FréttirRíkisábyrgð á undanhaldi

12.1.2015 Skoðun

Valdimar Ármann skrifar um umbyltingu á íslenskum skuldabréfamarkaði og undanhald ríkisábyrgðar.

Ríkisábyrgð á undanhaldi

Miklar breytingar er nú í farvatninu á íslenskum fjármálamarkaði  sem rekja má til fyrirhugaðrar umbyltingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Nú liggja fyrir frumvörp sem byggja á tillögum verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Af þeim má ráða að íslenskur skuldabréfamarkaður mun gerbreytast í kjölfarið sem og fjármögnun íbúðalána einstaklinga.

Stærsta breytingin, samkvæmt tillögunum, snýr að Íbúðalánasjóði. Í raun verður sjóðnum þrískipt; Í fyrsta lagi verður félagslegu hlutverki sjóðsins sinnt í nýrri húsnæðisstofnun, í öðru lagi verða almennar lánveitingar færðar til húsnæðislánafélaga sem rekin verða á „markaðsforsendum“ og í þriðja lagi mun „gamli Íbúðalánasjóðurinn“ starfa áfram og sinna umsýslu og stýringu á núverandi útlánum gagnvart útgefnum íbúðabréfum. Sérstaklega er tekið fram að núverandi reglur um fasteignalán fjármálafyrirtækja verði áfram í gildi og þannig verði bankarnir áfram mögulegir lánveitendur íbúðalána og verða því almenn íbúðalán framvegis í höndum nýrra húsnæðislánafélaga (og þar af eitt í eigu ríkisins) og bankanna. Í hnotskurn leiðir þetta til þess að ríkisábyrgð á lánveitingum til íbúðakaupa er hætt. Afleiðingin af því er að sjálfsögðu sú að skuldabréfum með ríkisábyrgð mun fækka hægt og bítandi á næstu áratugum er núverandi íbúðabréf með ríkisábyrgð munu greiðast niður og nýjar eignatryggðar skuldabréfaútgáfur banka og húsnæðislánafélaga verða gefnar út.

Á mynd hér að neðan má glögglega sjá hve veigamiklu hlutverki ríkisábyrgðin gegnir nú á íslenskum skuldabréfamarkaði en hlutfall skuldabréfa með ríkisábyrgð er um 90% af virkum markaði (virkur markaður hér skilgreindur sem skuldabréf skráð í Kauphöll með samningsbundna viðskiptavakt). Ef sú einfalda forsenda er gefin að útgáfa ríkisskuldabréfa og annarra skuldabréfa fyrirtækja og sveitarfélaga standi nokkurn vegin í stað hlutfallslega en sértryggð skuldabréf muni hægt og bítandi fylla skarðið, er íbúðabréfin greiðast niður, mun hlutfall ríkistryggðra bréfa af markaði fara í um 57% á næstu 10 árum og endar í um þriðjungi þegar íbúðabréfin hafa að fullu verið greidd niður. Að öllum líkindum verður þróunin ekki svo slétt og felld. Til að mynda má gera ráð fyrir að einungis hluti íbúðalána verði fjármagnaður með útgáfu sértryggðra bréf en á móti er jafnframt líklegt að útgáfa fyrirtækja og sveitarfélaga muni aukast.

Ört minnkandi hlutfall ríkisábyrgðar

Í ofanálag við breytingar á fjármögnun íbúðalána einstaklinga hafa einnig orðið miklar breytingar á lagaumhverfi lánveitinga til íbúðakaupa einstaklinga sem ekki sér enn fyrir endann á. Árið 2013 voru tekin upp ný lög um neytendalán í samræmi við tilskipun ESB og hér á landi voru lán með veði í fasteign innifalin. Meiri breytingar eru hér í vændum þar sem svokölluð veðlánatilskipun tók gildi innan ESB þann 4. febrúar  2014 er hefur það markmið að skapa einsleitan markað fyrir íbúðalán til neytenda. Ákvæði hennar verða líklega innleidd á Íslandi á sama tíma og aðildarríki ESB verða að taka hana upp sem er í byrjun árs 2016. Með þessari nýju tilskipun verða lán með fasteignaveði undanskilin lögum um neytendalán.  Samhliða þessu eru breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem varða fasteignalán og gerir eftirlitsaðilum það mögulegt, að hafa áhrif á getu banka til veitingu lána og setja reglur um áhættustýringu á fjármögnun og lánveitingar með tilliti til mismunandi tímalengda.

Í dag nemur markaðsvirði útgefinna íbúðabréfa um 1.000 milljörðum króna vegna fjármögnunar á íbúðalánum einstaklinga og ljóst er að þessari fjármögnun mun verða skipt út litið til framtíðar. Uppbygging á nýjum markaði fyrir svo stórar fjárhæðir þarfnast vel ígrundaðs undirbúnings. Hafa þarf í huga að gagnsæi, verðmyndun og seljanleiki skipta sköpum á skilvirkum skuldabréfamarkaði. Byggja þarf undir virkan markað með sértryggð skuldabréf bankanna, ásamt því að tryggja að tekið sé skilmerkilega á þeim í fjárfestingarheimildum stærri fjárfesta svo sem lífeyrissjóða, tryggingafélaga og verðbréfasjóða. Það er jafnframt umhugsunarefni að Lánasýslan hefur sett sér það markmið að viðhalda góðum óverðtryggðum vaxtaferli á meðan Íbúðalánasjóður hefur í rauninni verið grunnurinn í verðtryggðum vaxtaferli. Nú verður það verkefni Lánasýslunnar að viðhalda báðum ferlum. Miklar breytingar eru því framundan á íslenskum fjármálamarkaði.

Höfundur: Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA.

- Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 8. janúar 2015.

Senda grein