FréttirNý skýrsla GAMMA Ráðgjafar um Auðlindagarð á Reykjanesi

28.5.2015 Skoðun Starfsemi Útgáfa

Fjölþætt nýting jarðvarma á Reykjanesskaga var til umræðu á ráðstefnu sem HS Orka, Bláa Lónið og GAMMA Ráðgjöf stóðu fyrir í Hörpu í dag.

Í ítarlegri skýrslu sem GAMMA Ráðgjöf vann fyrir HS Orku og Bláa Lónið og kynnt var í dag á fjölmennum fundi í Hörpu er fjallað um efnahagsleg áhrif Auðlindagarðs á Reykjanesi.

Hér að neðan er stutt samtantekt úr skýrslunni. Skýrsluna í heild (88 blaðsíður, 39 MB) er síðan að finna á heimasíðu HS Orku hér.

Samantekt:

Frá árinu 2008 hefur Auðlindagarðurinn og fyrirtækin sem þar starfa tekið stakkaskiptum. Vöxtur garðsins hefur gegnt mikilvægu hlutverki í endurreisn og umbreytingu vinnumarkaðar á Suðurnesjum, en þar hefur verið á brattann að sækja síðustu ár. Ætla má að frá 2011 hafi eitt af hverjum fjórum nýjum störfum á Suðurnesjum tengst garðinum með einum eða öðrum hætti.

Fyrir rúmum tveimur áratugum var atvinnuástand á Suðurnesjum prýðilegt, sem skýrðist helst af miklum umsvifum Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þegar mest var bjuggu tæplega sex þúsund manns á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli; hermenn og fjölskyldur þeirra. Síðastliðin ár hefur þó slegið í bakseglin. Atvinnuleysi hefur verið með því mesta sem sést hefur frá stríðslokum, en frá 2006 hefur svæðið gengið í gegnum tvö kröftug samdráttarskeið. Margt bendir þó til þess að viðsnúningur sé nú að eiga sér stað og að ásýnd atvinnustarfsemi á Suðurnesjum sé að taka varanlegum breytingum.

Auðlindagarðurinn á Reykjanesi er dæmi um fyrrnefnda þróun. Í garðinum er að finna þyrpingu fyrirtækja sem byggja framleiðslu sína á samnýtingu auðlindar, þ.e. jarðvarma frá HS Orku. Þyrpingin myndar efnahagslega heild sem er öflugri, skilvirkari og sveigjanlegri en einföld summa þeirra fyrirtækja sem mynda hana. Hagkvæmni þyrpingarinnar endurspeglast þá m.a. í uppsafnaðri reynslu og mannviti í vinnslu jarðvarma, sem öll fyrirtækin njóta góðs af. Uppbygginguna sem hefur átt sér stað í Auðlindagarðinum má að einhverju leyti rekja til hagfelldra ytri aðstæðna. Frá árinu 2009 hafa lágt raungengi og hagstæðar aðstæður til atvinnureksturs í útflutningi stutt við hraðan vöxt fyrirtækjanna. Árið 2013 námu tekjur Auðlindagarðsins um 20,5 milljörðum, eða um 1% af vergri landsframleiðslu. Á árunum 2008-2013 jókst virðisauki innan Auðlindagarðsins um rúmlega 21%. Á sama tímabili dróst verg landsframleiðsla (á þáttavirði) saman um tæplega 1,7%. Af því má ráða að verðmætasköpun innan Auðlindagarðsins hafi verið umtalsvert meiri en sem nemur verðmætasköpun þjóðarbúsins á sama tímabili. Verðmætasköpun Auðlindagarðsins frá 2008-2013 endurspeglast þá einnig í um það bil 30% hærri launum að meðaltali en atvinnutekjur á landsvísu.

Allar frekar upplýsingar um Auðlindagarðinn má finna á nýrri heimasíðu sem opnuð var af tilefni ráðstefnunnar www.audlindagardurinn.is

Hægt er að fá sent eintak af skýrslunni útprentaðri, vinsamlegast hafið samband við starfsmenn GAMMA Ráðgjafar í síma 591-3300.

Senda grein