FréttirGAMMA verður aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins

26.1.2015 Samfélagsmál

Fjármálafyrirtækið GAMMA verður aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins næstu fjögur árin.

GAMMA verður aðalstyrktaraðili Reykjavíkurskákmótsins næstu fjögur árin og undirrituðu Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands og Agnar Tómas Möller, fyrir hönd GAMMA, samstarfssamning í dag í húsakynnum GAMMA. Við sama tilefni var nýtt merki mótsins afhjúpað á sjálfum skákdeginum, sem haldinn er hátíðlegur á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga í skák. 

Gunnar Björnsson segist fagna tímamótasamstarfi við GAMMA um alþjóðlegu Reykjavíkurskákmótin 2015 til 2018.

„Sá öflugi stuðningur tryggir mótinu áframhaldandi umgjörð við hæfi. Áherslur GAMMA á fagmennsku og árangur falla vel að framtíðarsýn Skáksambandsins sem væntir góðs af samstarfinu við GAMMA, ekki síst varðandi mótið í ár og 80 ára afmælismót Friðriks Ólafssonar,“ segir Gunnar.

Agnar Tómas segir mjög jákvætt að GAMMA geti stutt við Reykjavíkurskákmótið næstu árin.

„Það er mikilvægt að Reykjavíkurskákmótið haldi áfram að vaxa bæði að vegleika og styrkleika. Mótið er kjölfesta í íslensku skáklífi og ýtir undir grósku í skákinni. Fyrirkomulag mótsins höfðar vel til almennings sem vill fylgjast með spennandi einvígum og fjölmargir íslenskir skákmenn fá að spreyta sig á sterkum erlendum keppendum. Það mun skila öflugra skáklífi þegar fram í sækir,“ segir Agnar Tómas.

Friðrik Ólafsson sem er áttræður í dag var viðstaddur undirskriftina. Friðrik varð Íslandsmeistari í skák 17 ára gamall árið 1952 og næstu árin var hann á meðal bestu skákmanna heims. Þá var Friðrik forseti FIDE frá 1978 til 1982 og skrifstofustjóri Alþingis um árabil. Reykjavíkurskákmótið er haldið honum til heiðurs í ár. Agnar Tómas skoraði á Friðrik í eina hraðskák við þetta tilefni sem afmælisbarnið samþykkti. Eftir snarpa viðureign bauð Friðrik jafntefli þrátt fyrir betri stöðu, sem Agnar þáði með þökkum.

Mynd 1: Gunnar Björnsson og Agnar Tómas Möller skrifa undir samstarfssamning til fjögurra ára. Viðstaddur undirritunina var Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslendinga, sem er áttræður í dag.

 

Mynd 2: Agnar Tómas Möller skoraði á Friðrik Ólafsson í hraðskák eftir að skrifað var undir samninginn.

 

 

Senda grein