Fréttir



Spennandi lokadagar á GAMMA Reykjavík Open

17.3.2015 Samfélagsmál

Hollenski stórmeistarinn Erwin L´ami er einn efstur á Reykjavíkurskákmótinu, GAMMA Reykjavik Open, með 7,5 vinninga sem er vinningi meira en næstu menn. 

Hollenski stórmeistarinn Erwin L´ami er einn efstur á Reykjavíkurskákmótinu, GAMMA Reykjavik open, með 7,5 vinninga sem er vinningi meira en næstu menn. Sigri hann í dag í 9. og næst síðustu umferðinni tryggir hann sér efsta sætið á mótinu. Fleiri eiga ennþá möguleika á að deila því með honum.

Óvænt tíðindi hafa hrannast upp á mótinu undanfarna daga og stigaminni skákmenn lagt sterkari að velli. Fjölmargir hafa lagt leið sína í Hörpuna til að fylgjast með spennandi einvígum í návígi. Allir hafa hrósað umgjörð og fyrirkomulagi mótsins og ekki látið óveðrið trufla sig mikið.

Meðal þeirra sem fylgdust með um helgina var norski heimsmeistarinn Magnus Carlsen, en faðir hans er þátttakandi á mótinu. Agnar Tómas Möller, annar stofnenda GAMMA sem tekur þátt í sínu fyrsta Reykjavíkurskákmóti, hitti heimsmeistarann í gær og ræddi við hann um mótið og skákina.

Carlsen, sem er þekktur fyrir að vera ótrúeiknanlegur í upphafsleikjum sínum, sagði við það tækifæri meðal annars að hann legði frekar lítið upp úr að vera vel inni í öllum tískustraumum byrjanafræðanna. Hann legði meiri áherslu á að ná jafnri og teflanlegri stöðu fjarri hinum mest troðnu stígum upphafsleikjanna. Hann væri sannfærður um að í þeirri stöðu gæti hann lagt hvern sem er og það sjálfstraust væri í raun lykillinn að árangri hans.

Sjálfur vann Agnar Tómas Norðmanninn Kjetil Strand í gær og er með fjóra vinninga. Hann hefur unnið sér inn 35 skákstig á mótinu og er með árangur upp á rúm 2.000 skákstig. Hans stærsti sigur var gegn WGM Sabina-Francesca Foisor (2279). Agnar mætir Yuri Eijk (2062) frá Hollandi í 9. umferð.

Sjö íslendingar eru með 5,5 vinninga eftir átta umferðir; Henrik Danielsen (2514); Hjörvar Steinn Grétarsson (2554); Hannes Hlífar Stefánsson (2560); Björn Þorfinnsson (2403); Dagur Arngrímsson (2366); Áskell Örn Kárason (2274) og WGM Lenka Ptácníková (2242). 21 skákmaður er með fleiri vinninga og fyrir ofan Íslendingana í stigatöflunni (sjá stöðuna eftir átta umferðir hér). 273 skákmenn frá 38 löndum taka þátt í mótinu.

 Jón Viktor Gunnarsson getur tryggt sér stórmeistaraáfanga með sigri í dag. Hann mætir FM Tiboro Kende Antal (2317). Fyrir umferðina í dag er Jón Viktor með fimm vinninga.

Síðasta umferð mótsins fer fram í Hörpu á morgun. Í framhaldinu verður verðlaunaafhending og lokaathöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem mótinu verður formlega slitið.

Senda grein