Fréttir



Einn sterkasti skákmaður heims keppti við unga íslenska skákmenn

13.3.2015 Samfélagsmál

Aserski stórmeistarinn Shakhriyar Mamedyarov, 13. stigahæsti í heimi, tefldi fjöltefli í GAMMA í gær í tilefni af Reykjavíkurskákmótinu, GAMMA Reykjavik Open.

Aserski stórmeistarinn Shakhriyar Mamedyarov tefldi fjöltefli í GAMMA í gær í tilefni af Reykjavíkurskákmótinu, GAMMA Reykjavik Open, sem sett var formlega 10. mars og stendur til 18. mars.

Mamedyarov sem er 13. stigahæsti skákmaður heims og sá stigahæsti á Reykjavíkurskákmótinu og lykilmaður í landsliði Aserbaídsjan sem er núverandi Evrópumeistari landsliða.

Tíu skákmenn tefldu við Mamedyarov í fjölteflinu, þar á meðal nokkrir af efnilegustu skákmönnum ungu kynslóðarinnar eins og Nancy Davíðsdóttir sem varð fyrst stúlkna til að vinna Íslandsmeistaratitil barna í skák. Meðal annarra keppenda má nefna elsta keppanda Reykjavíkurskákmótsins, Pál G. Jónsson, fæddur 1933 og Gunnar Björnsson, forseta Skáksambands Íslands.

Mamedyarov hafði betur í öllum skákunum og það var glatt á hjalla í lok fjölteflisins, sérstaklega hjá yngri skákmönnunum sem fannst augljóslega mjög gaman að fá að tefla við einn sterkasta skákmann heims.

Metþátttaka er á Reykjavíkurskákmótinu, fimmta árið í röð, og tefla 273 skákmenn frá 38 löndum í Hörpu þessa dagana. Mótið nýtur mikillar virðingar í skákheiminum. Það var valið næst besta opna skákmót heims af samtökum atvinnuskákmanna í fyrra en þess má geta að mörg hundruð opin mót eru haldin um allan heim á hverju ári.

GAMMA er aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins til næstu fjögurra ára og var samstarfssamningur þess efnis undirritaður 26. janúar s.l.

Mynd: Frá vinstri: Baldur Teodor Petersson, Símon Þórhallsson, Shakhryar Mamedyarov, Nancy Davíðsdóttir og Vignir Vatnar Stefánsson.

Senda grein