Fréttir



Mánuður eftir af sýningunni Eitt leiðir af öðru

7.4.2015

Sýningin Eitt leiðir af öðru í Gallery GAMMA dregur saman ný og nýleg verk eftir átta íslenska samtímalistamenn  sem eru fæddir á árunum 1973 til 1980 og hafa verið áberandi í íslensku myndlistarlífi síðustu ár.

Sýningin Eitt leiðir af öðru dregur saman ný og nýleg verk eftir átta íslenska samtímalistamenn  sem eru fæddir á árunum 1973 til 1980 og hafa verið áberandi í íslensku myndlistarlífi síðustu ár.

Í inngangi sýningarskrár skrifar Helgi Már Kristinsson, sýningarstjóri:

,, Listamennirnir hafa þróað með sér persónulega fagurfræði sem er í senn kraftmikil, fínleg og auðþekkjanleg. Efni og efnistök listamannanna eru skoðuð og sett í samhengi við hvort annað. Ákveðinn samhljómur í sýningunni myndast við þessa skoðun verkanna þó að við fyrstu sýn sé hann ekki auðséður. Sýningin flæðir um rýmið og eru verk ólíkra listamanna sett saman, eitt leiðir af öðru og samstæð heild myndast.

Í verki Ragnars Kjartanssonar sjáum við 97 ára gamla blús goðsögn spila af fingrum fram og sagan birtist okkur í samhengi.

Daníel Björnsson setur einmitt hluti úr fortíðinni í samhengi við tíðaranda samtímans, viðfangsefnið, sagnfræði sett á flot.

Í málverki sínu veltir Guðmundur Thoroddsen fyrir sér karlmennsku og stöðu feðraveldisins, hæðist að því og upphefur allt í senn. Skúlptúrar hans eru í formi hluta með illsjáanlegt notagildi en svala sjónrænni þörf.

Þór Sigurþórsson gerir skúlptúra úr hlutum fundnum í hversdagsleikanum. Hann tekur þá í sundur og setur saman á ný, nær óþekkjanlega í nýju samhengi.

Anna Hrund Másdóttir leitar einnig í nærumhverfi sínu að efni í verk sín. Hversdagslegir hlutir leystir upp, skoðaðir og settir fram á nýjan hátt. Endurtekning, samanburður og endurgerð, ferlið fer í hring og skilar út manngerðum sindrandi fossi á vegg sýningarrýmisins.

Manngerð náttúra birtist líka í verkum Söru Riel þar sem hún endurgerir steina og kristalla með ljósmyndum og klippimyndatækni.

Í ljósmyndum sínum skoðar Pétur Thomsen einnig hið manngerða umhverfi samtímans, aðflutt landslag. Hann skoðar sitt eigið nærumhverfi, rannsakar og birtir á óvenjulegan hátt.

Í málverkum sínum skoðar Davíð Örn Halldórsson sitt nánasta umhverfi og hversdagslífið í borgarlandslaginu. Setur hann það fram á óhefðbundin hátt, oftar en ekki á fundið efni úr sama umhverfi.

Og þannig leiðir eitt af öðru í Garðastrætinu“

Sýningin Eitt leiðir af öðru stendur til 1.maí 2015.

Gallery GAMMA er opið milli kl 13 og 17 alla virka daga.

Frekari upplýsingar um sýninguna og galleryið má finna á www.gallerygamma.is

Senda grein