Fréttir



10 ára skákmaður hlaut flest stig á GAMMA Reykjavik Open

20.3.2015 Samfélagsmál

Hinn 10 ára gamli Óskar Víkingur Davíðsson vann sér inn flest skákstig á Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í fyrradag og hækkaði um heil 150 stig. Mótið var stórskemmtilegt í alla staða og óvæntur sigurvegari.

Hinn 10 ára gamli Óskar Víkingur Davíðsson vann sér inn flest skákstig á Reykjavíkurskákmótinu sem lauk í fyrradag og hækkaði um heil 150 stig. Þótt sterkustu skákmenn Íslands blönduðu sér ekki í baráttuna um efstu sætin voru níu Íslendingar á lista yfir tíu skákmenn sem hækkuðu mest að skákstigum. Það má því segja að stigalægri íslenskir skákmenn hafi gert mjög gott mót.

Fjölmennt lokahóf Reykjavíkurskákmótsins fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur á miðvikudagskvöld þar sem Hollendingurinn Erwin L'Ami fagnaði sigri sínum á mótinu með 8 ½ vinning af 10 mögulegum. Auk verðlauna til efstu manna mótsins hlutu fjölmargir þátttakendur verðlaun fyrir ýmis afrek og tóku við viðurkenningu úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Agnars Tómasar Möllers, meðeiganda GAMMA.

Efri mynd: Erwin L'Ami, sigurvegari GAMMA Reykjavik open, fyrir miðju ásamt Pavel Eljanov og Fabien Libiszewski sem urðu í 2.-3. sæti með 8 vinninga. Með þeim á myndinni eru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands.

Neðri mynd: Wojciech Babiczuk, Bartosz Miszkielo og Óskar Víkingur Davíðsson sem náði bestum árangri í samanburði við skákstig á Reykjavíkurskákmótinu, ásamt Agnari Tómas Möller, f.h. GAMMA.

„Skáksambandið er mjög ánægt með samstarfið við GAMMA. Með aðkomu fyrirtækisins fylgdi mikil fagmennska sem smitaði út frá sér inn í mótshaldið. Skáksamband Íslands fagnar því mjög að hafa eignast mjög öflugan samstarfsaðila til 2018,“ segir Gunnar Björnsson forseti SÍ og mótsstjóri Reykjavíkurskákmótsins síðustu ára.

Markmið GAMMA er að Reykjavíkurskákmótið haldi áfram að styrkjast bæði að vegleika og styrkleika. Mótið ýtir undir grósku í íslensku skáklífi enda metnaðarmál GAMMA að auka skákáhuga á Íslandi, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni. Á þessum vettvangi gefst efnilegum skákmönnum færi á að tefla við fjölbreyttan hóp erlendra skákmanna.

Agnar Tóma Möller, sem sjálfur tefldi á mótinu, segir það hafa verið ánægjulegt að fylgjast með árangri yngri og stigalægri keppenda mótsins. „Þrátt fyrir að íslensku keppendurnir hafi einungis verið 93 talsins af samtals 275 keppendum þá voru níu þeirra á topp tíu lista yfir þá skákmenn sem bættu við sig flestum skákstigum,“ segir Agnar. „Sérstaklega ber að nefna frábæran árangur Óskars Víkings Davíðssonar sem er tíu ára og var í efsta sæti yfir þá sem hækkuðu mest allra á mótinu eða um heil 150 skákstig!“ Hann segir að spennandi verður að fylgjast með ungu kynslóðinni í náinni framtíð.

Erwin L'Ami hafði tryggt sér sigurinn fyrir seinustu umferð mótsins. Pavel Eljanov, sem vann L‘Ami í lokaumferðinni, varð í 2. - 3. sæti ásamt Frakkanum Fabien Libiszewski með 8 vinninga.

Sigurvegari mótsins, Erwin L‘Ami, einbeittur í skák sinni á móti Armenanum Hrant Melkumyan

Sigur L‘ami var óvæntur að sögn Gunnars Björnssonar og enginn hafi átt von á sigri hans fyrir mótið. Sigur hans hafi hins vegar einnig verið ánægjulegur í ljósi þess að Erwin og kona hans Amina, sem er mjög sterk skákkona, hafa verið fastagestir á mótinu undanfarin ár og hefur Amina birt frábærar myndir af mótinu reglulega í erlenda vefskáktímaritinu Chessbase.

Íslensku skákmennirnir náðu ekki að blanda sér í baráttuna um efsta sætið en flesta vinninga hlutu þeir Henrik Danielsen, sem vann David Navara glæsilega í lokaumferðinni, og Hannes Hlífar Stefánsson. Þeir hlutu báðir 7 ½ vinninga og urðu í 4.-14. Sæti, Hannes í því ellefta og Henrik í tólfta.

Að lokum má nefna að Agnari Tómasi Möller gekk sjálfum ágætlega á mótinu og fékk 5 vinninga, hækkaði um 48 á skákstig og varð í 7. sæti yfir árangur miðað við skákstig.

Senda grein