættuálag markaðarins hækkað nokkuð og sé því líklega komið nær einu heldur en hálfu prósenti, á bilinu 5 til 10 ára.

Það hlýtur því að vera ánægjuefni fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans að nú rúmum mánuði eftir seinustu vaxtaákvörðun skuli 5 ára verðbólguálag hafa lækkað úr 4,2% í 3,9% og 10 ára verðbólguálag úr 4,40% í 3,9% (mælt miðað við 5 ára og 10 ára breyttan meðallíftíma ríkisbréfa og íbúðabréfa). Þótt enn sé eitthvað óunnið verkefni fyrir Seðlabankann er áhugavert að framvirkar verðbólguvæntingar, til 5 ára að 5 árum liðnum, hafa nú í sumar lækkað um meira en heilt prósent frá því þær náðu hámarki í byrjun júní, úr 5,0% í 3,8%, en Seðlabankinn hefur einmitt ítrekað lýst yfir áhyggjum að hækkun þeirra væntinga bendi til þess að peningastefnuna skorti kjölfestu. Í ljósi hás áhættuálags, sem hlýtur í dag að vera innifalið í verðbólguvæntingum vegna mikillar óvissu um hvaða áhrif kjarasamningar munu á endanum hafa á verðbólguna á næstu árum, er ljóst að hreinar verðbólguvæntingar markaðsaðila til skemmri og lengri tíma hafa þokast nær verðbólgumarkmiði og liggja án efa mun nær 3% en 4%.

Mynd: Verðbólguálag til 5 og 10 ára og framvirkt

Það er þó óþarfi að gefa Seðlabankanum meira hrós en hann á skilið fyrir þessa jákvæðu þróun. Líklega hefur svartsýni Seðlabankans í Peningamálum s.l. maí smitað sér yfir í aukinn verðbólguótta fjárfesta, a.m.k. tímabundið. Önnur mikilvæg ástæða er lækkun á olíuverði og hrávörum erlendis og einkum það að sem betur fer virðast áhrif nýgerðra kjarasamninga ekki stefna í að valda jafnmikilli verðbólgu og óttast var af mörgum, þar með talið Seðlabankanum, að minnsta kosti fyrst um sinn. Fyrirtæki virðast ekki að vera að mæta launahækkunum með samsvarandi verðhækkunum og því væri óheppilegt að snarpt hækkandi vaxtakostnaður þeirra raski þeirri viðkvæmu stöðu. Stöðugleikinn er brothættur í dag en það er mikilvægt að sem flestir, þar með talið Seðlabankinn, leggi sitt af mörkum til að viðhalda honum horft fram á veginn.

Höfundur Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá GAMMA.

- Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 13. ágúst 2015.

Senda grein